Innlent

Borgun varar við sms-skilaboðum fjársvikara

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Borgun varar við skilaboðum fjársvikahrappa. 
Borgun varar við skilaboðum fjársvikahrappa.  Vísir/ERNIR

Borgun varar við yfirstandandi tilraunum til fjársvika í nafni Borgunar en einhverjir hafa lent í því að fá sms-skilaboð í nafni Borgunar sem í stað þess að endurgreiða fólki einhverja fjárhæð, eins og segir í skilaboðunum, fá svikahrappar aðgang að kortaupplýsingum fólks.

Í skilaboðum sem fólki hefur borist undanfarið er móttakandanum sagt að mistök hafi verið gerð við greiðslu á kortareikningi, aðilinn hafi borgað hann tvisvar og að korti viðkomandi hafi því verið lokað. Fólk er þar næst hvatt til að heimsækja vefsíðu og gefa þar upp kortaupplýsingar sínar til að opna kortið að nýju og fá ofgreiðsluna endurgreidda. Þetta er ekki raunin.

Með því að gefa upp kortaupplýsingar sem fjársvikararnir ásælist geti þeir svikið af fólki peninga. Vefsíðan sem vísað er á er þá hönnuð í útliti Borgunar og stór yfirlitsmynd af Reykjavík er á síðunni.

Borgun segir í tilkynningu að aldrei sé beðið um kortaupplýsingar fólks í tölvupósti, í gegn um sms eða með símtali. Korthöfum sé ráðlagt að opna skilaboðin og tölvupóstana ekki, smella alls ekki á hlekkinn sem fylgi með og allra síst gefa upp kortaupplýsingar. Best sé að eyða skilaboðunum strax.

„Hafi fólk brugðist við skilaboðunum er mælt með því að hafa umsvifalaust samband við þjónustuver Borgunar í síma 560 1600 eða senda skilaboð á [email protected].Tekið skal skýrt fram að Borgun hefur ekki orðið fyrir tölvuárás heldur er um að ræða svikatilraun þar sem nafn og merki fyrirtækisins er notað í blekkingarskyni,“ segir í tilkynningu frá Borgun.

Þá hefur málið verið tilkynnt lögregluyfirvöldum, netöryggissveit Póst- og fjarskiptastofnunar og helstu þátttakendum í öryggissamstarfi fjármálastofnana um áðurnefndar tilraunir til fjársvika.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×