Heilræði Snyders Guðmundur Andri Thorsson skrifar 11. september 2017 07:00 Það var gaman að upplifa Bókmenntahátíð, heyra og sjá höfunda héðan og þaðan úr heiminum, skynja hversu frábrugðnir þeir eru okkar höfundum – hver á sinn hátt – og hversu líkir. Og það var ánægjulegt að sjá hversu vel sóttir viðburðir hátíðarinnar voru nú sem endranær og finna þá sérstöku stemmningu sem skapast þegar höfundur les fyrir fullan sal af fólki úr verkum sínum; þegar loftið titrar af orðum sem koma streymandi úr hugskoti skálds, alls konar orðum sem þéttast saman í setningar og málsgreinar áður en þeim rignir ofan í hugskot hlustenda. Þetta eru viðkvæmar og brothættar stundir, öll þessi heilabú opin upp á gátt í samlæti.BlóðakrarMeðal gesta var bandaríski sagnfræðingurinn Timothy Snyder sem hélt fyrirlestur fyrir sagnfræðinga og talaði svo við Halldór Guðmundsson fyrir troðfullu Norræna húsi. Snyder hefur ritað merkar bækur um sögu Austur-Evrópu á síðustu öld og þá skelfilegu atburði sem þar dundu yfir þjóðirnar, og eru svo nærri okkur í tíma að manni rennur kalt vatn milli skinns og hörunds þegar maður hugsar út í það. Bók hans Bloodlands: Europe between Hitler and Stalin er tímamótaverk í því að fá heildarmynd af þeirri vargöld sem geisaði þar um slóðir um miðja síðustu öld. Snyder segir að fram til þessa hafi um of verið horft á þessa sögu út frá þröngum sjónarhól einstakra þjóða eða í metingi um það hvor hafi nú verið verri fjöldamorðingi Hitler eða Stalín, og ekki nægur gaumur verið gefinn heimildum frá þeim löndum sem fengu yfir sig plágur nasismans og kommúnismans. Blóðakrarnir eru að sögn Snyders Úkraína, Hvíta-Rússland, Pólland og Eystrasaltslöndin. Þessi lönd urðu vettvangur fyrir útrýmingarherferðir Hitlers á hendur Gyðingum – þau dráp fóru ekki fram í Þýskalandi, gagnstætt því sem margir halda; og minnihluti Gyðinga var raunar myrtur í útrýmingarbúðunum; þeir voru margir skotnir í sveitaþorpum og grafnir í fjöldagröfum, svipuð vinnubrögð og tíðkuð voru í stríðinu í fyrrum Júgóslavíu undir lok síðustu aldar. Í Úkraínu – einu gjöfulasta landi Evrópu – framkallaði Stalín hungursneyð þar sem fjórar milljónir manna dóu. Snyder hefur lært þjóðtungur þessara þjóða til að geta lesið aðrar heimildir en þýskar og rússneskar og dregið margt nýtt fram og hann leggur sig í líma við að leiðrétta missagnir og mýtur, dregur fram samsettan og subbulegan veruleikann sem samanstendur ekki bara af hetjum og fólum heldur líka fólki sem vann með innrásarherjunum, hjálpaði við fjöldamorðin og bjargaði sér með mis-ljósfælnum aðferðum. Þetta er áminning um það hversu þunn hula siðmenningarinnar er og hversu skelfilegt grimmdarverk hægt er að fá venjulegasta og hversdagsgæfasta fólk til að fremja, takist að skera á samband skynseminnar og siðvitsins – og tæla fólk til fylgilags við firruna og spila á ótta og vanlíðan með því að telja fólki trú um að einhver tiltekinn hópur manna sé óvinur, hvort heldur það er vegna þjóðernis, stéttarstöðu, trúarbragða eða hörundslitar.HeilræðaþulanNýlega kom út bók eftir Snyder – eða kannski öllu heldur bæklingur – eða ákall sem hann skrifar í kjölfarið á kjöri Trumps með tilheyrandi sigurför vanþekkingar og lyga. On Tyranny – twenty lessons from the 20th century heitir bókin. Það tekur mann um það bil hálftíma að bruna í gegnum þetta rit, sem er sannkölluð hugvekja og hefur að geyma tuttugu heilræði sem Snyder finnst að síðasta öld hafi kennt okkur, og svo ræðir hann hvert og eitt þeirra í stuttu máli. Hann segir í inngangi, meðal annars: „Saga Evrópu á tuttugustu öldinni sýnir okkur að þjóðfélög geta brostið, lýðræðið getur fallið, siðareglur geta hrunið og venjulegir menn geta rankað við sér þar sem þeir standa yfir fjöldagröf með byssu í hendi.“ Og nokkru síðar: „Við erum ekkert vitrari en þeir Evrópubúar sem horfðu upp á lýðræðið hopa undan fasisma, nasisma eða kommúnisma á tuttugustu öldinni. Það eina sem við höfum fram yfir þá er að við getum dregið lærdóma af reynslu þeirra. Nú er orðið tímabært að gera það.“ Heilræðin tuttugu eru þessi: að hlýða ekki valdboði í blindni; standa vörð um stofnanir samfélagsins; varast einsflokksræði; ekki venjast táknum á borð við hakakrossa í umhverfi sínu; halda í heiðri siðareglur stétta sinna (hvað lögfræðingar athugi); ekki umbera vopnaburð hópa; vera varkár þurfi maður að bera vopn vegna vinnu sinnar; sýna gott fordæmi; virða eigin þjóðtungu, lesa bækur, ekki hanga of mikið á netinu; trúa því sem satt er; leggjast í rannsóknir; horfa í augun á fólki og spjalla um daginn og veginn; vera til svæðis, fara á fundi og mannfagnaði, hitta fólk; eiga einkalíf; gefa til góðra málefna; ferðast til annarra landa; hlusta eftir hættulegum orðum eins og terroristi og ekki þola misbrúkun á orðum sem tjá ættjarðarást; halda ró sinni þegar hið óhugsandi gerist; vera ættjarðarvinur; vera eins hugrakkur og kostur er. „Sé ekkert okkar,“ segir Timothy Snyder, „reiðubúið að deyja fyrir frelsið munum við öll deyja undir harðstjórn.“ Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Birtist í Fréttablaðinu Guðmundur Andri Thorsson Mest lesið Er 0,145% bankaskattur virkilega nóg? Ásthildur Lóa Þórsdóttir Skoðun Á að vera landbúnaður á Íslandi? Ágústa Ágústsdóttir Skoðun Stefnubreyting Miðflokksins gegn hagsmunum bænda Þórarinn Ingi Pétursson,Þuríður Lillý Sigurðardóttir,Jóhann Friðrik Friðriksson,Sigurður Eyjólfur Sigurjónsson,Stefán Vagn Stefánsson,Halla Signý Kristjánsdóttir Skoðun Miðflokkurinn stendur vörð um bændur Högni Elfar Gylfason Skoðun Krónur, evrur og fullveldi Bjarni Benediktsson Skoðun Höldum áfram með íslenskuna og konuna Helga Dögg Sverrisdóttir Skoðun Stúlkur eiga undir högg að sækja í nauðgunarmálum Jörgen Ingimar Hansson Skoðun Neglum niður vextina Kristrún Frostadóttir Skoðun Kennari í verkfalli Hólmfríður Þorgeirsdóttir Skoðun Fjármál Kópavogsbæjar - hin hliðin Theódóra Þorsteinsdóttir Skoðun
Það var gaman að upplifa Bókmenntahátíð, heyra og sjá höfunda héðan og þaðan úr heiminum, skynja hversu frábrugðnir þeir eru okkar höfundum – hver á sinn hátt – og hversu líkir. Og það var ánægjulegt að sjá hversu vel sóttir viðburðir hátíðarinnar voru nú sem endranær og finna þá sérstöku stemmningu sem skapast þegar höfundur les fyrir fullan sal af fólki úr verkum sínum; þegar loftið titrar af orðum sem koma streymandi úr hugskoti skálds, alls konar orðum sem þéttast saman í setningar og málsgreinar áður en þeim rignir ofan í hugskot hlustenda. Þetta eru viðkvæmar og brothættar stundir, öll þessi heilabú opin upp á gátt í samlæti.BlóðakrarMeðal gesta var bandaríski sagnfræðingurinn Timothy Snyder sem hélt fyrirlestur fyrir sagnfræðinga og talaði svo við Halldór Guðmundsson fyrir troðfullu Norræna húsi. Snyder hefur ritað merkar bækur um sögu Austur-Evrópu á síðustu öld og þá skelfilegu atburði sem þar dundu yfir þjóðirnar, og eru svo nærri okkur í tíma að manni rennur kalt vatn milli skinns og hörunds þegar maður hugsar út í það. Bók hans Bloodlands: Europe between Hitler and Stalin er tímamótaverk í því að fá heildarmynd af þeirri vargöld sem geisaði þar um slóðir um miðja síðustu öld. Snyder segir að fram til þessa hafi um of verið horft á þessa sögu út frá þröngum sjónarhól einstakra þjóða eða í metingi um það hvor hafi nú verið verri fjöldamorðingi Hitler eða Stalín, og ekki nægur gaumur verið gefinn heimildum frá þeim löndum sem fengu yfir sig plágur nasismans og kommúnismans. Blóðakrarnir eru að sögn Snyders Úkraína, Hvíta-Rússland, Pólland og Eystrasaltslöndin. Þessi lönd urðu vettvangur fyrir útrýmingarherferðir Hitlers á hendur Gyðingum – þau dráp fóru ekki fram í Þýskalandi, gagnstætt því sem margir halda; og minnihluti Gyðinga var raunar myrtur í útrýmingarbúðunum; þeir voru margir skotnir í sveitaþorpum og grafnir í fjöldagröfum, svipuð vinnubrögð og tíðkuð voru í stríðinu í fyrrum Júgóslavíu undir lok síðustu aldar. Í Úkraínu – einu gjöfulasta landi Evrópu – framkallaði Stalín hungursneyð þar sem fjórar milljónir manna dóu. Snyder hefur lært þjóðtungur þessara þjóða til að geta lesið aðrar heimildir en þýskar og rússneskar og dregið margt nýtt fram og hann leggur sig í líma við að leiðrétta missagnir og mýtur, dregur fram samsettan og subbulegan veruleikann sem samanstendur ekki bara af hetjum og fólum heldur líka fólki sem vann með innrásarherjunum, hjálpaði við fjöldamorðin og bjargaði sér með mis-ljósfælnum aðferðum. Þetta er áminning um það hversu þunn hula siðmenningarinnar er og hversu skelfilegt grimmdarverk hægt er að fá venjulegasta og hversdagsgæfasta fólk til að fremja, takist að skera á samband skynseminnar og siðvitsins – og tæla fólk til fylgilags við firruna og spila á ótta og vanlíðan með því að telja fólki trú um að einhver tiltekinn hópur manna sé óvinur, hvort heldur það er vegna þjóðernis, stéttarstöðu, trúarbragða eða hörundslitar.HeilræðaþulanNýlega kom út bók eftir Snyder – eða kannski öllu heldur bæklingur – eða ákall sem hann skrifar í kjölfarið á kjöri Trumps með tilheyrandi sigurför vanþekkingar og lyga. On Tyranny – twenty lessons from the 20th century heitir bókin. Það tekur mann um það bil hálftíma að bruna í gegnum þetta rit, sem er sannkölluð hugvekja og hefur að geyma tuttugu heilræði sem Snyder finnst að síðasta öld hafi kennt okkur, og svo ræðir hann hvert og eitt þeirra í stuttu máli. Hann segir í inngangi, meðal annars: „Saga Evrópu á tuttugustu öldinni sýnir okkur að þjóðfélög geta brostið, lýðræðið getur fallið, siðareglur geta hrunið og venjulegir menn geta rankað við sér þar sem þeir standa yfir fjöldagröf með byssu í hendi.“ Og nokkru síðar: „Við erum ekkert vitrari en þeir Evrópubúar sem horfðu upp á lýðræðið hopa undan fasisma, nasisma eða kommúnisma á tuttugustu öldinni. Það eina sem við höfum fram yfir þá er að við getum dregið lærdóma af reynslu þeirra. Nú er orðið tímabært að gera það.“ Heilræðin tuttugu eru þessi: að hlýða ekki valdboði í blindni; standa vörð um stofnanir samfélagsins; varast einsflokksræði; ekki venjast táknum á borð við hakakrossa í umhverfi sínu; halda í heiðri siðareglur stétta sinna (hvað lögfræðingar athugi); ekki umbera vopnaburð hópa; vera varkár þurfi maður að bera vopn vegna vinnu sinnar; sýna gott fordæmi; virða eigin þjóðtungu, lesa bækur, ekki hanga of mikið á netinu; trúa því sem satt er; leggjast í rannsóknir; horfa í augun á fólki og spjalla um daginn og veginn; vera til svæðis, fara á fundi og mannfagnaði, hitta fólk; eiga einkalíf; gefa til góðra málefna; ferðast til annarra landa; hlusta eftir hættulegum orðum eins og terroristi og ekki þola misbrúkun á orðum sem tjá ættjarðarást; halda ró sinni þegar hið óhugsandi gerist; vera ættjarðarvinur; vera eins hugrakkur og kostur er. „Sé ekkert okkar,“ segir Timothy Snyder, „reiðubúið að deyja fyrir frelsið munum við öll deyja undir harðstjórn.“
Stefnubreyting Miðflokksins gegn hagsmunum bænda Þórarinn Ingi Pétursson,Þuríður Lillý Sigurðardóttir,Jóhann Friðrik Friðriksson,Sigurður Eyjólfur Sigurjónsson,Stefán Vagn Stefánsson,Halla Signý Kristjánsdóttir Skoðun
Stefnubreyting Miðflokksins gegn hagsmunum bænda Þórarinn Ingi Pétursson,Þuríður Lillý Sigurðardóttir,Jóhann Friðrik Friðriksson,Sigurður Eyjólfur Sigurjónsson,Stefán Vagn Stefánsson,Halla Signý Kristjánsdóttir Skoðun