Lífið

Leitar að kröftugum konum á aldrinum 12 til 80 ára í gjörning

Anna segist stundum ímynda sér að konur þvert á kynslóðir og heimshluta séu tengdar ósýnilegum strengjum.
Anna segist stundum ímynda sér að konur þvert á kynslóðir og heimshluta séu tengdar ósýnilegum strengjum. fréttablaðið/Anton Brink
Konulandslag er nýjasti gjörningur og tilraun Önnu Kolfinnu Kuran í langtíma rannsóknarverkefni sínu „Konulandslag,“ þar sem hún skoðar, skapar og ber kennsl á hin ýmsu landslög kvenna í samfélaginu. Gjörningurinn var frumfluttur í Mengi í upphafi árs undir yfirskriftinni

Í verkefninu vinnur hún með hugmyndir um rými og kvenlíkamann, hvar og hvernig hann birtist og hvar hann er ósýnilegur. Hvar eru konur velkomnar og öruggar og hvar eru þær óvelkomnar? Hvar er rými fyrir konur og hvar þurfa þær að gera innrás til þess að vera með?

Að þessu sinni er lögð sérstök áhersla á sambönd og tengsl kvenna gegnum kynslóðir og samstöðu. Í samstarfi við fjölda kvenna á ólíkum aldri sem taka þátt í flutningi gjörningsins, mun Anna Kolfinna gera tilraun til að taka yfir Tjarnarbíó eina kvöldstund og fylla það með konum sem munu gegnum einfalda töfrandi athöfn skapa sér eigið landslag innan um veggi rýmisins.

„Ég er sum sé að leita að konum á aldursbilinu 12-80 ára sem hafa áhuga og treysta sér til að taka þátt í þessari einföldu en töfrandi athöfn,“ segir Anna Kolfinna. Gjörningurinn var frumfluttur í Mengi í janúar en verður endurgerður sem hluti af dagskrá danshátíðar Tjarnarbíós, Vorblótsins, þann 6. apríl næstkomandi.

Ósýnilegir strengir kvenna á milli

„Í raun er hugmyndin að gjörningnum afar einföld: að fylla rými með konum. Í Mengi vorum við 17 konur og það myndaðist svo flott hlustun og samstaða, það er einhver ótrúleg orka sem fæðist þegar margar konur koma saman, það myndast ákveðið landslag. Ég ímynda mér stundum, og það má vel vera að margar konur séu ósammála þessu, að konur þvert á kynslóðir og heimshluta séu tengdar ósýnilegum strengjum. En þegar við þurfum á hjálp að halda eða köllum eftir systrum okkar, þó við þekkjumst ekki neitt, koma þessir ósýnilegu strengir í ljós. Þetta hef ég upplifað aftur og aftur gegnum vinnuna mína sem danshöfundur þar sem ég vinn mikið með þátttöku annarra kvenna, samstöðu og þessari systraást. En þar sem Tjarnarbíó er töluvert stærra rými en Mengi er ég að safna í stærri hóp flytjenda fyrir sýninguna í apríl, þannig að hugmyndin gangi upp. Á hátíðinni verður einkar áhugaverð dagskrá þar sem fjölbreytileiki sjálfstætt starfandi danshöfunda verður áberandi. Eins konar suðupottur af mjög ólíkum verkum með ólíka nálgun á dans og danssmíðar hérlendis, meðal annars mun valkyrjan Unnur Elísabet Gunnarsdóttir koma fram með listahátíðina sína „Ég býð mig fram“.

Gígja Jónsdóttir, fjöllistakona og danshöfundur, mætir með teknó-fiðluhljómsveitina sína og Péturs Eggertssonar „Geigen“. Það verður sannarlega hægt að kynnast því hve litrík og fjölbreytt litla danssenan er hérna heima, sem ber að fagna,“ segir Anna.

En hverjar eiga erindi í verkið? „Ég er að leita að konum á aldrinum 12-80 ára sem treysta sér til að taka þátt. Fyrri sviðsreynsla er ekki skilyrði og ekki heldur íslenskukunnátta,“ segir Anna en unnið verður með hljóð og eins konar söng í verkinu en ekki texta. „En gott er að hafa í huga að við notum bæði raddbeitingu og hreyfingar til þess að skapa orku og fylla rýmið með kven- og systraorku. Gjörningurinn er krefjandi og viðkvæmur en það er einmitt það sem gerir hann áhrifaríkan. Með honum skapast vettvangur fyrir konur til að koma saman í samstöðu og krafti.

Konur sem hafa áhuga á að taka þátt eru hvattar til að senda Önnu Kolfinnu línu á netfangið: [email protected].






Fleiri fréttir

Sjá meira


×