Sama hvort þér líkar við hann eða ekki, verður seint hægt að segja að Donald Trump sé hefðbundinn forseti Bandaríkjanna. Það virðist í raun vera meðal þess sem heillar stuðningsmenn hans hvað mest. Á hans fyrsta kjörtímabili hefur hann staðið í fjölmörgum umdeildum málum sem virðast flest hafa haft lítil á áhrif á fylgi hans. Hér að neðan verður stiklað á stóru um þau mál Trump sem hafa vakið hvað mesta hneykslun og fjallað lauslega um þau. 1. Innsetningarathöfnin Línurnar voru lagðar mjög snemma á kjörtímabili Trumps þegar Sean Spicer, fyrsti talsmaður forsetans af fjórum, steig í pontu í janúar 2017 og staðhæfði að innsetningarathöfn Trumps hefði verið „sú fjölmennasta í sögunni. PUNKTUR.“ Það var langt frá því að vera rétt en þetta var í fyrsta sinn sem Spicer steig í pontu á blaðamannafundi í Hvíta húsinu. Spicer var rekinn eftir 182 daga í starfi. Sarah Sanders tók við af honum og hún hætti svo eftir tæp tvö ár í starfi. Þá tók Stephanie Grisham við en á 281 degi í starfi hélt hún ekki einn blaðamannafund. Í apríl á þessu ári tók svo Kayleigh McEnany við en fyrsti blaðamannafundur hennar var ekki svo ólíkur fyrsta blaðamannafundi Spicer. Hún byrjaði á því að segja blaðamönnunum að hún myndi aldrei ljúga að þeim og sagði hún svo ítrekað ósatt á fundinum. 2. Börn í búrum Eitt af umdeildari málum forsetatíðar Donalds Trumps er aðskilnaður barna og foreldra á landamærum Bandaríkjanna og Mexíkó. Á fyrri hluta ársins 2018 gaf Trump út þá skipun að ákæra ætti alla þá sem ferðuðust yfir landamærin ólöglega og jafnvel þó það fæli í sér að börn yrðu aðskilin frá foreldrum. Það var í raun ekki hliðarverkun stefnubreytingarinnar heldur markmiðið. „Við þurfum að taka börn,“ sagði Jeff Sessions, þáverandi dómsmálaráðherra, við ríkissaksóknara þeirra fimm ríkja þar sem landamærin liggja. „Ef ykkur er ekki sama um börnin ykkar, ekki koma með þau,“ sagði Sessions samkvæmt glósum eins sem tók þátt í hópsímtalinu. Samkvæmt umfjöllun New York Times sagði Rod Rosenstein aðstoðardómsmálaráðherra við sömu saksóknara um viku seinna að það skipti ekki máli hve gömul börnin væru. Lögmenn ríkisins ættu ekki að neita að ákæra foreldra þó ungabörn væru með í för. Hætti við vegna mótmæla Að endingu var fallið frá þessari stefnubreytingu vegna mikilla mótmæla í Bandaríkjunum og víðar. Þúsundir fjölskyldna höfðu þá verið aðskildar. Þá kom nýverið í ljós að foreldrar 545 barna hafa enn ekki fundist og er talið að bróðurparti þeirra hafi verið vísað úr landi án barnanna. Nánar tiltekið skipaði dómari ríkisstjórninni að sameina fjölskyldurnar aftur í úrskurði í júní 2018. Gaf hann ríkinu 30 daga. Sá úrskurður náði þó ekki yfir stóran hóp barna sem höfðu verið tekin frá foreldrum sínum árið 2017. Skipunin að sameina þau foreldrum sínum var ekki gefin fyrr en í fyrra. Af rúmlega þúsund börnum, er ekki enn búið að finna foreldra 545 barna. Fjölmörg börn hafa þó verið aðskilin frá foreldrum sínum eftir úrskurðinn sem nefndur er hér að ofan. Þar að auki hafa fregnir borist af því að börn hafi verið ættleidd af bandarískum pörum, án samráðs við raunverulega foreldra þeirra, sem hafa jafnvel verið sendir úr landi án barnanna. 3. „Gott fólk“ í báðum fylkingum Í ágúst 2017 komu margir þjóðernissinnar og nýnasistar saman í borginni Charlottesville. Þar gengu þeir um götur og kom til uppþota á milli þeirra og annarra sem komu saman til að mótmæla samkomunni. Boðað var til samkomunnar undir nafni öfgahægrihreyfingarinnar sem kennd hefur verið við „alt-right“ og undir yfirskriftinni „Sameinum hægrið“. Þeir sem mættu voru samsafn hvítra þjóðernissinna, nær eingöngu karlmenn, sem telja í raun að hvítt fólk sæti ofsóknum í Bandaríkjunum og að verið sá að þurrka út sögu þeirra. Kona lét lífið þegar einn nýnasistanna ók bíl sínum í gegnum þvögu mótmælenda. Sá hefur verið dæmdur í lífstíðarfangelsi. Trump vakti mikla athygli í kjölfarið þegar hann kenndi báðum fylkingum um ofbeldið. Hann sagði daginn hafa verið hræðilegan en það hefði verið „gott fólk“ í báðum fylkingum. Þau ummæli voru fordæmd víða í Bandaríkjunum. Ummæli Trump féllu ekki í kramið vestanhafs og var Trump harðlega gagnrýndur. Joe Biden, mótframbjóðandi Trump, hefur þar að auki sagt að það sé vegna þessara ummæla sem hann hafi ákveðið að bjóða sig fram gegn Trump. Þarna má sömuleiðis segja að Trump hafi lagt línurnar fyrir fyrsta kjörtímabil sitt en síðan þá hefur hann ítrekað dregið lappirnar í að fordæma hægri sinnaða öfgahópa, eins og Proud Boys og QAnon hreyfinguna. 4. Múrinn sem Bandaríkjamenn greiða fyrir Í baráttu sinni fyrir kosningarnar 2016 hét Trump því að reisa múr á landamærum Bandaríkjanna og Mexíkó. Hann sagði að yfirvöld í Mexíkó myndu greiða fyrir byggingu múrsins, sem myndi kosta fúlgu fjár, þar sem landamæri ríkjanna eru 3.144 kílómetra löng. Til samanburðar er hringvegurinn um Ísland 1.332 kílómetrar. Því þyrfti að fara hann allan í tvígang og svo til dæmis bæta við vegalengdinni milli Reykjavíkur og Húsavíkur (norðurleiðin) til að komast sömu vegalengd og um ræðir. Áður hafði verið búið að koma fyrir girðingum eða múr á um þúsund kílómetra kafla. Í kosningabaráttunni var Donald Trump tíðrætt um nauðsyn þess að reisa múrinn til að koma í veg fyrir straum ólöglegra illflytjenda til Bandaríkjanna. Lét hann meðal annars þau orð falla að stór hluti þeirra væru „nauðgarar“. Hann hefur sömuleiðis sagt múrinn nauðsynlegan til að sporna gegn flutningi fíkniefna til Bandaríkjanna. Fregnir hafa þó borist af því að fíkniefnasmyglarar hafi sagað sig í gegnum múrinn, án mikillar fyrirhafnar. Þannig hafi þeir komið bæði fólki og fíkniefnum til Bandaríkjanna. Mexíkóar hafa frá upphafi þvertekið fyrir að þeir myndu greiða fyrir byggingu múrsins. Trump hefur sagst ætla að þvinga þá til þess með sköttum og tollum á vörur frá Mexíkó en sá kostnaður myndi á endanum lenda á bandarískum neytendum. Lítill áhugi meðal Repúblikana Trump leitaði til Repúblikana, sem stjórnuðu báðum deildum þingsins og Hvíta húsinu á fyrstu tveimur árum kjörtímabils Trumps. Þeir sýndu múrnum þó lítinn áhuga og áhuginn varð enginn þegar Demókratar tryggðu sér meirihluta í fulltrúadeildinni í kosningunum 2018. Trump og Repúblikanar gagnrýndu Demókrata harðlega og á endanum leitaði Trump annarra ráða og lýsti yfir neyðarástandi á landamærunum svo hann gæti nálgast fé úr neyðarsjóðum hersins til að byggja múrinn. Síðan þá hefur Trump tryggt sér töluverða fjármuni úr hinum ýmsu sjóðum ríkisins til að reisa múr. Hann hefur fengið 6,3 milljarða dala úr and-fíkniefnasjóðum, 3,6 milljarða úr framkvæmdasjóðum herafla Bandaríkjanna, um 600 milljónir úr sjóðum sem Fjármálaráðuneytið hefur gert upptækt og fimm milljarða til viðbótar, samkvæmt umfjöllun CNN. Mexíkóar hafa frá upphafi þvertekið fyrir að þeir myndu greiða fyrir byggingu múrsins.EPA/Luis Torres Þá standa yfir dómsmál vegna notkunar Trumps á sjóðum sem tengjast landamærunum ekki á neinn hátt. Þann 18. september var búið að reisa múr á 532 kílómetra kafla á landamærunum. Þar af er þó eingöngu um 15 kílómetra kafli þar sem ekki var girðing eða múr fyrir. Að mestu hefur múr verið reistur í stað annars múrs eða girðingar. Þrátt fyrir að Trump haldi því enn fram að Mexíkó borgi fyrir múrinn er ljóst að hann kostar mun meira en ríkisstjórn Trumps hefur haldið fram hingað til og að fjármagnið til að reisa hann mun koma úr vösum Bandaríkjamanna. 5. Ríkisstofnunum lokað vegna deilna Rekstur alríkisins í Bandaríkjunum hefur tvisvar sinnum verið stöðvaður á kjörtímabili Trumps vegna deilna um fjárlög og fjárveitingar. Í báðum tilfellum hafa deilurnar að mestu snúist um málefni innflytjenda og landamæranna. Í fyrra skiptið var rekstur alríkisstofnana stöðvaður í janúar 2018. Þingmenn Bandaríkjaþings náðu þá ekki saman um fjárlög til lengri tíma og aðallega vegna mótmæla öldungadeildarþingmanna Demókrataflokksins sem kröfðust þess að tryggja ætti vernd þeirra sem fluttir voru ólöglega til Bandaríkjanna sem börn. Sú trygging kallast DACA í daglegu tali og hafði Trump reynt að fella hana úr gildi. Það vildu Repúblikanar ekki gera en stöðvunin varði þó ekki lengi. Þingmenn náðu samkomulagi um bráðabirgðalausn og samþykktu svo fjárlög í mars. Trump skrifaði undir þau með semingi. Þá hafði hann krafist þess að fá 25 milljarða dala til að byggja múr en fékk einungis 1,6 milljarð. Buðu Trump múr fyrir DACA Demókratar höfðu raunar boðið Trump samkomulag um landamæramúrinn. Þeir voru tilbúnir að fallast á fulla fjármögnun hans gegn því að skjólstæðingar DACA-áætlunarinnar hlytu áframhaldandi vernd. Trump hafnaði því tilboði hins vegar vegna þess að í því fólst ekki niðurskurður í komum löglegra innflytjenda sem hann vildi. Þegar baráttan um fjárveitingar vegna múrsins stóð sem hæst undir lok ársins 2018 var rekstur alríkisstofnana stöðvaður á nýjan leik. Þá krafðist Trump þess að fá minnst 5,7 milljarða dala til að reisa múrinn en því höfnuðu Demókratar alfarið og sögðu það sóun á almannafé. Þá voru Repúblikanar með meirihluta í báðum deildum þingsins en 60 atkvæði þurfti í öldungadeildinni til að samþykkja frumvarp. Repúblikanar náðu því ekki án aðkomu Demókrata. Vinsældir Trumps náðu sögulegu lágmarki á þessu tímabili og kenndu flestir kjósendur honum um stöðuna, samkvæmt könnunum. 6. Trúir Pútín frekar en eigin leyniþjónstum Donald Trump fór til Helsinki í Finnlandi um sumarið 2016 og þar hitti hann fyrir Vladimír Pútín, forseta Rússlands. Á fundi þeirra krafðist Trump að engir aðrir yrðu í herberginu en túlkar og gerði hann glósur túlks síns upptækar eftir fundinn. Á blaðamannafundi í kjölfar fundarhaldanna neitaði Trump að segja að Rússar hefðu haft afskipti af forsetakosningunum í Bandaríkjunum árið 2016 og sagðist hann trúa Pútín frekar en leyniþjónustum Bandaríkjanna og annarra. Þeir höfðu sagt Rússa haft afskipti af kosningunum með það að markmiði að hjálpa Trump að ná kjöri. Þetta vakti mikinn usla í Bandaríkjunum og jafnvel meðal þingmanna Repúblikanaflokksins. Öldungadeildarþingmaður John McCain, sem nú er látinn, sagði framgöngu Trump í Helsinki vera þá skammarlegustu í manna minnum. Paul Ryan, þáverandi leiðtogi meirihluta Repúblikanaflokksins í fulltrúadeild Bandaríkjaþings, gagnrýndi Trump sömuleiðis og sagði það alveg ljóst að Rússar hefðu haft afskipti af kosningunum. „Forsetinn verður að átta sig á því að Rússar eru ekki bandamenn okkar,“ sagði Ryan. Allt kjörtímabilið hefur Trump þó virst neita að standa í hárinu á Pútín. Þá hefur það vakið athygli að Trump hefur falið heimildir um fundi hans og Pútíns. Í janúar í fyrra voru engin opinber gögn til um hvað fór fram á þeim fimm fundum sem Trump og Pútín höfðu átt augliti til auglitis. Gagnrýnin í garð Trumps jókst í kjölfar þess að fregnir bárust af því að yfirvöld í Rússlandi hefðu boðið Talibönum og öðrum vígamönnum verðlaunafé fyrir að fella bandaríska hermenn. Trump sagði frá því í sumar að þrátt fyrir að hafa rætt minnst átta sinnum við Pútín í síma, frá því að honum var sagt frá verðlaunafénu, hefði hann aldrei rætt málið við rússneska forsetann. Líkar vel við Pútín Framkoma Trumps gagnvart Pútín hefur lengi vakið mikla furðu en Trump sjálfur hefur sagt að hann kunni vel Pútín og rússneski forsetinn kunni vel við hann. Sérstaklega með tilliti til þess að leyniþjónustur Bandaríkjanna og löggæslustofnanir hafi varað við því að yfirvöld í Rússlandi séu, að skipun Pútíns, að reyna að hafa áhrif á komandi forsetakosningar og í raun að grafa undan lýðræði í Bandaríkjunum. 7. Greiðslur gegn þögn Michael Cohen, fyrrverandi einkalögmaður Donalds Trumps, var í desember 2018 dæmdur fyrir brot á kosningalögum, skattsvik og að hafa logið að rannsóknarnefnd fulltrúadeildar Bandaríkjaþings. Brot hans á kosningalögum tengist greiðslu til klámmyndaleikkonunnar sem gengur undir nafninu Stormy Daniels. Hún hefur haldið því fram að hún hafi sængað hjá Trump, skömmu eftir að Melania Trump fæddi Baron, yngsta son hans. Skömmu fyrir kosningarnar 2016 greiddi Cohen Daniels 130 þúsund dali fyrir þögn hennar. Það hefur verið skilgreint sem framlag til framboðs Trump, þar sem greiðslan var augljóslega í tengslum við kosningarnar, en hámarksframlag einstaklings til stjórnmálaframboðs er 2.700 dalir. Það sem meira er, þá endurgreiddi fyrirtæki Trump Cohen upphæðina og rúmlega það. Keyptu sögur og sátu á þeim Málið sneri einnig að greiðslum til Karen McDougal, fyrrverandi fyrirsætu tímaritsins Playboy. Fyrirtækið American Media Inc., sem gefur út National Enquirer, keypti sögu McDougal, um meint framhjáhald Trumps með henni, fyrir 150 þúsund dali. Útgefandi National Enquirer er David J. Pecker, vinur Trumps til langs tíma og er sagður hafa látið Cohen vita af því að Stormy Daniels ætlaði sér að selja sögu sína til fjölmiðla. Blaðið keypti einkaréttinn að sögu McDougal, með það að markmiði að birta hana aldrei og hlífa Trump. Málið þótti mjög umdeilt, og gerir enn. Meðal annars kom til umræðu að kæra Trump fyrir embættisbrot, sem var þó ekki gert fyrr en um ári seinna. 8. Reyndi að þvinga Úkraínumenn til að koma höggi á Biden Fulltrúadeild Bandaríkjaþings ákærði Trump formlega fyrir embættisbrot þann 18. desember í fyrra. Hann varð þar með aðeins þriðji forsetinn í sögu Bandaríkjanna til að verða ákærður. Það var gert eftir að í ljós kom að hann hafði reynt að þvinga Volodýmýr Zelenskíj, forseta Úkraínu, til að tilkynna að yfirvöld þar í landi hefðu hafði rannsókn á meintri spillingu Joe Biden í Úkraínu. Biden þótti þá líklegastur til að hljóta tilnefningu Demókrataflokksins til forsetaframboðs, sem hann svo gerði. Ákærurnar voru í raun tvær. Hann var sakaður um að misnota vald sitt og standa í vegi þingsins vegna rannsóknar fulltrúadeildarinnar. Hvíta húsið neitaði alfarið að afhenda rannsakendum fulltrúadeildarinnar gögn og meinaði embættismönnum að bera vitni. Þar á meðal aðilum sem gætu varpað ljósi á málið eins og John Bolton, fyrrverandi þjóðaröryggisráðgjafi, Mike Pompeo, utanríkisráðherra, og Mick Mulvaney, starfandi starfsmannastjóri Hvíta hússins. Trump fetaði þar með í fótspor Andrew Johnson sem ákærður var árið 1868 fyrir embættisbrot. Bill Clinton var ákærður árið 1998. Hvorugur þeirra missti þó forsetaembættið og hefur því enginn forseti verið settur af eftir að hafa verið ákærður af þinginu. Fylgdu að mestu flokkslínum Trump var einnig sýknaður af öldungadeild þingsins. Atkvæðagreiðslan um fyrri ákæruna, misnotkun valds, fór að mestu eftir flokkslínum, 52-48. Mitt Romney var eini þingmaður Repbúlikanaflokksins sem greiddi atkvæði með henni. Romney varð þar með fyrsti þingmaðurinn til að greiða atkvæði gegn forseta í eigin flokki í máli sem þessu. Atkvæðagreiðslan varðandi seinni ákæruna fylgdi flokkslínum, 53-47. 9. Faraldur nýju kórónuveirunnar Það sem virðist hafa komið hvað mest niður á fylgi Trump og vinsældum hans meðal kjósenda er faraldur nýju kórónuveirunnar. Hann hefur hvergi í heiminum smitað fleiri en í Bandaríkjunum, svo vitað sé, og hvergi hafa fleiri dáið vegna Covid-19 en í Bandaríkjunum. Alls hafa um níu milljónir manna greinst smitaðir og um 230 þúsund hafa dáið. Ríkisstjórn Trump hefur verið harðlega gagnrýnd fyrir viðbrögð við faraldrinum. Sjálfur hefur Trump frá upphafi talað niður hættuna vegna faraldursins og gert lítið úr grímunotkun og annars konar sóttvörnum. Trump hefur viðurkennt að hafa gert lítið úr faraldrinum og segist hafa gert það til að forðast skelfingu. Ríkisstjórn hans hefur þó sérstaklega verið gagnrýnd fyrir að undirbúa sig lítið sem ekkert fyrir faraldurinn þegar hann hófst. Um tveir mánuðir liðu frá því að Bandaríkjastjórn fékk fyrstu upplýsingarnar um kórónuveirufaraldurinn í Kína þar til alríkisstjórnin greip til umtalsverðra aðgerða til að hefta útbreiðsluna. Afneitun og vanvirkni í röðum æðstu ráðamanna er sögð hafa átt þátt í að tímanum sem hefði getað nýst í undirbúning var kastað á glæ. Þessa dagana hefur Trump haldið því fram að Bandaríkjamenn séu við það að ná tökum á faraldrinum, sem er þvert á þann raunveruleika að útbreiðsla nýju kórónuveirunnar hefur náð nýjum hæðum í Bandaríkjunum. Í yfirlýsingu frá vísinda- og tækniráði Hvíta hússins í vikunni var það að hafa bundið enda á faraldur Nýju kórónuveirunnar í Bandaríkjunum, væri eitt af afrekum Trumps á fyrsta kjörtímabili hans. Þá sagði Mark Meadows, starfsmannastjóri Hvíta hússins, nýverið í viðtali að ekki væri hægt að ná tökum á svona faraldri og þótti það til marks um uppgjöf ríkisstjórnar Trumps. 10. Viðskiptastríð við Kína Trump hóf snemma árs 2018 miklar viðskiptadeildur við Kína, næststærsta hagkerfi heimsins, en í kosningabaráttu hans sakaði hann Kínverja um ósanngjarna viðskiptahætti. Þær ásakanir sneru og snúa að mörgu leyti að þjófnaði á iðnaðarleyndarmálum og það að mörg framleiðslustörf hafi flust frá Bandaríkjunum til Kína. Trump byrjaði á því að leggja tolla á kínverskar vörur og Kínverjar svöruðu fyrir sig með tollum. Samkomulag náðist svo í upphafi þessa árs sem átti að draga úr spennunni. Það hefur ekki virkað sem skyldi og hefur spennan á milli Bandaríkjanna og Kína ekki verið meiri í langan tíma. Á meðan viðskiptadeilurnar stóðu yfir dró töluvert útflutningi Kínverja til Bandaríkjanna en sú þróun hefur gengið nokkuð til baka á árinu. Hækkandi vöruverð hefur þó leitt til þess að Bandaríkjamenn hafa leitað á önnur mið. Veruleg aukning hefur verið á innflutningi frá Víetnam og Mexíkó. Þeir sem töpuðu mest á viðskiptadeilunum eru Kína og Bandaríkin, samkvæmt Yasuyuki Sawada, yfirhagfræðingi þróunarbanka Asíu, sem ræddi við blaðamenn DW. Deilurnar komu sömuleiðis verulega niður á bandarískum bændum, sem seldu mikið af afurðum til Kína. Árið 2017 fluttu bandarískir bændur sojabaunir úr landi fyrir 12,2 milljarða dala. Árið 2018 féll útflutningurinn í 3,1 milljarð dala og var hann átta milljarðar í fyrra. Sagður vilja hjálp Xi Með viðræðum á milli ríkjanna hefur Trump reynt að fá Kínverja til að kaupa aftur sojabaunir, svínakjöt og aðrar vörur af Bandaríkjamönnum. Samningamenn Kína samþykktu það en faraldur nýju kórónuveirunnar hefur komið niður á þeim kaupum. Heilt yfir eru bandarískir bændur stuðningsmenn Trump og hefur hann verið sakaður um að fórna hagi Bandaríkjanna í viðræðum við Kína, til að koma bændum til bjargar. Meðal annars var því haldið fram í bók John Bolton, fyrrverandi þjóðaröryggisráðgjafa Trump. Bolton sagði að í desember 2018 og júí 2019 hefði Trump persónulega beðið Xi Jinping, forseta Kína, um að kaupa afurðir frá Bandaríkjunum með það í huga að það myndi hjálpa honum sjálfum pólitískt. Starfsmenn Hvíta hússins hafa hafnað þessum ásökunum. Samhliða því hefur Trump varið rúmlega 50 milljörðum dala af opinberum peningum til að hjálpa bandarískum bændum. Trump beitti einnig tollum gegn Kanada, Mexíkó og Evrópusambandinu, sem hann segir hafa rænt Bandaríkin um árabil. 11. Starfsmannaveltan og óreiðan Frá fyrsta degi hefur Hvíta hús Donalds Trumps einkennst af mikilli starfsveltu og oft á tíðum óreiðu. Fjölmiðlar vestanhafs hafa sagt fregnir af illdeilum meðal starfsmanna Hvíta hússins og andrúmslofti þar sem lög frumskógarins ráða ríkjum. Þann 7. október hafði starfsmannaveltan verið 91 prósent þegar kemur að hæst settu embættum Hvíta hússins, samkvæmt samantekt Brookings hugveitunnar. Tíu ráðherrar farnir Á hans fyrsta kjörtímabili hafa til að mynda tíu ráðherrar látið af störfum. -Tom Price hætti sem heilbrigðisráðherra eftir að í ljós kom að ferðaðist ítrekað með einkaþotum í opinberum erindagjörðum. -Rex Tillerson hætti sem Utanríkisráðherra. Samband þeirra beið mikla hnekki þegar fregnir bárust af því að Tillerson hefði kallað Trump fávita. Eftir að Tillerson sagði Trump ítrekað hafa reynt að gera ólöglega hluti, sagði forsetinn að utanríkisráðherrann fyrrverandi væri „grjótheimskur“. -David Shulkin hætti sem ráðherra málefna uppgjafahermanna. -Jeff Sessions var bolað úr starfi Dómsmálaráðherra. Trump var verulega ósáttur við að Sessions lýsti sig vanhæfan til að hafa umsjón með Rússarannsókninni svokölluðu. -Jim Mattis hætti sem varnarmálaráðherra í kjölfar þess að Trump tók einhliða ákvörðun um að kalla hermenn Bandaríkjanna í skyndi frá Sýrlandi og gefa Tyrkjum grænt ljós á að herja gegn sýrlenskum Kúrdum, sem höfðu verið bandamenn Bandaríkjanna gegn Íslamska ríkinu. Síðan þá hefur Mattis sakað Trump um að sundra Bandaríkjamönnum vísvitandi. -Ryan Zinke hætti sem Innanríkisráðherra í skugga ásakana um misferli. Hann seldi meðal annars land til stórfyrirtækisins Halliburton í heimabæ sínum Whitefish sem endurskoðendur telja að hafi verið mögulegur hagsmunaárekstur hans sem ráðherra. -Alex Acosta hætti sem atvinnumálaráðherra í ágúst í fyrra. Þá vegna máls barnaníðingsins Jeffrey Epstein. Acosta hafði verið saksóknari í Flórída fyrir fjölmörgum árum og gerði umdeilt samkomulag við Epstein. -Rick Perry hætti sem orkumálaráðherra, viku eftir að hann var hér á Íslandi. Þá sagðist hann ekki vera á leið úr embætti. Perry var einn af þeim sem komu að viðleitni Trump til að þvinga yfirvöld í Úkraínu til að koma höggi á Joe Biden. Það endaði með því að forsetinn var ákærður fyrir embættisbrot. -John F. Kelly hætti svo sem heimavarnaráðherra og varð starfsmannastjóri Hvíta hússins. Hann á að hafa kallað Trump fífl nokkrum sinnum svo starfsmenn Hvíta hússins heyrðu til. Eftir að hann hætti hefur Trump gagnrýnt hann harðlega og sagði blaðafulltrúi Hvíta hússins einu sinni að Kelly hefði ekki ráðið við „snilligáfu“ forsetans. -Kirstjen Nielsen, sem tók við af Kelly sem heimvarnaráðherra er einnig hætt. Hún sagði af sér í apríl í fyrra á fundi með Trump. Hún hafði verið boðuð á fundinn vegna óánægju Trumps með að geta ekki alfarið lokað landamærum Bandaríkjanna og Mexíkó. Veltan gífurleg Varðandi starfsmannastjóra Hvíta hússins hafa þeir verið alls fjórir. Reince Priebus byrjaði 20. janúar 2017 og hætti 31. júlí sama ár. John F. Kelly tók við af honum og hætti 2. janúar 2019. Þá tók Mick Mulvaney við en hann hætti 31. mars 2020 og síðan þá hefur Mark Meadows sinnt starfinu. Trump hefur sem sagt verið með fjóra starfsmannastjóra, sex aðstoðarstarfsmannastjóra, sex samskiptastjóra, fjóra þjóðaröryggisráðgjafa, sex aðstoðarþjóðaröryggisráðgjafa og fjölmarga aðra í öðrum stöðum. Donald Trump Bandaríkin Forsetakosningar í Bandaríkjunum Fréttaskýringar Mest lesið Skyndileg krafa upp á milljónir króna eins og lélegt grín Innlent Kosningavaktin: Íslendingar ganga að kjörborðinu Innlent Hér eru „þessar elskur“ Innlent Brenna líkin á nóttunni Innlent Svona var fundur ráðherra og ríkislögreglustjóra um landamærin Innlent Allar landamærastöðvar efldar og þeim mögulega fækkað Innlent Óvissustig á Hellisheiði, í Þrengslum og á Mosfellsheiði Innlent Starfsmenn Arion himinlifandi með daggæsluna Innlent Fólk velji frekar Sósíalista því VG hafi stungið kjósendur í bakið Innlent Leita óprúttins aðila sem kveikti í kjörkössum Erlent
Sama hvort þér líkar við hann eða ekki, verður seint hægt að segja að Donald Trump sé hefðbundinn forseti Bandaríkjanna. Það virðist í raun vera meðal þess sem heillar stuðningsmenn hans hvað mest. Á hans fyrsta kjörtímabili hefur hann staðið í fjölmörgum umdeildum málum sem virðast flest hafa haft lítil á áhrif á fylgi hans. Hér að neðan verður stiklað á stóru um þau mál Trump sem hafa vakið hvað mesta hneykslun og fjallað lauslega um þau. 1. Innsetningarathöfnin Línurnar voru lagðar mjög snemma á kjörtímabili Trumps þegar Sean Spicer, fyrsti talsmaður forsetans af fjórum, steig í pontu í janúar 2017 og staðhæfði að innsetningarathöfn Trumps hefði verið „sú fjölmennasta í sögunni. PUNKTUR.“ Það var langt frá því að vera rétt en þetta var í fyrsta sinn sem Spicer steig í pontu á blaðamannafundi í Hvíta húsinu. Spicer var rekinn eftir 182 daga í starfi. Sarah Sanders tók við af honum og hún hætti svo eftir tæp tvö ár í starfi. Þá tók Stephanie Grisham við en á 281 degi í starfi hélt hún ekki einn blaðamannafund. Í apríl á þessu ári tók svo Kayleigh McEnany við en fyrsti blaðamannafundur hennar var ekki svo ólíkur fyrsta blaðamannafundi Spicer. Hún byrjaði á því að segja blaðamönnunum að hún myndi aldrei ljúga að þeim og sagði hún svo ítrekað ósatt á fundinum. 2. Börn í búrum Eitt af umdeildari málum forsetatíðar Donalds Trumps er aðskilnaður barna og foreldra á landamærum Bandaríkjanna og Mexíkó. Á fyrri hluta ársins 2018 gaf Trump út þá skipun að ákæra ætti alla þá sem ferðuðust yfir landamærin ólöglega og jafnvel þó það fæli í sér að börn yrðu aðskilin frá foreldrum. Það var í raun ekki hliðarverkun stefnubreytingarinnar heldur markmiðið. „Við þurfum að taka börn,“ sagði Jeff Sessions, þáverandi dómsmálaráðherra, við ríkissaksóknara þeirra fimm ríkja þar sem landamærin liggja. „Ef ykkur er ekki sama um börnin ykkar, ekki koma með þau,“ sagði Sessions samkvæmt glósum eins sem tók þátt í hópsímtalinu. Samkvæmt umfjöllun New York Times sagði Rod Rosenstein aðstoðardómsmálaráðherra við sömu saksóknara um viku seinna að það skipti ekki máli hve gömul börnin væru. Lögmenn ríkisins ættu ekki að neita að ákæra foreldra þó ungabörn væru með í för. Hætti við vegna mótmæla Að endingu var fallið frá þessari stefnubreytingu vegna mikilla mótmæla í Bandaríkjunum og víðar. Þúsundir fjölskyldna höfðu þá verið aðskildar. Þá kom nýverið í ljós að foreldrar 545 barna hafa enn ekki fundist og er talið að bróðurparti þeirra hafi verið vísað úr landi án barnanna. Nánar tiltekið skipaði dómari ríkisstjórninni að sameina fjölskyldurnar aftur í úrskurði í júní 2018. Gaf hann ríkinu 30 daga. Sá úrskurður náði þó ekki yfir stóran hóp barna sem höfðu verið tekin frá foreldrum sínum árið 2017. Skipunin að sameina þau foreldrum sínum var ekki gefin fyrr en í fyrra. Af rúmlega þúsund börnum, er ekki enn búið að finna foreldra 545 barna. Fjölmörg börn hafa þó verið aðskilin frá foreldrum sínum eftir úrskurðinn sem nefndur er hér að ofan. Þar að auki hafa fregnir borist af því að börn hafi verið ættleidd af bandarískum pörum, án samráðs við raunverulega foreldra þeirra, sem hafa jafnvel verið sendir úr landi án barnanna. 3. „Gott fólk“ í báðum fylkingum Í ágúst 2017 komu margir þjóðernissinnar og nýnasistar saman í borginni Charlottesville. Þar gengu þeir um götur og kom til uppþota á milli þeirra og annarra sem komu saman til að mótmæla samkomunni. Boðað var til samkomunnar undir nafni öfgahægrihreyfingarinnar sem kennd hefur verið við „alt-right“ og undir yfirskriftinni „Sameinum hægrið“. Þeir sem mættu voru samsafn hvítra þjóðernissinna, nær eingöngu karlmenn, sem telja í raun að hvítt fólk sæti ofsóknum í Bandaríkjunum og að verið sá að þurrka út sögu þeirra. Kona lét lífið þegar einn nýnasistanna ók bíl sínum í gegnum þvögu mótmælenda. Sá hefur verið dæmdur í lífstíðarfangelsi. Trump vakti mikla athygli í kjölfarið þegar hann kenndi báðum fylkingum um ofbeldið. Hann sagði daginn hafa verið hræðilegan en það hefði verið „gott fólk“ í báðum fylkingum. Þau ummæli voru fordæmd víða í Bandaríkjunum. Ummæli Trump féllu ekki í kramið vestanhafs og var Trump harðlega gagnrýndur. Joe Biden, mótframbjóðandi Trump, hefur þar að auki sagt að það sé vegna þessara ummæla sem hann hafi ákveðið að bjóða sig fram gegn Trump. Þarna má sömuleiðis segja að Trump hafi lagt línurnar fyrir fyrsta kjörtímabil sitt en síðan þá hefur hann ítrekað dregið lappirnar í að fordæma hægri sinnaða öfgahópa, eins og Proud Boys og QAnon hreyfinguna. 4. Múrinn sem Bandaríkjamenn greiða fyrir Í baráttu sinni fyrir kosningarnar 2016 hét Trump því að reisa múr á landamærum Bandaríkjanna og Mexíkó. Hann sagði að yfirvöld í Mexíkó myndu greiða fyrir byggingu múrsins, sem myndi kosta fúlgu fjár, þar sem landamæri ríkjanna eru 3.144 kílómetra löng. Til samanburðar er hringvegurinn um Ísland 1.332 kílómetrar. Því þyrfti að fara hann allan í tvígang og svo til dæmis bæta við vegalengdinni milli Reykjavíkur og Húsavíkur (norðurleiðin) til að komast sömu vegalengd og um ræðir. Áður hafði verið búið að koma fyrir girðingum eða múr á um þúsund kílómetra kafla. Í kosningabaráttunni var Donald Trump tíðrætt um nauðsyn þess að reisa múrinn til að koma í veg fyrir straum ólöglegra illflytjenda til Bandaríkjanna. Lét hann meðal annars þau orð falla að stór hluti þeirra væru „nauðgarar“. Hann hefur sömuleiðis sagt múrinn nauðsynlegan til að sporna gegn flutningi fíkniefna til Bandaríkjanna. Fregnir hafa þó borist af því að fíkniefnasmyglarar hafi sagað sig í gegnum múrinn, án mikillar fyrirhafnar. Þannig hafi þeir komið bæði fólki og fíkniefnum til Bandaríkjanna. Mexíkóar hafa frá upphafi þvertekið fyrir að þeir myndu greiða fyrir byggingu múrsins. Trump hefur sagst ætla að þvinga þá til þess með sköttum og tollum á vörur frá Mexíkó en sá kostnaður myndi á endanum lenda á bandarískum neytendum. Lítill áhugi meðal Repúblikana Trump leitaði til Repúblikana, sem stjórnuðu báðum deildum þingsins og Hvíta húsinu á fyrstu tveimur árum kjörtímabils Trumps. Þeir sýndu múrnum þó lítinn áhuga og áhuginn varð enginn þegar Demókratar tryggðu sér meirihluta í fulltrúadeildinni í kosningunum 2018. Trump og Repúblikanar gagnrýndu Demókrata harðlega og á endanum leitaði Trump annarra ráða og lýsti yfir neyðarástandi á landamærunum svo hann gæti nálgast fé úr neyðarsjóðum hersins til að byggja múrinn. Síðan þá hefur Trump tryggt sér töluverða fjármuni úr hinum ýmsu sjóðum ríkisins til að reisa múr. Hann hefur fengið 6,3 milljarða dala úr and-fíkniefnasjóðum, 3,6 milljarða úr framkvæmdasjóðum herafla Bandaríkjanna, um 600 milljónir úr sjóðum sem Fjármálaráðuneytið hefur gert upptækt og fimm milljarða til viðbótar, samkvæmt umfjöllun CNN. Mexíkóar hafa frá upphafi þvertekið fyrir að þeir myndu greiða fyrir byggingu múrsins.EPA/Luis Torres Þá standa yfir dómsmál vegna notkunar Trumps á sjóðum sem tengjast landamærunum ekki á neinn hátt. Þann 18. september var búið að reisa múr á 532 kílómetra kafla á landamærunum. Þar af er þó eingöngu um 15 kílómetra kafli þar sem ekki var girðing eða múr fyrir. Að mestu hefur múr verið reistur í stað annars múrs eða girðingar. Þrátt fyrir að Trump haldi því enn fram að Mexíkó borgi fyrir múrinn er ljóst að hann kostar mun meira en ríkisstjórn Trumps hefur haldið fram hingað til og að fjármagnið til að reisa hann mun koma úr vösum Bandaríkjamanna. 5. Ríkisstofnunum lokað vegna deilna Rekstur alríkisins í Bandaríkjunum hefur tvisvar sinnum verið stöðvaður á kjörtímabili Trumps vegna deilna um fjárlög og fjárveitingar. Í báðum tilfellum hafa deilurnar að mestu snúist um málefni innflytjenda og landamæranna. Í fyrra skiptið var rekstur alríkisstofnana stöðvaður í janúar 2018. Þingmenn Bandaríkjaþings náðu þá ekki saman um fjárlög til lengri tíma og aðallega vegna mótmæla öldungadeildarþingmanna Demókrataflokksins sem kröfðust þess að tryggja ætti vernd þeirra sem fluttir voru ólöglega til Bandaríkjanna sem börn. Sú trygging kallast DACA í daglegu tali og hafði Trump reynt að fella hana úr gildi. Það vildu Repúblikanar ekki gera en stöðvunin varði þó ekki lengi. Þingmenn náðu samkomulagi um bráðabirgðalausn og samþykktu svo fjárlög í mars. Trump skrifaði undir þau með semingi. Þá hafði hann krafist þess að fá 25 milljarða dala til að byggja múr en fékk einungis 1,6 milljarð. Buðu Trump múr fyrir DACA Demókratar höfðu raunar boðið Trump samkomulag um landamæramúrinn. Þeir voru tilbúnir að fallast á fulla fjármögnun hans gegn því að skjólstæðingar DACA-áætlunarinnar hlytu áframhaldandi vernd. Trump hafnaði því tilboði hins vegar vegna þess að í því fólst ekki niðurskurður í komum löglegra innflytjenda sem hann vildi. Þegar baráttan um fjárveitingar vegna múrsins stóð sem hæst undir lok ársins 2018 var rekstur alríkisstofnana stöðvaður á nýjan leik. Þá krafðist Trump þess að fá minnst 5,7 milljarða dala til að reisa múrinn en því höfnuðu Demókratar alfarið og sögðu það sóun á almannafé. Þá voru Repúblikanar með meirihluta í báðum deildum þingsins en 60 atkvæði þurfti í öldungadeildinni til að samþykkja frumvarp. Repúblikanar náðu því ekki án aðkomu Demókrata. Vinsældir Trumps náðu sögulegu lágmarki á þessu tímabili og kenndu flestir kjósendur honum um stöðuna, samkvæmt könnunum. 6. Trúir Pútín frekar en eigin leyniþjónstum Donald Trump fór til Helsinki í Finnlandi um sumarið 2016 og þar hitti hann fyrir Vladimír Pútín, forseta Rússlands. Á fundi þeirra krafðist Trump að engir aðrir yrðu í herberginu en túlkar og gerði hann glósur túlks síns upptækar eftir fundinn. Á blaðamannafundi í kjölfar fundarhaldanna neitaði Trump að segja að Rússar hefðu haft afskipti af forsetakosningunum í Bandaríkjunum árið 2016 og sagðist hann trúa Pútín frekar en leyniþjónustum Bandaríkjanna og annarra. Þeir höfðu sagt Rússa haft afskipti af kosningunum með það að markmiði að hjálpa Trump að ná kjöri. Þetta vakti mikinn usla í Bandaríkjunum og jafnvel meðal þingmanna Repúblikanaflokksins. Öldungadeildarþingmaður John McCain, sem nú er látinn, sagði framgöngu Trump í Helsinki vera þá skammarlegustu í manna minnum. Paul Ryan, þáverandi leiðtogi meirihluta Repúblikanaflokksins í fulltrúadeild Bandaríkjaþings, gagnrýndi Trump sömuleiðis og sagði það alveg ljóst að Rússar hefðu haft afskipti af kosningunum. „Forsetinn verður að átta sig á því að Rússar eru ekki bandamenn okkar,“ sagði Ryan. Allt kjörtímabilið hefur Trump þó virst neita að standa í hárinu á Pútín. Þá hefur það vakið athygli að Trump hefur falið heimildir um fundi hans og Pútíns. Í janúar í fyrra voru engin opinber gögn til um hvað fór fram á þeim fimm fundum sem Trump og Pútín höfðu átt augliti til auglitis. Gagnrýnin í garð Trumps jókst í kjölfar þess að fregnir bárust af því að yfirvöld í Rússlandi hefðu boðið Talibönum og öðrum vígamönnum verðlaunafé fyrir að fella bandaríska hermenn. Trump sagði frá því í sumar að þrátt fyrir að hafa rætt minnst átta sinnum við Pútín í síma, frá því að honum var sagt frá verðlaunafénu, hefði hann aldrei rætt málið við rússneska forsetann. Líkar vel við Pútín Framkoma Trumps gagnvart Pútín hefur lengi vakið mikla furðu en Trump sjálfur hefur sagt að hann kunni vel Pútín og rússneski forsetinn kunni vel við hann. Sérstaklega með tilliti til þess að leyniþjónustur Bandaríkjanna og löggæslustofnanir hafi varað við því að yfirvöld í Rússlandi séu, að skipun Pútíns, að reyna að hafa áhrif á komandi forsetakosningar og í raun að grafa undan lýðræði í Bandaríkjunum. 7. Greiðslur gegn þögn Michael Cohen, fyrrverandi einkalögmaður Donalds Trumps, var í desember 2018 dæmdur fyrir brot á kosningalögum, skattsvik og að hafa logið að rannsóknarnefnd fulltrúadeildar Bandaríkjaþings. Brot hans á kosningalögum tengist greiðslu til klámmyndaleikkonunnar sem gengur undir nafninu Stormy Daniels. Hún hefur haldið því fram að hún hafi sængað hjá Trump, skömmu eftir að Melania Trump fæddi Baron, yngsta son hans. Skömmu fyrir kosningarnar 2016 greiddi Cohen Daniels 130 þúsund dali fyrir þögn hennar. Það hefur verið skilgreint sem framlag til framboðs Trump, þar sem greiðslan var augljóslega í tengslum við kosningarnar, en hámarksframlag einstaklings til stjórnmálaframboðs er 2.700 dalir. Það sem meira er, þá endurgreiddi fyrirtæki Trump Cohen upphæðina og rúmlega það. Keyptu sögur og sátu á þeim Málið sneri einnig að greiðslum til Karen McDougal, fyrrverandi fyrirsætu tímaritsins Playboy. Fyrirtækið American Media Inc., sem gefur út National Enquirer, keypti sögu McDougal, um meint framhjáhald Trumps með henni, fyrir 150 þúsund dali. Útgefandi National Enquirer er David J. Pecker, vinur Trumps til langs tíma og er sagður hafa látið Cohen vita af því að Stormy Daniels ætlaði sér að selja sögu sína til fjölmiðla. Blaðið keypti einkaréttinn að sögu McDougal, með það að markmiði að birta hana aldrei og hlífa Trump. Málið þótti mjög umdeilt, og gerir enn. Meðal annars kom til umræðu að kæra Trump fyrir embættisbrot, sem var þó ekki gert fyrr en um ári seinna. 8. Reyndi að þvinga Úkraínumenn til að koma höggi á Biden Fulltrúadeild Bandaríkjaþings ákærði Trump formlega fyrir embættisbrot þann 18. desember í fyrra. Hann varð þar með aðeins þriðji forsetinn í sögu Bandaríkjanna til að verða ákærður. Það var gert eftir að í ljós kom að hann hafði reynt að þvinga Volodýmýr Zelenskíj, forseta Úkraínu, til að tilkynna að yfirvöld þar í landi hefðu hafði rannsókn á meintri spillingu Joe Biden í Úkraínu. Biden þótti þá líklegastur til að hljóta tilnefningu Demókrataflokksins til forsetaframboðs, sem hann svo gerði. Ákærurnar voru í raun tvær. Hann var sakaður um að misnota vald sitt og standa í vegi þingsins vegna rannsóknar fulltrúadeildarinnar. Hvíta húsið neitaði alfarið að afhenda rannsakendum fulltrúadeildarinnar gögn og meinaði embættismönnum að bera vitni. Þar á meðal aðilum sem gætu varpað ljósi á málið eins og John Bolton, fyrrverandi þjóðaröryggisráðgjafi, Mike Pompeo, utanríkisráðherra, og Mick Mulvaney, starfandi starfsmannastjóri Hvíta hússins. Trump fetaði þar með í fótspor Andrew Johnson sem ákærður var árið 1868 fyrir embættisbrot. Bill Clinton var ákærður árið 1998. Hvorugur þeirra missti þó forsetaembættið og hefur því enginn forseti verið settur af eftir að hafa verið ákærður af þinginu. Fylgdu að mestu flokkslínum Trump var einnig sýknaður af öldungadeild þingsins. Atkvæðagreiðslan um fyrri ákæruna, misnotkun valds, fór að mestu eftir flokkslínum, 52-48. Mitt Romney var eini þingmaður Repbúlikanaflokksins sem greiddi atkvæði með henni. Romney varð þar með fyrsti þingmaðurinn til að greiða atkvæði gegn forseta í eigin flokki í máli sem þessu. Atkvæðagreiðslan varðandi seinni ákæruna fylgdi flokkslínum, 53-47. 9. Faraldur nýju kórónuveirunnar Það sem virðist hafa komið hvað mest niður á fylgi Trump og vinsældum hans meðal kjósenda er faraldur nýju kórónuveirunnar. Hann hefur hvergi í heiminum smitað fleiri en í Bandaríkjunum, svo vitað sé, og hvergi hafa fleiri dáið vegna Covid-19 en í Bandaríkjunum. Alls hafa um níu milljónir manna greinst smitaðir og um 230 þúsund hafa dáið. Ríkisstjórn Trump hefur verið harðlega gagnrýnd fyrir viðbrögð við faraldrinum. Sjálfur hefur Trump frá upphafi talað niður hættuna vegna faraldursins og gert lítið úr grímunotkun og annars konar sóttvörnum. Trump hefur viðurkennt að hafa gert lítið úr faraldrinum og segist hafa gert það til að forðast skelfingu. Ríkisstjórn hans hefur þó sérstaklega verið gagnrýnd fyrir að undirbúa sig lítið sem ekkert fyrir faraldurinn þegar hann hófst. Um tveir mánuðir liðu frá því að Bandaríkjastjórn fékk fyrstu upplýsingarnar um kórónuveirufaraldurinn í Kína þar til alríkisstjórnin greip til umtalsverðra aðgerða til að hefta útbreiðsluna. Afneitun og vanvirkni í röðum æðstu ráðamanna er sögð hafa átt þátt í að tímanum sem hefði getað nýst í undirbúning var kastað á glæ. Þessa dagana hefur Trump haldið því fram að Bandaríkjamenn séu við það að ná tökum á faraldrinum, sem er þvert á þann raunveruleika að útbreiðsla nýju kórónuveirunnar hefur náð nýjum hæðum í Bandaríkjunum. Í yfirlýsingu frá vísinda- og tækniráði Hvíta hússins í vikunni var það að hafa bundið enda á faraldur Nýju kórónuveirunnar í Bandaríkjunum, væri eitt af afrekum Trumps á fyrsta kjörtímabili hans. Þá sagði Mark Meadows, starfsmannastjóri Hvíta hússins, nýverið í viðtali að ekki væri hægt að ná tökum á svona faraldri og þótti það til marks um uppgjöf ríkisstjórnar Trumps. 10. Viðskiptastríð við Kína Trump hóf snemma árs 2018 miklar viðskiptadeildur við Kína, næststærsta hagkerfi heimsins, en í kosningabaráttu hans sakaði hann Kínverja um ósanngjarna viðskiptahætti. Þær ásakanir sneru og snúa að mörgu leyti að þjófnaði á iðnaðarleyndarmálum og það að mörg framleiðslustörf hafi flust frá Bandaríkjunum til Kína. Trump byrjaði á því að leggja tolla á kínverskar vörur og Kínverjar svöruðu fyrir sig með tollum. Samkomulag náðist svo í upphafi þessa árs sem átti að draga úr spennunni. Það hefur ekki virkað sem skyldi og hefur spennan á milli Bandaríkjanna og Kína ekki verið meiri í langan tíma. Á meðan viðskiptadeilurnar stóðu yfir dró töluvert útflutningi Kínverja til Bandaríkjanna en sú þróun hefur gengið nokkuð til baka á árinu. Hækkandi vöruverð hefur þó leitt til þess að Bandaríkjamenn hafa leitað á önnur mið. Veruleg aukning hefur verið á innflutningi frá Víetnam og Mexíkó. Þeir sem töpuðu mest á viðskiptadeilunum eru Kína og Bandaríkin, samkvæmt Yasuyuki Sawada, yfirhagfræðingi þróunarbanka Asíu, sem ræddi við blaðamenn DW. Deilurnar komu sömuleiðis verulega niður á bandarískum bændum, sem seldu mikið af afurðum til Kína. Árið 2017 fluttu bandarískir bændur sojabaunir úr landi fyrir 12,2 milljarða dala. Árið 2018 féll útflutningurinn í 3,1 milljarð dala og var hann átta milljarðar í fyrra. Sagður vilja hjálp Xi Með viðræðum á milli ríkjanna hefur Trump reynt að fá Kínverja til að kaupa aftur sojabaunir, svínakjöt og aðrar vörur af Bandaríkjamönnum. Samningamenn Kína samþykktu það en faraldur nýju kórónuveirunnar hefur komið niður á þeim kaupum. Heilt yfir eru bandarískir bændur stuðningsmenn Trump og hefur hann verið sakaður um að fórna hagi Bandaríkjanna í viðræðum við Kína, til að koma bændum til bjargar. Meðal annars var því haldið fram í bók John Bolton, fyrrverandi þjóðaröryggisráðgjafa Trump. Bolton sagði að í desember 2018 og júí 2019 hefði Trump persónulega beðið Xi Jinping, forseta Kína, um að kaupa afurðir frá Bandaríkjunum með það í huga að það myndi hjálpa honum sjálfum pólitískt. Starfsmenn Hvíta hússins hafa hafnað þessum ásökunum. Samhliða því hefur Trump varið rúmlega 50 milljörðum dala af opinberum peningum til að hjálpa bandarískum bændum. Trump beitti einnig tollum gegn Kanada, Mexíkó og Evrópusambandinu, sem hann segir hafa rænt Bandaríkin um árabil. 11. Starfsmannaveltan og óreiðan Frá fyrsta degi hefur Hvíta hús Donalds Trumps einkennst af mikilli starfsveltu og oft á tíðum óreiðu. Fjölmiðlar vestanhafs hafa sagt fregnir af illdeilum meðal starfsmanna Hvíta hússins og andrúmslofti þar sem lög frumskógarins ráða ríkjum. Þann 7. október hafði starfsmannaveltan verið 91 prósent þegar kemur að hæst settu embættum Hvíta hússins, samkvæmt samantekt Brookings hugveitunnar. Tíu ráðherrar farnir Á hans fyrsta kjörtímabili hafa til að mynda tíu ráðherrar látið af störfum. -Tom Price hætti sem heilbrigðisráðherra eftir að í ljós kom að ferðaðist ítrekað með einkaþotum í opinberum erindagjörðum. -Rex Tillerson hætti sem Utanríkisráðherra. Samband þeirra beið mikla hnekki þegar fregnir bárust af því að Tillerson hefði kallað Trump fávita. Eftir að Tillerson sagði Trump ítrekað hafa reynt að gera ólöglega hluti, sagði forsetinn að utanríkisráðherrann fyrrverandi væri „grjótheimskur“. -David Shulkin hætti sem ráðherra málefna uppgjafahermanna. -Jeff Sessions var bolað úr starfi Dómsmálaráðherra. Trump var verulega ósáttur við að Sessions lýsti sig vanhæfan til að hafa umsjón með Rússarannsókninni svokölluðu. -Jim Mattis hætti sem varnarmálaráðherra í kjölfar þess að Trump tók einhliða ákvörðun um að kalla hermenn Bandaríkjanna í skyndi frá Sýrlandi og gefa Tyrkjum grænt ljós á að herja gegn sýrlenskum Kúrdum, sem höfðu verið bandamenn Bandaríkjanna gegn Íslamska ríkinu. Síðan þá hefur Mattis sakað Trump um að sundra Bandaríkjamönnum vísvitandi. -Ryan Zinke hætti sem Innanríkisráðherra í skugga ásakana um misferli. Hann seldi meðal annars land til stórfyrirtækisins Halliburton í heimabæ sínum Whitefish sem endurskoðendur telja að hafi verið mögulegur hagsmunaárekstur hans sem ráðherra. -Alex Acosta hætti sem atvinnumálaráðherra í ágúst í fyrra. Þá vegna máls barnaníðingsins Jeffrey Epstein. Acosta hafði verið saksóknari í Flórída fyrir fjölmörgum árum og gerði umdeilt samkomulag við Epstein. -Rick Perry hætti sem orkumálaráðherra, viku eftir að hann var hér á Íslandi. Þá sagðist hann ekki vera á leið úr embætti. Perry var einn af þeim sem komu að viðleitni Trump til að þvinga yfirvöld í Úkraínu til að koma höggi á Joe Biden. Það endaði með því að forsetinn var ákærður fyrir embættisbrot. -John F. Kelly hætti svo sem heimavarnaráðherra og varð starfsmannastjóri Hvíta hússins. Hann á að hafa kallað Trump fífl nokkrum sinnum svo starfsmenn Hvíta hússins heyrðu til. Eftir að hann hætti hefur Trump gagnrýnt hann harðlega og sagði blaðafulltrúi Hvíta hússins einu sinni að Kelly hefði ekki ráðið við „snilligáfu“ forsetans. -Kirstjen Nielsen, sem tók við af Kelly sem heimvarnaráðherra er einnig hætt. Hún sagði af sér í apríl í fyrra á fundi með Trump. Hún hafði verið boðuð á fundinn vegna óánægju Trumps með að geta ekki alfarið lokað landamærum Bandaríkjanna og Mexíkó. Veltan gífurleg Varðandi starfsmannastjóra Hvíta hússins hafa þeir verið alls fjórir. Reince Priebus byrjaði 20. janúar 2017 og hætti 31. júlí sama ár. John F. Kelly tók við af honum og hætti 2. janúar 2019. Þá tók Mick Mulvaney við en hann hætti 31. mars 2020 og síðan þá hefur Mark Meadows sinnt starfinu. Trump hefur sem sagt verið með fjóra starfsmannastjóra, sex aðstoðarstarfsmannastjóra, sex samskiptastjóra, fjóra þjóðaröryggisráðgjafa, sex aðstoðarþjóðaröryggisráðgjafa og fjölmarga aðra í öðrum stöðum.