Innlent

Forsetahjónin mætt til Finnlands í tilefni af aldarafmæli sjálfstæðis landsins

Atli Ísleifsson skrifar
Guðni Th. Jóhannesson forseti og Sauli Niinistö Finnlandsforseti.
Guðni Th. Jóhannesson forseti og Sauli Niinistö Finnlandsforseti. Finnska forsetaskrifstofan.
Guðni Th. Jóhannesson forseti og Eliza Jean Reid forsetafrú eru mætti til Finnlands til að taka þátt í hátíðarhöldum í tilefni af aldarafmæli sjálfstæðis Finnlands á morgun, fimmtudaginn 1. júní. Þar verða þau ásamt öðrum þjóðhöfðingjum Norðurlanda í boði finnskra stjórnvalda.

Í tilkynningu frá forsetaembættinu segir að hátíðarhöldin hefjist með viðhöfn í finnsku forsetahöllinni klukkan 10:50 þar sem forseti Íslands flytur ávarp ásamt forseta Finnlands, Sauli Niinistö.

„Þaðan verður haldið í ráðhús Helsinki þar sem gestir sitja hádegisverðarboð. Síðdegis verða dagskrárliðir m.a. í sænsk-finnska menningarsetrinu Hanasaari (Hanaholmen) og við minnismerkið um finnska tónskáldið Jean Sibelius. Að kvöldi fimmtudagsins 1. júní bjóða finnsku forsetahjónin til hátíðarkvöldverðar í finnsku forsetahöllinni.

Í dag, miðvikudaginn 31. maí, sitja forsetahjón hádegisverðarboð finnsku forsetahjónanna og forseti Íslands og forseti Finnlands munu eiga fund og ræða við fréttamenn. Þá mun forseti Íslands einnig eiga fundi í dag með Juha Sipilä, forsætisráðherra Finnlands, og Maria Lohela, forseta finnska þingsins. Meðan á heimsókn forsetahjóna til Finnlands stendur munu þau jafnframt hitta Íslendinga búsetta í Finnlandi í móttöku sem sendiherra Íslands í Finnlandi býður til,“ segir í tilkynningunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×