Innlent

Biðja Íslendinga sem eiga rétt á heilbrigðisþjónustu hérlendis að íhuga að koma heim

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra.
Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra. Vísir/Sigurjón

Utanríkisráðuneytið hefur birt tilkynningu þar sem koma fram mikilvægar upplýsingar sem beinast að þeim Íslendingum sem annað hvort eru á ferðalagi erlendis eða dveljast þar tímabundið og eiga rétt á heilbrigðisþjónustu á Íslandi.

Þar mælir ráðuneytið með því að þeir Íslendingar sem staddir eru erlendis íhugi heimför, ef tvö eða fleiri eftirfarandi atriða eiga við um þá:

• Ef þeir eru eldri en 60 ára

• Ef þú ert með undirliggjandi sjúkdóm

• Ef þeir eru fjarri vinum og fjölskyldu

• Ef þeir eiga ekki rétt á heilbrigðisþjónustu í landinu þar sem þeir dveljast eða heilbrigðiskerfið þar annar ekki álaginu.

Þá er vakin sérstök athygli á því að fólk sem sýnir sjúkdómseinkenni getur átt á hættu að vera synjað um innritun í flug, og því mælst til þess að fólk láti ekki óátalið að snúa heim við fyrsta tækifæri.

„Sóttvarnalæknir hefur meðal annars skilgreint Spán sem svæði með mikla smitáhættu og búast má við að álag verði talsvert á heilbrigðiskerfið þar í landi. Íslendingar sem koma frá Spáni skulu fara í sóttkví í fjórtán daga eftir heimkomu. Þetta tekur til allra hluta Spánar, þ.m.t. Kanaríeyja (Gran Canaria ,Tenerife og aðrar eyjar),“ segir jafnframt í tilkynningunni.

Eins er bent á að hægt er að hafa samband við borgaraþjónustu ráðuneytisins með skilaboðum á Facebook, tölvupósti í netfangið [email protected], eða í neyðarsíma +354-545-0-112. Síminn er opinn allan sólarhringinn.

Hér má nálgast tilkynningu utanríkisráðuneytisins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×