Heimurinn og hann Guðmundur Andri Thorsson skrifar 19. janúar 2015 07:00 Forsætisráðherra nennti ekki til Parísar í stóru gönguna og enginn úr aðstoðarmannahirð hans hafði döngun í sér til að rífa hann út úr híði sínu og útskýra fyrir honum mikilvægi þessa augnabliks, telja í hann kjark eða hvað það nú var sem hann þurfti á að halda. Við getum þakkað Sigmundi Davíð það að þennan dag var Ísland ekki til í samfélagi þjóðanna… Nei takk, við höfum ekki áhuga á að vera með í mannkynssögunni. Megum ekki vera að því. Takk annars. Okkur finnst þetta allt voða leiðinlegt.Hliðargötur umræðunnar „Þess minnist ég að mér og þessum heimi / kom misjafnlega saman fyrr á dögum“ orti Steinn Steinarr í einu af sínum ódauðlegu ljóðum og gerir síðan grein fyrir sáttum þeirra, sín og heimsins, „því ólán mitt er brot af heimsins harmi, / og heimsins ólán býr í þjáning minni“. Þetta á vonandi eftir að renna upp fyrir forsætisráðherra. Ísland er ekki utan heimsins. En þessi helgi, þegar Sigmundur Davíð nennti ekki til Parísar, mun fylgja honum og móta mat fólks á ráðherratíð hans og dómgreind. Og þá ekki síður eftirleikurinn: fumandi útskýringarnar um margvíslega samverkandi þætti og fjarlægðir milli Íslands og Parísar. Ráðherrann reyndi um síðir að smokra sér út úr klípunni með því að gera lítið úr atburðinum; hann talar um „hliðargötur“ – eins og hann sé sjálfur mikill aðalgötumaður – og að „láta taka af sér ljósmyndir“. Hann lét á sér skilja að allt hefði þetta verið hégómi og yfirborðsmennska en hann hafi sjálfur verið hér heima „að lesa erlend blöð“ og almennt niðursokkinn í djúpa þanka um það sem „skiptir máli“ varðandi tjáningarfrelsið. Hann vék þó ekki að því hve vandmeðfarið tjáningarfrelsið sé og dýrmætt, hann nefndi ekki mikilvægi tillitsseminnar, umburðarlyndisins eða hins gagnkvæma skilnings; hann minntist ekki á kærleikann sem fellur aldrei úr gildi og alveg láðist honum að fordæma morðæði… hann sagði ekkert sem sameinar hugi og tendrar ljós í hjörtum. Hann talaði bara um það sama og alltaf: umræðuna. Og honum tókst að tala þannig – viljandi eða óvart – að flest okkar skildu orð hans í tengslum við getgátur Ásmundar Friðrikssonar alþingismanns um að tilteknir samborgarar okkar kunni að vera dulbúnir hryðjuverkamenn – og rannsaka þurfi bakgrunn allra múslima á Íslandi – getgátur sem gjörvallur þingflokkur Sjálfstæðisflokksins kvað snarlega og undanbragðalaust niður sem haldlaust geip. Forsætisráðherrann virtist hins vegar ljá máls á því við þyrftum að „taka umræðuna“ um það hvort ekki megi gera ráð fyrir því að múslimar á Íslandi séu hryðjuverkamenn takist þeim ekki að sýna fram á annað fyrir fram. Sigmundur Davíð talaði um ramma í þessu sambandi; og það var svolítið eins og hann fyndi til klastrófóbíu. Hann sagði eitthvað á þá leið að ramminn um það sem megi segja hér sé alltaf að þrengjast – sem óneitanlega eru tíðindi fyrir okkur á tímum Hugleiks og Megasar, Vantrúarfélaga, Erps og annarra kjaftforra brautryðjenda afhelgunar, svo að jafnvel biskup landsins er farinn að ljá máls á því að afnema refsingarákvæði í þeim lagabókstaf sem snýr að guðlasti. Maður skynjaði það einhvern veginn þegar maður horfði á Sigmund Davíð tala í sjónvarpinu að þetta var maður sem fannst að sér þrengt. Kannski hann ætti að grisja þá þéttu fylkingu aðstoðarmanna sem umkringir hann til að ná betur andanum. Það skiptir máli hvað maður segir, hvernig maður segir það, hvenær og hvar það er gert. Þegar vegið er að einni grundvallarstoð samfélagsins með þeim hætti sem gert var í París skiptir máli að ráðamenn loki sig ekki bara af og komi svo út um síðir til að tala við menn á sinni Bylgjulengd og taki sér stöðu yst á kanti og ekki bara í hliðargötu umræðunnar heldur innst í skúmaskoti umræðunnar.Ekki svaravert Það er rangt að um alla hluti „þurfi að taka umræðuna“. Ég gæti sagt við ókunnan mann á förnum vegi að mér finnist margt benda til að hann sé þjófur og illmenni, en honum ber engin skylda til að bregðast sérstaklega við slíkum ávirðingum. Hann þyrfti ekkert að „taka umræðuna“ út frá slíkum blammeringum; hefði raunar vissan rétt til að endurgjalda þær en gerði best í því að halda áfram sinn veg og láta mig verða að gjalti. Sumt er ekki svaravert. Með því að „taka umræðuna“ um það hvort múslimar á Íslandi séu hugsanlegir hryðjuverkamenn, vegna trúar sinnar eða uppruna, er um leið verið að veita slíkum svívirðingum visst lögmæti. Það er enginn að „aflífa“ Ásmund þingmann fyrir kjánalegt frumhlaup sitt og hvað þá að verið sé að hoppa á honum: fólk má hins vegar – og á að – andmæla honum. Það er ekki hluti af tjáningarfrelsinu að eiga rétt á því að allir kinki kolli þegar maður veitist að samborgunum með svo dólgslegum hætti. En sem sé, svona er þetta: Alltaf þegar við þurfum á Sigmundi Davíð að halda hérna heima er hann í útlöndum. Og svo, þetta eina sinn sem við þurfum á því að halda að hann sé í útlöndum – þá er hann hérna heima. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Guðmundur Andri Thorsson Mest lesið Geðdeild Akureyrar aðeins með 10 pláss á legudeild fyrir sjúklinga með alvarlegan geðrænan vanda Gísli Hvanndal Jakobsson Skoðun Halldór 16.11.2024 Halldór Opið bréf til næsta heilbrigðisráðherra Teitur Guðmundsson Skoðun Aðgangur bannaður Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir Skoðun Einkavæðing súrefnisins Björn Þorláksson Skoðun Ríkið sviptir 30.400 manns grundvallarréttindum sínum Yngvi Sighvatsson Skoðun Dagur íslenskrar tungu 2024: Væntumþykja í 60 ár Eva María Jónsdóttir Skoðun Íslensku menntaverðlaunin og vandi íslenska skólakerfisins Meyvant Þórólfsson Skoðun Leyfum ungmennum að sofa – hættum að sofa á verðinum Sigurður Eyjólfur Sigurjónsson Skoðun Fjölfræðingur óskar eftir starfi Rakel Linda Kristjánsdóttir Skoðun
Forsætisráðherra nennti ekki til Parísar í stóru gönguna og enginn úr aðstoðarmannahirð hans hafði döngun í sér til að rífa hann út úr híði sínu og útskýra fyrir honum mikilvægi þessa augnabliks, telja í hann kjark eða hvað það nú var sem hann þurfti á að halda. Við getum þakkað Sigmundi Davíð það að þennan dag var Ísland ekki til í samfélagi þjóðanna… Nei takk, við höfum ekki áhuga á að vera með í mannkynssögunni. Megum ekki vera að því. Takk annars. Okkur finnst þetta allt voða leiðinlegt.Hliðargötur umræðunnar „Þess minnist ég að mér og þessum heimi / kom misjafnlega saman fyrr á dögum“ orti Steinn Steinarr í einu af sínum ódauðlegu ljóðum og gerir síðan grein fyrir sáttum þeirra, sín og heimsins, „því ólán mitt er brot af heimsins harmi, / og heimsins ólán býr í þjáning minni“. Þetta á vonandi eftir að renna upp fyrir forsætisráðherra. Ísland er ekki utan heimsins. En þessi helgi, þegar Sigmundur Davíð nennti ekki til Parísar, mun fylgja honum og móta mat fólks á ráðherratíð hans og dómgreind. Og þá ekki síður eftirleikurinn: fumandi útskýringarnar um margvíslega samverkandi þætti og fjarlægðir milli Íslands og Parísar. Ráðherrann reyndi um síðir að smokra sér út úr klípunni með því að gera lítið úr atburðinum; hann talar um „hliðargötur“ – eins og hann sé sjálfur mikill aðalgötumaður – og að „láta taka af sér ljósmyndir“. Hann lét á sér skilja að allt hefði þetta verið hégómi og yfirborðsmennska en hann hafi sjálfur verið hér heima „að lesa erlend blöð“ og almennt niðursokkinn í djúpa þanka um það sem „skiptir máli“ varðandi tjáningarfrelsið. Hann vék þó ekki að því hve vandmeðfarið tjáningarfrelsið sé og dýrmætt, hann nefndi ekki mikilvægi tillitsseminnar, umburðarlyndisins eða hins gagnkvæma skilnings; hann minntist ekki á kærleikann sem fellur aldrei úr gildi og alveg láðist honum að fordæma morðæði… hann sagði ekkert sem sameinar hugi og tendrar ljós í hjörtum. Hann talaði bara um það sama og alltaf: umræðuna. Og honum tókst að tala þannig – viljandi eða óvart – að flest okkar skildu orð hans í tengslum við getgátur Ásmundar Friðrikssonar alþingismanns um að tilteknir samborgarar okkar kunni að vera dulbúnir hryðjuverkamenn – og rannsaka þurfi bakgrunn allra múslima á Íslandi – getgátur sem gjörvallur þingflokkur Sjálfstæðisflokksins kvað snarlega og undanbragðalaust niður sem haldlaust geip. Forsætisráðherrann virtist hins vegar ljá máls á því við þyrftum að „taka umræðuna“ um það hvort ekki megi gera ráð fyrir því að múslimar á Íslandi séu hryðjuverkamenn takist þeim ekki að sýna fram á annað fyrir fram. Sigmundur Davíð talaði um ramma í þessu sambandi; og það var svolítið eins og hann fyndi til klastrófóbíu. Hann sagði eitthvað á þá leið að ramminn um það sem megi segja hér sé alltaf að þrengjast – sem óneitanlega eru tíðindi fyrir okkur á tímum Hugleiks og Megasar, Vantrúarfélaga, Erps og annarra kjaftforra brautryðjenda afhelgunar, svo að jafnvel biskup landsins er farinn að ljá máls á því að afnema refsingarákvæði í þeim lagabókstaf sem snýr að guðlasti. Maður skynjaði það einhvern veginn þegar maður horfði á Sigmund Davíð tala í sjónvarpinu að þetta var maður sem fannst að sér þrengt. Kannski hann ætti að grisja þá þéttu fylkingu aðstoðarmanna sem umkringir hann til að ná betur andanum. Það skiptir máli hvað maður segir, hvernig maður segir það, hvenær og hvar það er gert. Þegar vegið er að einni grundvallarstoð samfélagsins með þeim hætti sem gert var í París skiptir máli að ráðamenn loki sig ekki bara af og komi svo út um síðir til að tala við menn á sinni Bylgjulengd og taki sér stöðu yst á kanti og ekki bara í hliðargötu umræðunnar heldur innst í skúmaskoti umræðunnar.Ekki svaravert Það er rangt að um alla hluti „þurfi að taka umræðuna“. Ég gæti sagt við ókunnan mann á förnum vegi að mér finnist margt benda til að hann sé þjófur og illmenni, en honum ber engin skylda til að bregðast sérstaklega við slíkum ávirðingum. Hann þyrfti ekkert að „taka umræðuna“ út frá slíkum blammeringum; hefði raunar vissan rétt til að endurgjalda þær en gerði best í því að halda áfram sinn veg og láta mig verða að gjalti. Sumt er ekki svaravert. Með því að „taka umræðuna“ um það hvort múslimar á Íslandi séu hugsanlegir hryðjuverkamenn, vegna trúar sinnar eða uppruna, er um leið verið að veita slíkum svívirðingum visst lögmæti. Það er enginn að „aflífa“ Ásmund þingmann fyrir kjánalegt frumhlaup sitt og hvað þá að verið sé að hoppa á honum: fólk má hins vegar – og á að – andmæla honum. Það er ekki hluti af tjáningarfrelsinu að eiga rétt á því að allir kinki kolli þegar maður veitist að samborgunum með svo dólgslegum hætti. En sem sé, svona er þetta: Alltaf þegar við þurfum á Sigmundi Davíð að halda hérna heima er hann í útlöndum. Og svo, þetta eina sinn sem við þurfum á því að halda að hann sé í útlöndum – þá er hann hérna heima.
Geðdeild Akureyrar aðeins með 10 pláss á legudeild fyrir sjúklinga með alvarlegan geðrænan vanda Gísli Hvanndal Jakobsson Skoðun
Geðdeild Akureyrar aðeins með 10 pláss á legudeild fyrir sjúklinga með alvarlegan geðrænan vanda Gísli Hvanndal Jakobsson Skoðun