Ferðalög

Perlur Ís­lands: Löngu­fjörur á Snæ­fells­nesi standa upp úr

Stefán Árni Pálsson skrifar
Sóli með fjölskyldunni á Akureyri sumarið 2019. Að þessu sinni var Brynjuísinn frægi fyrir valinu.
Sóli með fjölskyldunni á Akureyri sumarið 2019. Að þessu sinni var Brynjuísinn frægi fyrir valinu.

„Ég hef verið allt of lélegur að ferðast innanlands í gegnum tíðina en í sumar verður heldur betur bætt úr því,“ segir Sólmundur Hólm Sólmundarson einn þekktasti grínisti landsins. Hann ætlar að ferðast innanlands með unnustu sinni Viktoríu Hermannsdóttur og börnum í sumar.

„Við skötuhjú keyptum fellihýsi fyrir nokkrum dögum sem við ætlum að draga um landið vítt og breitt í sumar með börnin fjögur. Mín ferðamennska hefur að mestu farið fram á hestum í gegnum tíðina og þar standa Löngufjörur á Snæfellsnesi sennilega upp úr.“

Hann segir að það jafnist ekkert á við að sitja viljugan töltara á góðri yfirferð í þéttum sandinum.

„Þegar ég verð búinn að fara norður á Strandir með fellihýsið í sumar held ég að þær verði líka komnar ofarlega á listann.“

Perlur leynast víða á Íslandi og það er ljóst að sumarið 2020 verða Íslendingar á ferð og flugi um alla landshluta. Vísir verður á flakki með landanum í sumar. Veist þú um perlu sem landsmenn ættu ekki að missa af á ferðalagi? Segðu okkur frá og sendu okkur myndir á netfangið [email protected]. Við birtum valdar frásagnir hér á Vísi.


Tengdar fréttir








×