Innlent

Framsókn hafi herjað á samninginn

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Ólafur Loftsson er formaður Félags grunnskólakennara.
Ólafur Loftsson er formaður Félags grunnskólakennara. VÍSIR/STEFÁN
Grunnskólakennarar felldu í gær kjarasamning sinn við Samband íslenskra sveitarfélaga. Rúm 68 prósent félagsmanna sögðu nei í atkvæðagreiðslunni.

Alls voru 4.697 manns á kjörskrá og greiddu rúm 80 prósent þeirra atkvæði eða 3.973 félagsmenn. 2.599 greiddu atkvæði gegn samningnum.

„Auðvitað eru það  alltaf vonbrigði þegar það sem maður leggur fram nær ekki fram að ganga. Við hefðum ekki fallist á þennan kjarasamning hefðum við haldið að lengra yrði komist,“ segir Ólafur Loftsson, formaður Félags grunnskólakennara.

Samningurinn kvað meðal annars á um breytingar á launum, að horfið yrði frá vinnumati, greitt yrði fyrir sértæk verkefni og að tími til annarra faglegra starfa yrði minnkaður. Ólafur segir að strax í upphafi hafi verið þung herferð gegn samningnum. Hún hafi átt rætur að rekja til Framsóknarflokksins í Reykjavík.

Tveir verðandi stjórnarmenn í félaginu séu á lista hjá flokknum í borginni. Vísar Ólafur þar meðal annars til Ásthildar Lóu Þórsdóttur en hún skipar þriðja sæti á lista Framsóknarflokksins í borginni. Aðspurður um hvað taki nú við segir Ólafur að það muni skýrast á næstunni.

„Við hittum samninganefnd sveitarfélaganna á morgun. Núverandi stjórn mun gera allt sem hún getur til að ný stjórn taki við slíku búi að hún geti náð hámarksárangri í því verkefni sem fram undan er,“ segir Ólafur.


Tengdar fréttir

Grunnskólakennarar felldu nýjan kjarasamning

Meirihluti félagsmanna í Félagi grunnskólakennara hefur fellt nýgerðan kjarasamning FG og Sambands íslenskra sveitarfélaga. Nei sögðu 68,52 prósent en já sögðu 29,74 prósent.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×