Land, þjóð og tunga – 1500 kall Guðmundur Andri Thorsson skrifar 2. febrúar 2015 00:00 Esjan er frænka mín. Ég held að fáir þekki mig betur en hún, enda hefur hún vakað yfir mér öll þessi ár. Og Snæfellsjökull: ég sit stundum á svölunum á fögrum sumarkvöldum og horfi á hann; við spjöllum saman um hitt og þetta sem okkur finnst ástæða til að nefna og hann fær mig alltaf til að brosa með einskærri fegurð sinni. Og Keilir – ég þekki hann líka; hann er fínn. Og Eyjafjallajökull – sífulli frændinn sem delerar í boðum – og Skjaldbreiður með sínar ævintýrlegu doppur og hún Herðubreið svo kátleg í laginu. Öll þessi fjöll hafa tekið sér bólfestu í mér. Þau eru hluti af daglegu lífi mínu. Ég á þau og þau eiga mig. Við sem hérna búum höfum flest svona fjall inni í okkur.Þetta land átt þú Þetta kann að virka eins og orðagjálfur, hálfgerður orðarjómi með stílbragði: en þessar hugrenningar vakna samt þegar maður veltir fyrir sér áformum iðnaðarráðherra um náttúrupassa. Samband okkar sem hér búum við íslenska náttúru er dálítið flókið, það er náið, það er alls ekki bara indælt og hugljúft; þetta hefur verið ströng sambúð, þótt ekki hafi hún verið löng, í okkur togast á ást og ótti, lotning og óbeit. Katla er engin vinkona. Öræfajökli hæfa ekki blíðleg og settleg orð: þarna blunda ógurleg öfl sem við vitum alltaf af. Og við vitum að jörðin undir fótum okkar er lífkerfi sem við getum ekki stýrt eða beislað, einungis lifað með og nýtt af varfærni og virðingu. En sem sé, svona er þetta: Við sem búum hérna þurfum að hafa þá hugmynd – og þetta er eiginlega algjört grundvallaratriði sem jafnvel ráðherrar þurfa að hugsa út í – að við eigum þess kost að arka af stað, inn í landið, hvenær sem er og hvert sem er, algjörlega á eigin vegum, til að ganga í þúfunum, finna vindinn, leggjast í lyngbrekku, drekka af rennandi læk og graðga í sig aðalbláberjum; lesa blóm og lesa land: þramma um og þylja örefni eins og þeir frumbyggjar sem við Íslendingar erum í raun og veru; skunda á Þingvöll sem ætti að vera okkar Mekka og Jerúsalem: okkar helga jörð; og beinlínis helgispjöll að láta sér svo mikið sem til hugar koma að fara að rukka okkur um aðgang þar eða láta stöðumælaverði koma kjagandi móða og másandi á eftir okkur eins og styggum rollum til að krefja okkur um bréf einungis til að uppskera svarið: „Og mörg eru þau bréfin í Bláskógarheiðinni…“ Með öðrum orðum: Þetta land átt þú. Þetta land á þig. Eða með enn öðru orði sem ráðherrum Sjálfstæðisflokksins er jafn tamt í munni og þeim er það er ótamt í hugsun: þetta snýst um frelsi.Land, þjóð og tunga Land þjóð og tunga? Já, það gera 1500 krónur, takk fyrir. Ráðherrann talar eins og náttúrupassinn sé eina úrræðið sem í boði sé til að vernda viðkvæma staði sem farnir eru að láta á sjá vegna ágangs. Vandséð er hvort hún trúir því sjálf að slíkt gjald muni renna óskert til náttúruverndar – hún væri þá nokkurn veginn ein um það; hér á landi fara eyrnamerkt gjöld aldrei óskert til lögbundinna verkefna. Látum það vera: ráðherrann hefur enn ekki komið með sannfærandi rök gegn gistináttagjaldi – eða ósannfærandi – og tal hennar um að sérstakt gjald á ferðamenn sem hingað koma brjóti í bága við Evróputilskipanir sýnir þá undarlegu þrælslund gagnvart slíkum tilskipunum sem andstæðingar aðildar að Evrópusambandinu sýna svo oft: hver segir að ekki megi fá undanþágu í svo mikilvægu máli? Því þetta er mikilvægt mál. Það er mikilvægt að hugarfarsbreyting verði hér gagnvart fjölsóttum ferðamannastöðum og vitund um að ekki gangi lengur að láta þetta darka svona heldur þarf bæði að setja fé úr sameiginlegum sjóðum landsmanna og skattleggja þá sem græða á túrismanum í þessu skyni. Það er skynsamlegra þannig og það er líka sanngjarnara þannig. Landverðir hafa þann starfa að sjá til þess að fólk gangi sómasamlega um en ráðherrann vill að þeir fari frekar að eyða tíma sínum í að elta fólk og krefja um passa. Og svo er það hitt, sem kannski er erfiðara að færa í orð. Þetta að vera Íslendingur: Land, þjóð og tunga, og það allt: þetta er alltaf að verða óljósara í breyttum heimi, vitaskuld. Börnin hangandi í enskumælandi tölvum heilu og hálfu dagana – og við svo sem líka – allt þetta efni héðan og þaðan sem er daglegur veruleiki okkar allra í alþjóðavæddum heimi undir sívökulu auga snargalinna bandarískra njósnastofnana. Og alls konar fólk sem hingað kemur og bætist við þjóðarmengið og auðgar menninguna, gerist Íslendingar, fer að basla með sín Sumarhús; og kannski var íslensk menning í upphafi ekki bara landnemamenning heldur líka fjölmenning – en kannski fyrst og fremst endalaust basl. Og þras. Það sem við nennum að þrasa hér og við lifum okkur mikið inn í það hversu ólík við séum, hér búi tvær þjóðir sem ekkert eigi vantalað hvor við aðra. Þegar æðstu ráðamenn tala um að nú sé kominn tími til að sættast gera þeir það á ögrandi og umfram allt sundrandi hátt, því að sáttin skal alltaf að snúast um þeirra vilja, þeirra hugmyndir, þeirra sýn. Og við förum nýjan þrashring. En við eigum samt þessi fjöll og alla þessa undursamlegu og ógnarfögru fossa. Við eigum þetta: hugmyndina um fossana og okkur; hugmyndina um landið okkar og okkur sjálf í landinu, þetta er eitthvert hugarástand sem má aldrei hrófla við. Þetta er heilagt. Eigi maður að greiða sérstakt gjald fyrir að ganga um landið segir það sig sjálft að þar með finnst manni ekki lengur að þetta sé sitt land, heldur tilheyri það einhverjum öðrum. Og þá náttúrlega fer maður bara þangað sem veðrið er gott og fólkið brosmilt. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Guðmundur Andri Thorsson Mest lesið Geðdeild Akureyrar aðeins með 10 pláss á legudeild fyrir sjúklinga með alvarlegan geðrænan vanda Gísli Hvanndal Jakobsson Skoðun Halldór 16.11.2024 Halldór Opið bréf til næsta heilbrigðisráðherra Teitur Guðmundsson Skoðun Aðgangur bannaður Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir Skoðun Einkavæðing súrefnisins Björn Þorláksson Skoðun Ríkið sviptir 30.400 manns grundvallarréttindum sínum Yngvi Sighvatsson Skoðun Dagur íslenskrar tungu 2024: Væntumþykja í 60 ár Eva María Jónsdóttir Skoðun Íslensku menntaverðlaunin og vandi íslenska skólakerfisins Meyvant Þórólfsson Skoðun Leyfum ungmennum að sofa – hættum að sofa á verðinum Sigurður Eyjólfur Sigurjónsson Skoðun Fjölfræðingur óskar eftir starfi Rakel Linda Kristjánsdóttir Skoðun
Esjan er frænka mín. Ég held að fáir þekki mig betur en hún, enda hefur hún vakað yfir mér öll þessi ár. Og Snæfellsjökull: ég sit stundum á svölunum á fögrum sumarkvöldum og horfi á hann; við spjöllum saman um hitt og þetta sem okkur finnst ástæða til að nefna og hann fær mig alltaf til að brosa með einskærri fegurð sinni. Og Keilir – ég þekki hann líka; hann er fínn. Og Eyjafjallajökull – sífulli frændinn sem delerar í boðum – og Skjaldbreiður með sínar ævintýrlegu doppur og hún Herðubreið svo kátleg í laginu. Öll þessi fjöll hafa tekið sér bólfestu í mér. Þau eru hluti af daglegu lífi mínu. Ég á þau og þau eiga mig. Við sem hérna búum höfum flest svona fjall inni í okkur.Þetta land átt þú Þetta kann að virka eins og orðagjálfur, hálfgerður orðarjómi með stílbragði: en þessar hugrenningar vakna samt þegar maður veltir fyrir sér áformum iðnaðarráðherra um náttúrupassa. Samband okkar sem hér búum við íslenska náttúru er dálítið flókið, það er náið, það er alls ekki bara indælt og hugljúft; þetta hefur verið ströng sambúð, þótt ekki hafi hún verið löng, í okkur togast á ást og ótti, lotning og óbeit. Katla er engin vinkona. Öræfajökli hæfa ekki blíðleg og settleg orð: þarna blunda ógurleg öfl sem við vitum alltaf af. Og við vitum að jörðin undir fótum okkar er lífkerfi sem við getum ekki stýrt eða beislað, einungis lifað með og nýtt af varfærni og virðingu. En sem sé, svona er þetta: Við sem búum hérna þurfum að hafa þá hugmynd – og þetta er eiginlega algjört grundvallaratriði sem jafnvel ráðherrar þurfa að hugsa út í – að við eigum þess kost að arka af stað, inn í landið, hvenær sem er og hvert sem er, algjörlega á eigin vegum, til að ganga í þúfunum, finna vindinn, leggjast í lyngbrekku, drekka af rennandi læk og graðga í sig aðalbláberjum; lesa blóm og lesa land: þramma um og þylja örefni eins og þeir frumbyggjar sem við Íslendingar erum í raun og veru; skunda á Þingvöll sem ætti að vera okkar Mekka og Jerúsalem: okkar helga jörð; og beinlínis helgispjöll að láta sér svo mikið sem til hugar koma að fara að rukka okkur um aðgang þar eða láta stöðumælaverði koma kjagandi móða og másandi á eftir okkur eins og styggum rollum til að krefja okkur um bréf einungis til að uppskera svarið: „Og mörg eru þau bréfin í Bláskógarheiðinni…“ Með öðrum orðum: Þetta land átt þú. Þetta land á þig. Eða með enn öðru orði sem ráðherrum Sjálfstæðisflokksins er jafn tamt í munni og þeim er það er ótamt í hugsun: þetta snýst um frelsi.Land, þjóð og tunga Land þjóð og tunga? Já, það gera 1500 krónur, takk fyrir. Ráðherrann talar eins og náttúrupassinn sé eina úrræðið sem í boði sé til að vernda viðkvæma staði sem farnir eru að láta á sjá vegna ágangs. Vandséð er hvort hún trúir því sjálf að slíkt gjald muni renna óskert til náttúruverndar – hún væri þá nokkurn veginn ein um það; hér á landi fara eyrnamerkt gjöld aldrei óskert til lögbundinna verkefna. Látum það vera: ráðherrann hefur enn ekki komið með sannfærandi rök gegn gistináttagjaldi – eða ósannfærandi – og tal hennar um að sérstakt gjald á ferðamenn sem hingað koma brjóti í bága við Evróputilskipanir sýnir þá undarlegu þrælslund gagnvart slíkum tilskipunum sem andstæðingar aðildar að Evrópusambandinu sýna svo oft: hver segir að ekki megi fá undanþágu í svo mikilvægu máli? Því þetta er mikilvægt mál. Það er mikilvægt að hugarfarsbreyting verði hér gagnvart fjölsóttum ferðamannastöðum og vitund um að ekki gangi lengur að láta þetta darka svona heldur þarf bæði að setja fé úr sameiginlegum sjóðum landsmanna og skattleggja þá sem græða á túrismanum í þessu skyni. Það er skynsamlegra þannig og það er líka sanngjarnara þannig. Landverðir hafa þann starfa að sjá til þess að fólk gangi sómasamlega um en ráðherrann vill að þeir fari frekar að eyða tíma sínum í að elta fólk og krefja um passa. Og svo er það hitt, sem kannski er erfiðara að færa í orð. Þetta að vera Íslendingur: Land, þjóð og tunga, og það allt: þetta er alltaf að verða óljósara í breyttum heimi, vitaskuld. Börnin hangandi í enskumælandi tölvum heilu og hálfu dagana – og við svo sem líka – allt þetta efni héðan og þaðan sem er daglegur veruleiki okkar allra í alþjóðavæddum heimi undir sívökulu auga snargalinna bandarískra njósnastofnana. Og alls konar fólk sem hingað kemur og bætist við þjóðarmengið og auðgar menninguna, gerist Íslendingar, fer að basla með sín Sumarhús; og kannski var íslensk menning í upphafi ekki bara landnemamenning heldur líka fjölmenning – en kannski fyrst og fremst endalaust basl. Og þras. Það sem við nennum að þrasa hér og við lifum okkur mikið inn í það hversu ólík við séum, hér búi tvær þjóðir sem ekkert eigi vantalað hvor við aðra. Þegar æðstu ráðamenn tala um að nú sé kominn tími til að sættast gera þeir það á ögrandi og umfram allt sundrandi hátt, því að sáttin skal alltaf að snúast um þeirra vilja, þeirra hugmyndir, þeirra sýn. Og við förum nýjan þrashring. En við eigum samt þessi fjöll og alla þessa undursamlegu og ógnarfögru fossa. Við eigum þetta: hugmyndina um fossana og okkur; hugmyndina um landið okkar og okkur sjálf í landinu, þetta er eitthvert hugarástand sem má aldrei hrófla við. Þetta er heilagt. Eigi maður að greiða sérstakt gjald fyrir að ganga um landið segir það sig sjálft að þar með finnst manni ekki lengur að þetta sé sitt land, heldur tilheyri það einhverjum öðrum. Og þá náttúrlega fer maður bara þangað sem veðrið er gott og fólkið brosmilt.
Geðdeild Akureyrar aðeins með 10 pláss á legudeild fyrir sjúklinga með alvarlegan geðrænan vanda Gísli Hvanndal Jakobsson Skoðun
Geðdeild Akureyrar aðeins með 10 pláss á legudeild fyrir sjúklinga með alvarlegan geðrænan vanda Gísli Hvanndal Jakobsson Skoðun