Innlent

15 ára ökumaður og farþegi fluttir á slysadeild

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Ökumaðurinn og farþeginn voru fluttir á slysadeild Landspítalans.
Ökumaðurinn og farþeginn voru fluttir á slysadeild Landspítalans. Vísir/Vilhelm

Upp úr miðnætti barst lögreglu tilkynning um umferðaróhapp á gatnamótum á Fjallkonuvegi í Grafarvogi, þar sem léttu bifhjóli hafði verið ekið á bifreið. Ökumaður og farþegi hjólsins voru fluttir með sjúkrabíl á slysadeild til aðhlynningar, en lögregla hefur ekki upplýsingar um meiðsli þeirra.

Samkvæmt dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu er ökumaður hjólsins grunaður um akstur gegn rauðu ljósi og akstur undir áhrifum áfengis og fíkniefna. Ökumaðurinn var með hjálm en ekki farþeginn. Bæði ökumaður og farþegi eru fæddir árið 2005 og var málið því unnið með aðkomu forráðamanna og Barnaverndar, að því er fram kemur í dagbókarfærslunni.

Þrisvar sinnum brugðist við tilkynningu vegna sama manns

Lögreglan kveðst einnig hafa haft ítrekuð afskipti af manni á reiðhjóli vegna hávaðakvartana í Austurstræti í nótt. Maðurinn hafi verið með stærðarinnar hátalarabox sem hann notaði til þess að spila tónlist.

Fyrst kveðst lögregla hafa haft afskipti af manninum um klukkan eitt í nótt og aftur rétt fyrir klukkan þrjú. Eftir það hafi borist enn önnur tilkynning um hávaða vegna mannsins. Hann hafi verið farinn þegar lögreglu bar að garði í þriðja sinn. Maðurinn verður kærður fyrir brot á lögreglusamþykkt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×