Viðskipti innlent

„Eitthvað fyrir alla“ á nýjum BrewDog-bar við Frakkastíg

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Þórhallur Viðarsson, Eyþór Mar Halldórsson og Eggert Gíslason standa að opnun BrewDog-staðarins á Frakkastíg.
Þórhallur Viðarsson, Eyþór Mar Halldórsson og Eggert Gíslason standa að opnun BrewDog-staðarins á Frakkastíg. vísir/vilhelm
Hópur reyndra manna úr íslenska veitingageiranum stendur að opnun bars og veitingastaðar undir merkjum BrewDog á næstu mánuðum. Staðurinn verður á tveimur hæðum, í kjallara og jarðhæð nýbyggingar að Frakkastíg 8a í miðbæ Reykjavíkur.

Þórhallur Viðarsson, framkvæmdastjóri félagsins sem sér um opnun BrewDog-staðarins í Reykjavík, segir í samtali við Vísi að mikil spenna ríki um opnun staðarins. Aðstandendur séu nýkomnir inn í húsnæðið og nú taki við töluverð vinna en stefnt er að því að opna staðinn snemmsumars.

Eitthvað fyrir alla

BrewDog er skoskt brugghús og sérhæfir sig í svokölluðum handverksbjór (e. craft beer) en greint var frá því fyrir skömmu að brugghúsið hygðist opna stað hér á landi. Að sögn Þórhalls verður maturinn á hinum nýja BrewDog-stað á Frakkastíg ekki í aukahlutverki þó að staðurinn sé rekinn undir merkjum brugghússins.

„Þetta verður veitingahús með mikla áherslu á bjór, en það verður svosem ekki minni áhersla lögð á eldhúshliðina. Hún tvinnast inn í hitt. Þetta er matur sem fer vel með bjór þó svo að það verði auðvitað annars konar vín á boðstólnum,“ segir Þórhallur.

Staðurinn mun opna í nýbyggingu á horni Frakkastígs og Hverfisgötu í miðbæ Reykjavíkur. Húsið sést plastklætt til vinstri á mynd.Vísir/Rakel
Þá er gert ráð fyrir að viðskiptavinir hafi úr mörgu að velja, geri þeir sér ferð á staðinn þegar hann opnar.

„Þetta verður allt frá snakki og smáréttum upp í Wagyu-hamborgara. Svo verður að sjálfsögðu eitthvað grænmetis og vegan líka. Svo verðum við með 20 bjórdælur og flottasta bjórdælukerfi sem sést hefur hér á landi. Ég held það sé alveg óhætt að segja að við verðum með eitthvað fyrir alla.“

 

Reynsluboltar standa að opnuninni

Þórhallur segir fjölbreyttan hóp standa að opnun BrewDog-staðarins. Um sé að ræða reynslubolta úr eldhús- og barbransanum, þ.á.m. Eyþór Mar Halldórsson matreiðslumann og Róbert Ólafsson eiganda Forréttabarsins. Sjálfur er Þórhallur svo aðildarmaður að félaginu auk fleiri „bjórnörda“ og annarra fjárfesta. Opnun staðarins hefur verið nokkurn tíma í burðarliðnum.

Frá Brewdog-bar í Shoreditch-hverfinu í London.Vísir/Getty
„Það eru einhverjir mánuðir síðan hjólin fóru að hreyfast en svo er þetta búið að vera hugmynd hjá ákveðnum aðilum lengur. Ég kom inn í ferlið fyrir þremur mánuðum og þá voru þeir búnir að vera með þetta í forvinnu í einhvern tíma.“

En af hverju varð BrewDog fyrir valinu?

„Þetta er vörumerki sem við þekkjum vel. Ég og fleiri í hópnum höfum margoft sótt þessa staði erlendis sjálf. Okkur þótti vanta svona stað hingað og fannst þetta passa við markaðinn,“ segir Þórhallur.

Fyrsti BrewDog-barinn var opnaður í borginni Aberdeen í Skotlandi árið 2010. Síðan þá hafa BrewDog-staðir verið opnaðir víðsvegar um Bretland og síðar á Ítalíu auk Svíþjóðar og Finnlands svo fátt eitt sé nefnt. BrewDog stefnir á að opna 17 nýja bari á árinu en sex verða í Skotlandi, fjórir á Englandi og sjö víða um heim, meðal annars í Reykjavík.

 

Leggja áherslu á eldhúsið

Aðspurður segir Þórhallur BrewDog-staðinn á Frakkastíg verða nokkuð frábrugðinn stöðunum úti í löndum.

„Ég myndi segja það, við gerum töluvert meira úr eldhúsinu en þeir úti. Þar er „bisnessinn“ nánast bara bjór, þau bjóða kannski upp á hamborgara og slíkt en þetta snýst meira og minna allt um bjórinn. Við spilum örlítið meira úr eldhúsinu, án þess þó að það bitni á bjórnum.“

Hægt er að fylgja væntanlegum BrewDog-stað á Instagram undir nafninu @brewdogreykjavik. Þá stendur yfir leit að fólki með brennandi áhuga á bjór til að starfa á staðnum en hægt er að senda umsókn á netfangið [email protected].




Tengdar fréttir

BrewDog stefnir á að opna bar á Íslandi

Eigendur Brewdog tilkynntu fyrir framan 8.000 manns í Aberdeen að þeir ætluðu að opna bar og brugghús í Reykjavík. Guðfinnur Sölvi Karlsson, eigandi Priksins, fagnar komu risans til landsins.

Skoskt brugghús vinnur keppni um sterkasta bjórinn

Skoska brugghúsið BrewDog hefur sigrað þýskt brugghús í keppni um hvort þeirra geti framleitt sterkasta bjór í heimi. BrewDog hefur nú sett á markaðinn bjór sem er 41% að styrkleika og nefnir hann Sink the Bismarck.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×