Óhlýðni Guðmundur Andri Thorsson skrifar 13. október 2014 06:30 Fái dómur Héraðsdóms Reykjaness yfir níumenningunum í Gálgahrauni að standa hafa stjórnvöld þar með sent okkur landsmönnum svolítið margræð skilaboð um það hvar óhlýðni kunni að vera réttlætanleg og hvar ekki. Á sínum tíma voru nefnilega aðrir níumenningar sýknaðir í Hæstarétti af ákæru um brot gegn valdstjórninni: að hafa óhlýðnast lögreglu og þingvörðum og ruðst inn í alþingishúsið, til þess að mótmæla og sýna í verki hug sinn í garð þings sem þeir töldu hafa brugðist hlutverki sínu. Skilaboðin eru þá þessi, standi dómurinn: Það er verra að trufla gröfur en að trufla störf alþingis. Það er verra að sýna verktökum óvirðingu en kjörnum fulltrúum. Það er, undir vissum kringumstæðum, í lagi að óhlýðnast laganna vörðum sem meina inngöngu í alþingishúsið, sem er sá staður þar sem hjarta þingræðisins slær, veikt og flöktandi á köflum. Hitt er hins vegar með öllu ólíðandi, að óhlýðnast lögreglumönnum sem gæta þess að gröfur verði ekki truflaðar við þá knýjandi iðju sína að rífa upp árþúsunda gamalt hraun.Via dolorosa Almennt var sýknudómi yfir hinum fyrri níumenningum fagnað og þeir taldir hafa haft mikilsverðar ástæður til að tjá sig með þeim hætti sem þeir gerðu, enda þingpallar opinbert svæði, öllum opið. Litið var svo á að þetta væri sigur fyrir lýðræðislegan rétt almennings til að láta reiði sína í ljós sé honum misboðið, jafnvel þótt laganna verðir vilji hindra þá tjáningu. Níumenningarnir voru ekki einir á ferð í búsáhaldabyltingunni. Þá réðist fólk á alþingishúsið til að láta í ljós andúð sína á kjörnum fulltrúum eða jafnvel sjálfu þingræðinu, lemja veggi, brjóta rúður, slá nýjan takt, óhlýðnast. Í tíð síðustu ríkisstjórnar varð síðan ganga þingmanna milli dómkirkju og alþingishúss að sannkölluðum svipugöngum þar sem sjálfsagður réttur borgaranna þótti að henda í þessa þjóðkjörnu fulltrúa eggjum og öllu lauslegu, vegna þess að hægt þótti ganga að greiða úr skuldum sem bankamenn og sjálfskipaðir athafnamenn höfðu efnt til og látið falla á landsmenn. Lögreglan horfði á án þess að aðhafast. En þegar gröfurnar þurfa að komast leiðar sinnar á Álftanesi við að leggja sinn veg og breyta ósnortinni náttúru í mislægar malbiksslaufur handa tíu þúsund manna byggð í Garðaholti sem aðeins er til í kollinum á bæjarfulltrúum í Garðabæ – þá skal ekkert tefja þá framrás; allra síst fólk á borð við píanókennara á áttræðisaldri, kórstjóra og tónskáld eða myndlistarkonu sem skynjar álfa í kringum sig. Hingað og ekki lengra, hugsar valdstjórnin þá: skítt með öryggi alþingismanna; hér skal víglínan dregin.Mikilsverð réttindiÓhlýðni er mikilsverður mannlegur eiginleiki og vissulega vandmeðfarinn. Samfélag getur ekki þrifist sé hún allsráðandi – og hvimleiður er skortur íslenskra ökumanna á stefnuljósum – en hún getur líka verið aflvaki framfara. Verkföll eru dæmi um óhlýðni sem samfélagið hefur smám saman fundið út úr hvernig skuli háttað eftir tilteknum leiðum. Flest framfaramál sem snerta réttindi okkar hafa fengist fram eftir baráttu þar sem einatt hefur þurft að sýna yfirvöldum óhlýðni. Frægustu og fegurstu dæmin frá 20. öld um borgaralega óhlýðni varða grundvallarmannréttindi sem lög höfðu verið sett til þess að meina fólki um: á Indlandi þegar Bretar stjórnuðu landinu og Gandhi hvatti landsmenn til að óhlýðnast lögum valdsherranna; í Suðurríkjum Bandaríkjanna í byrjun sjöunda áratugar þeirrar aldar þegar tekist var á um það hvort ungar stúlkur eins og Malala mættu vegna hörundslitar síns ganga í skóla og þar sem kona að nafni Rosa Parks óhlýðnaðist lögum og settist í strætisvagni þar sem fólki með brúnan hörundslit var meinað að setjast – lögum samkvæmt – og loks í Suður-Afríku þar sem fólk af evrópskum uppruna neitaði fólki sem fyrir var í landinu um hvers kyns réttindi en óstjórnin var brotin á bak aftur með seiglu, söng og óhlýðni hvar sem henni var við komið. Almennt er litið svo á í opnu samfélagi að fólk hafi rétt til þess að láta í ljós vanþóknun sína á gerðum yfirvalda, jafnvel þótt lögreglan skipi viðkomandi fólki að hætta því. Það er mikilvægt að lögreglan fari að átta sig á því að þetta á ekki bara við þegar fólk mótmælir vegna peningamála. Þeir verða að fara að kenna það í Lögregluskólanum að náttúruvernd er fullgilt sjónarmið. Yfirvöld verða að fara að taka með í reikninginn að sumu fólki getur orðið mjög heitt í hamsi vegna náttúrunnar og þeirra almennu og yfirskipuðu réttinda að henni eigi ekki að raska, verði hjá því komist. Þeirrar tilhneigingar gætir hjá yfirvöldum að þykja náttúruverndarsjónarmið léttvæg: í mörgu lögguhugskoti bærist bloggari sem telur náttúruverndarsjónarmið vera einhvers konar taugaveiklun fólks sem hefur lítið við að vera yfir pjattkaffinu sínu þarna í miðbæ Reykjavíkur. Ekkert er fjær sanni hér. Það voru í meirihluta Hafnfirðingar, Álftnesingar og Garðbæingar sem þarna söfnuðust saman til að verja umhverfi sitt fyrir hervirkjum gröfukallanna, og verja þau sérstöku réttindi sín að fá að búa í námunda við ósnortna náttúru þar sem Íslandssagan niðar við hvert fótmál. Lögreglumenn höguðu sér af virðingarleysi við þetta fólk og sýndu því þjösnaskap. Á því þurfa þeir að biðjast afsökunar en við hin erum níumenningunum þakklát fyrir að taka fyrir okkur vaktina. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Guðmundur Andri Thorsson Mest lesið Geðdeild Akureyrar aðeins með 10 pláss á legudeild fyrir sjúklinga með alvarlegan geðrænan vanda Gísli Hvanndal Jakobsson Skoðun Halldór 16.11.2024 Halldór Ríkið sviptir 30.400 manns grundvallarréttindum sínum Yngvi Sighvatsson Skoðun Opið bréf til næsta heilbrigðisráðherra Teitur Guðmundsson Skoðun Aðgangur bannaður Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir Skoðun Einkavæðing súrefnisins Björn Þorláksson Skoðun Íslensku menntaverðlaunin og vandi íslenska skólakerfisins Meyvant Þórólfsson Skoðun Fjölfræðingur óskar eftir starfi Rakel Linda Kristjánsdóttir Skoðun Miðflokkurinn hefur lausnir á húsnæðismarkaði Bessí Þóra Jónsdóttir Skoðun Leyfum ungmennum að sofa – hættum að sofa á verðinum Sigurður Eyjólfur Sigurjónsson Skoðun
Fái dómur Héraðsdóms Reykjaness yfir níumenningunum í Gálgahrauni að standa hafa stjórnvöld þar með sent okkur landsmönnum svolítið margræð skilaboð um það hvar óhlýðni kunni að vera réttlætanleg og hvar ekki. Á sínum tíma voru nefnilega aðrir níumenningar sýknaðir í Hæstarétti af ákæru um brot gegn valdstjórninni: að hafa óhlýðnast lögreglu og þingvörðum og ruðst inn í alþingishúsið, til þess að mótmæla og sýna í verki hug sinn í garð þings sem þeir töldu hafa brugðist hlutverki sínu. Skilaboðin eru þá þessi, standi dómurinn: Það er verra að trufla gröfur en að trufla störf alþingis. Það er verra að sýna verktökum óvirðingu en kjörnum fulltrúum. Það er, undir vissum kringumstæðum, í lagi að óhlýðnast laganna vörðum sem meina inngöngu í alþingishúsið, sem er sá staður þar sem hjarta þingræðisins slær, veikt og flöktandi á köflum. Hitt er hins vegar með öllu ólíðandi, að óhlýðnast lögreglumönnum sem gæta þess að gröfur verði ekki truflaðar við þá knýjandi iðju sína að rífa upp árþúsunda gamalt hraun.Via dolorosa Almennt var sýknudómi yfir hinum fyrri níumenningum fagnað og þeir taldir hafa haft mikilsverðar ástæður til að tjá sig með þeim hætti sem þeir gerðu, enda þingpallar opinbert svæði, öllum opið. Litið var svo á að þetta væri sigur fyrir lýðræðislegan rétt almennings til að láta reiði sína í ljós sé honum misboðið, jafnvel þótt laganna verðir vilji hindra þá tjáningu. Níumenningarnir voru ekki einir á ferð í búsáhaldabyltingunni. Þá réðist fólk á alþingishúsið til að láta í ljós andúð sína á kjörnum fulltrúum eða jafnvel sjálfu þingræðinu, lemja veggi, brjóta rúður, slá nýjan takt, óhlýðnast. Í tíð síðustu ríkisstjórnar varð síðan ganga þingmanna milli dómkirkju og alþingishúss að sannkölluðum svipugöngum þar sem sjálfsagður réttur borgaranna þótti að henda í þessa þjóðkjörnu fulltrúa eggjum og öllu lauslegu, vegna þess að hægt þótti ganga að greiða úr skuldum sem bankamenn og sjálfskipaðir athafnamenn höfðu efnt til og látið falla á landsmenn. Lögreglan horfði á án þess að aðhafast. En þegar gröfurnar þurfa að komast leiðar sinnar á Álftanesi við að leggja sinn veg og breyta ósnortinni náttúru í mislægar malbiksslaufur handa tíu þúsund manna byggð í Garðaholti sem aðeins er til í kollinum á bæjarfulltrúum í Garðabæ – þá skal ekkert tefja þá framrás; allra síst fólk á borð við píanókennara á áttræðisaldri, kórstjóra og tónskáld eða myndlistarkonu sem skynjar álfa í kringum sig. Hingað og ekki lengra, hugsar valdstjórnin þá: skítt með öryggi alþingismanna; hér skal víglínan dregin.Mikilsverð réttindiÓhlýðni er mikilsverður mannlegur eiginleiki og vissulega vandmeðfarinn. Samfélag getur ekki þrifist sé hún allsráðandi – og hvimleiður er skortur íslenskra ökumanna á stefnuljósum – en hún getur líka verið aflvaki framfara. Verkföll eru dæmi um óhlýðni sem samfélagið hefur smám saman fundið út úr hvernig skuli háttað eftir tilteknum leiðum. Flest framfaramál sem snerta réttindi okkar hafa fengist fram eftir baráttu þar sem einatt hefur þurft að sýna yfirvöldum óhlýðni. Frægustu og fegurstu dæmin frá 20. öld um borgaralega óhlýðni varða grundvallarmannréttindi sem lög höfðu verið sett til þess að meina fólki um: á Indlandi þegar Bretar stjórnuðu landinu og Gandhi hvatti landsmenn til að óhlýðnast lögum valdsherranna; í Suðurríkjum Bandaríkjanna í byrjun sjöunda áratugar þeirrar aldar þegar tekist var á um það hvort ungar stúlkur eins og Malala mættu vegna hörundslitar síns ganga í skóla og þar sem kona að nafni Rosa Parks óhlýðnaðist lögum og settist í strætisvagni þar sem fólki með brúnan hörundslit var meinað að setjast – lögum samkvæmt – og loks í Suður-Afríku þar sem fólk af evrópskum uppruna neitaði fólki sem fyrir var í landinu um hvers kyns réttindi en óstjórnin var brotin á bak aftur með seiglu, söng og óhlýðni hvar sem henni var við komið. Almennt er litið svo á í opnu samfélagi að fólk hafi rétt til þess að láta í ljós vanþóknun sína á gerðum yfirvalda, jafnvel þótt lögreglan skipi viðkomandi fólki að hætta því. Það er mikilvægt að lögreglan fari að átta sig á því að þetta á ekki bara við þegar fólk mótmælir vegna peningamála. Þeir verða að fara að kenna það í Lögregluskólanum að náttúruvernd er fullgilt sjónarmið. Yfirvöld verða að fara að taka með í reikninginn að sumu fólki getur orðið mjög heitt í hamsi vegna náttúrunnar og þeirra almennu og yfirskipuðu réttinda að henni eigi ekki að raska, verði hjá því komist. Þeirrar tilhneigingar gætir hjá yfirvöldum að þykja náttúruverndarsjónarmið léttvæg: í mörgu lögguhugskoti bærist bloggari sem telur náttúruverndarsjónarmið vera einhvers konar taugaveiklun fólks sem hefur lítið við að vera yfir pjattkaffinu sínu þarna í miðbæ Reykjavíkur. Ekkert er fjær sanni hér. Það voru í meirihluta Hafnfirðingar, Álftnesingar og Garðbæingar sem þarna söfnuðust saman til að verja umhverfi sitt fyrir hervirkjum gröfukallanna, og verja þau sérstöku réttindi sín að fá að búa í námunda við ósnortna náttúru þar sem Íslandssagan niðar við hvert fótmál. Lögreglumenn höguðu sér af virðingarleysi við þetta fólk og sýndu því þjösnaskap. Á því þurfa þeir að biðjast afsökunar en við hin erum níumenningunum þakklát fyrir að taka fyrir okkur vaktina.
Geðdeild Akureyrar aðeins með 10 pláss á legudeild fyrir sjúklinga með alvarlegan geðrænan vanda Gísli Hvanndal Jakobsson Skoðun
Geðdeild Akureyrar aðeins með 10 pláss á legudeild fyrir sjúklinga með alvarlegan geðrænan vanda Gísli Hvanndal Jakobsson Skoðun