Menning

Ljóðlympíuleikar 2014

Friðrika Benónýsdóttir skrifar
Megan Auður: "Vonandi verða mikil læti og mikið stuð.“
Megan Auður: "Vonandi verða mikil læti og mikið stuð.“ Vísir/Daníel
„Við vonumst til að þetta verði alvöruljóðaslamm með aktífum áhorfendum og vonandi verða mikil læti og mikið stuð,“ segir Megan Auður Grímsdóttir, einn skipuleggjanda Ljóðlympíuleika sem haldnir verða á Loft Hosteli í kvöld. Þar munu skáldsystur og skáldbræður Reykjavíkur keppa til sigurs og aðeins eitt þeirra standa uppi sem sigurvegari.



Borgarbókasafnið hefur á undanförnum árum staðið fyrir ljóðaslammi en Megan segir meininguna að taka þetta lengra í kvöld. „Þetta á að vera öfgakennt og við hvetjum áhorfendur til að láta hressilega í sér heyra.“



Það eru forlagið Meðgönguljóð og ungskáldahópurinn Fríyrkjan sem standa fyrir slamminu. Megan er þátttakandi í Fríyrkjunni, sem gaf út safnrit með ljóðum skálda á aldrinum 17 til 25 ára í fyrra, og hún segir hópinn hafa verið duglegan að koma fram og lesa ljóð, þá gjarnan með tónlistarívafi. Á því verður ekki breyting í kvöld því rapphópurinn Reykjavíkurdætur mun spila í dómarahléi.



Dómnefnd skipa skáldin Hallgrímur Helgason, Sigurbjörg Þrastardóttir, Bergrún Anna Hallsteinsdóttir, fyrir hönd Meðgönguljóða, og Stefán Ingvar Vigfússon, fyrir hönd Fríyrkjunnar.



Boðið verður upp á tíu atriði og er búið að velja þau. Megan segir meininguna að halda slík slömm oftar og hvetur áhugasama til að skrá sig í slömm framtíðarinnar á netfanginu [email protected]. „Það er öllum velkomið að sækja um þátttöku og væri mjög gaman ef sem flestir skráðu sig.“



Hverjir munu keppa í kvöld er algjört leyndarmál og því eiga forvitnir ekki annan kost en að vera mættir á Loft Hostel klukkan 20 í kvöld og bíða spenntir eftir að fyrsta skáldið stígi á svið.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×