Menning

Smásögur og örsögur um allt

Friðrika Benónýsdóttir skrifar
Lára Aðalsteinsdóttir: „Sögur munu lýsa upp haustmyrkrið, gleðja okkur í Kringlunni eða heilla í heita pottinum.“
Lára Aðalsteinsdóttir: „Sögur munu lýsa upp haustmyrkrið, gleðja okkur í Kringlunni eða heilla í heita pottinum.“ Vísir/Vilhelm
Þetta er í þriðja sinn sem við höldum Lestrarhátíð í Bókmenntaborg og í þetta sinn er áherslan á smásögum og örsögum,“ segir Lára Aðalsteinsdóttir, verkefnastjóri Reykjavíkur bókmenntaborgar. Lestrarhátíðin hefst á Blómatorginu í Kringlunni með setningu Dags B. Eggertssonar borgarstjóra í dag klukkan 11.30 og stendur út októbermánuð. „Kringlan er miðpunktur hátíðarinnar að þessu sinni og þar mun fólk rekast á örsögur á hinum ólíklegustu stöðum,“ segir Lára. „Til dæmis á stigahandriðum, í lyftum, á gluggum og speglum. Það er áframhald á því sem við byrjuðum á með ljóðin í fyrra, að færa bókmenntirnar til fólksins.“



Í tilefni hátíðarinnar kemur út nýtt smásagnasafn, Eins og Reykjavík, en í því eru 26 sögur eftir ólíka höfunda sem allar tengjast Reykjavík á einhvern hátt og valdar hafa verið af Þórarni Eldjárn. Eins og Reykjavík er gefið út af eBókum og geta lesendur nælt sér í frítt eintak til 15. október á vef eBóka. Við setningu Lestrarhátíðar mun Ari Eldjárn lesa upp úr smásagnasafninu og bregða á leik. Nestisboxið á vef Bókmenntaborgarinnar verður einnig opnað í fyrsta sinn en í því birtist ný smásaga á hverjum degi út hátíðina. Reykjavíkurdætur flytja sögur á sinn lifandi og litríka hátt og síðan gefst gestum tækifæri til að ganga um Kringluna og lesa örsögur.



„Sögur birtast í ólíkum formum og gerðum í október. Sögur munu lýsa upp haustmyrkrið, gleðja okkur í Kringlunni eða heilla í heita pottinum. Skólarnir munu iða af sögum í október og eitthvað ferðast sögur á milli þeirra. Jafnvel verður hægt að hlýða á örsögur þegar hringt er í þjónustuver Reykjavíkurborgar því skáldin Kristín Ómarsdóttir og Óskar Árni Óskarsson hafa lesið upp nokkrar af sögum sínum sem hægt verður að hlusta á meðan beðið er eftir svari þjónustufulltrúa. Allir geta síðan kíkt í Nestisboxið á vef Bókmenntaborgarinnar þar sem ein ljúffeng saga verður birt á hverjum degi októbermánaðar, nógu stutt til að hægt sé að njóta í matartímanum,“ segir Lára.



Börnin fá að venju sitt á Lestrarhátíð í ár og verður Vatnsmýrin iðandi af lífi frá 4. október þegar sýningin Páfugl úti í mýri verður opnuð í tengslum við Barnabókahátíðina Mýrina. Sýningin, sem er nýstárlegt ævintýraland sem má snerta og skoða, er sköpuð af þeim Kristínu Rögnu Gunnarsdóttur myndlistarmanni og Davíð Stefánssyni skáldi í samstarfi við Norræna húsið. Sýningin er öllum opin og aðgangur ókeypis.



Í tengslum við Lestrarhátíð verður boðið upp á fjölbreyttar ritsmiðjur bæði opnar og lokaðar þar sem áhugasamir geta spreytt sig í sagnagerð. Lára segir sérstaklega vert að benda á sköpunarsmiðju fjölskyldunnar sem verður í Norræna húsinu í tengslum við sýninguna Páfugl úti í mýri en þar mun smiðjustjórinn Davíð Stefánsson leiðbeina fjölskyldum í sagnagerð.



Lestrarhátíð lýkur svo á pólskri viku þar sem kastljósinu er beint að pólskum smásögum. Vikan hefst með leshring þar sem þrjú pólsk skáld og verk þeirra verða kynnt til leiks. Öll eiga það sameiginlegt að flétta aðra heima inn í verk sín og því kallast þau á við Furður í Reykjavík. Hinn 28. október verður dagskrá með pólsku skáldunum Piotr Pazinwski og Ziemowit Szczerek og íslensku skáldunum Kristínu Eiríksdóttur, Halldóri Armand Ásgeirssyni og Þórarni Eldjárn þar sem þau lesa upp úr sögum sínum og ræða smásagnaformið.



Öll dagskrá hátíðarinnar verður aðgengileg á vef Bókmenntaborgarinnar bokmenntaborgin.is frá og með deginum í dag. [email protected]






Fleiri fréttir

Sjá meira


×