Innlent

Ís­lendingarnir á Ali­cante ekki með Wu­han-veiru

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Frá Torreveija á Spáni.
Frá Torreveija á Spáni. Vísir/Getty

Borgaraþjónusta utanríkisráðuneytisins hefur fengið staðfest að tveir Íslendingar hafi verið lagðir inn á sjúkrahús í Alicante á Spáni. Fólkið er hins vegar ekki með Wuhan-kórónaveiru, líkt og grunur var um, samkvæmt upplýsingum frá Maríu Mjöll Jónsdóttur, deildarstjóra upplýsingamála hjá utanríkisráðuneytinu.

Spænski miðillinn Cadena SER greindi frá því í gær að íslenskt par hefði verið sett í einangrun á Torreveija-sjúkrahúsinu á Alicante vegna gruns um að þau hefðu smitast af veirunni. Í fréttinni kom fram að fólkið, 66 ára kona og 52 ára karlmaður, hefði verið í Kína en einungis annað þeirra sýndi einkenni veirusmits.

Ekki fengust frekari upplýsingar um líðan eða stöðu Íslendinganna á Alicante frá utanríkisráðuneytinu, utan þess að fólkið reyndist ekki smitað af veirunni. Borgaraþjónustan beinir því eftir sem áður til Íslendinga á svæðinu að taka tillit til leiðbeininga frá sóttvarnalækni og fyrirmælum stjórnvalda á staðnum um hvert skuli leita ef grunur kemur upp um smit.

Sjá einnig: Lýsa yfir óvissustigi vegna kórónaveirunnar

Spænsk heilbrigðisyfirvöld tilkynntu um mögulegt smit á svæðinu, að sögn Kjartan Hreins Njálssonar, aðstoðarmanns Landlæknis. Ekkert kom hins vegar fram um þjóðerni viðkomandi einstaklinga í tilkynningunni.

Þá bendir Kjartan á að þegar hafi verið fleiri möguleg Wuhan-veirusmit til rannsóknar á Spáni, og slíkt eigi raunar við um mörg lönd í Evrópu. Þannig sé það ekki óvænt að möguleg tilfelli séu til skoðunar á Spáni, og sérstaklega á miklum ferðamannastað. Ekki hafa greinst tilfelli af Wuhan-veirunni á Spáni til þessa, og tilfelli Íslendinganna nú meðtalið.

Íslendingar í Kína hvattir til að láta vita af sér

Nú eru alls að minnsta kosti 106 látin vegna Wuhan-kórónaveirunnar og um 4.500 manns smitaðir í Kína. Hert hefur verið á ferðabönnum í landinu og er almenningi í sumum borgum nú skylt að ganga um með grímur fyrir vitunum svo hefta megi frekari útbreiðslu veirunnar.

Veiran hefur ekki enn greinst hér á landi en ríkislögreglustjóri hefur lýst yfir óvissustigi almannavarna í samráði við sóttvarnalækni og embætti landlæknis vegna veirunnar.

Utanríkisráðuneytið beinir því til Íslendinga í Kína að þeim sé frjálst að láta vita um ferðir sínar með því að senda póst á [email protected]. Gott sé að búa yfir slíkum upplýsingum ef ástandið skyldi breytast.

Fréttin hefur verið uppfærð með nýjustu upplýsingum um stöðu Íslendinganna.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×