Innlent

Vilja bjarga RÚV með því að hætta við lækkun útvarpsgjalds

Aðalsteinn Kjartansson skrifar
Rekstur RÚV er afar þungur en miklar skuldbindingar hvíla á félaginu, sem er að fullu í eigu ríkisins.
Rekstur RÚV er afar þungur en miklar skuldbindingar hvíla á félaginu, sem er að fullu í eigu ríkisins. Vísir / GVA
Formenn stjórnarandstöðuflokkanna á þingi vilja bregðast við slæmri fjárhagsstöðu Ríkisútvarpsins með því að fresta fyrirhugaðri lækkun á útvarpsgjaldi. Þeir leggja einnig til að frá og með næstu áramótum muni útvarpsgjaldið renna óskipt til RÚV en ekki í ríkissjóð eins og nú er.

Í greinargerð með frumvarpinu segir að ljóst sé að tekjur Ríkisútvarpsins dugi ekki til að standa undir rekstri stofnunarinnar. „Frekari niðurskurður mundi bitna á kjarnastarfsemi Ríkisútvarpsins og gera því ókleift að sinna öllum þeim hlutverkum sem því eru ætluð samkvæmt lögum,“ segja formennirnir.

Aðgerðirnar eiga þó ekki bara að bjarga slæmri fjárhagsstöðu stofnunarinnar heldur líka að auka sjálfstæði hennar. Þingmennirnir segja það mikilvægt grundvallaratriði að útvarpsgjaldið renni óskipt til RÚV út frá fjárhagslegu sjálfstæði sem sé grundvöllur að ritstjórnarlegu og menningarlegu sjálfstæði  gagnvart stjórnvöldum.

„Til þess að svo verði þarf aðaltekjustofn Ríkisútvarpsins, útvarpsgjaldið, að vera eins óháður hinu pólitíska valdi og mögulegt er. Af þessum sökum er mikilvægt að tekjustofn Ríkisútvarpsins sé skýr, fyrirsjáanlegur og samsvari innheimtu útvarpsgjaldsins,“ segir í greinargerðinni.

Þau Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, Birgitta Jónsdóttir, kapteinn Pírata, Guðmundur Steingrímsson, formaður Bjartrar framtíðar, og Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, eru flutningsmenn frumvarpsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×