Tvær konur í sama kroppi – og kisi Jón Yngvi Jóhannsson skrifar 26. október 2013 09:00 Dísusaga - Vigdís Grímsdóttir Bækur: Dísusaga - Konan með gulu töskuna Vigdís Grímsdóttir JPV-útgáfa Í upphafi Dísusögu eftir Vigdísi Grímsdóttur er birtur samningur milli tveggja persóna sögunnar: Vigdísar sjálfrar og Dísu Gríms, þeirrar sem hefur orðið lengst af í sögunni. Þessar tvær persónur deila líkama og hafa gert það frá því Vigdís var 10 ára gömul og var nauðgað á hrottalegan hátt. Þá kom hin svarta Gríms inn í líf stúlkunnar ungu og upp frá því eru þær tvær. Sambandið milli þeirra tveggja er erfitt, en líka nauðsynlegt til að þær lifi af og umberi sársaukann. Dísusaga er fyrsta bókin sem Dísa skrifar en Gríms virðist bera ábyrgð á höfundarverki Vigdísar Grímsdóttur fram að þessu. Samningurinn er nokkuð skýr og verkaskiptingin á milli þeirra líka þótt þær fylgi ekki alltaf ákvæðum hans. Annar samningur er á hinn bóginn miklu óljósari í þessari sögu eins og í mörgum nútímalegum sjálfs- og skáldævisögum. Þetta er samningurinn milli lesanda og sögumanns sem tryggir að „skáldævisagan“ sé í einhverjum skilningi sönn. Í Dísusögu er fátt öruggt og lesandinn situr uppi með spurningar eins og: Hvað er satt og hvað skáldað? Hvenær á lesandinn að taka atburði sögunnar og persónur trúanlega og hvenær ekki? Og skiptir það einhverju máli? Annað sem skilur Dísusögu frá algengu formi ævisagna er hversu lítið er þar um lýsingar á atburðum og þroska aðalpersónanna. Við fáum að vísu ýmislegt að vita um uppvöxt og fjölskyldu en þeim mun meira um tengsl persónanna tveggja, og aðstæður þeirra um það leyti sem bókin er að verða til í sextíu daga einangrun norður á Ströndum. Lesandinn verður líka margs vísari um bækur Vigdísar og flókin tengsl þeirra við lífshlaup hennar sjálfrar, klofningurinn sem lýst er í sögunni minnir auðvitað sterklega á skáldverk hennar, ekki síst Stúlkuna í skóginum sem gengur eins og rauður þráður í gegnum Dísusögu, en einnig aðrar bækur hennar, Kaldaljós og Ísbjörg eru til dæmis áberandi í samtölum þeirra Dísu og Gríms. Þriðja aðalpersóna sögunnar, elskhuginn Kisi, er líka viðtakandi hennar, sá sem bréf Dísu er skrifað til. Það getur verið freistandi á köflum að leggjast í einhvers konar spæjaraleik og reyna að komast að því hver hann er þessi dularfulli lífsnautna- og bókmenntamaður sem býr í Laugarnesinu og virðist hafa skrifað ýmislegt um íslenskar bókmenntir. En hvort sá spæjaraleikur myndi nokkurn tíma leiða að raunverulegum manni af holdi og blóði er vafamál. Kisi er eins og ýkt mynd af elskhuga, eins og hver annar högni er hann eigingjarn og sjálfselskur, en líka fágaður, býður upp á veislur í mat og drykk sem ná hámarki við bjarnarfeld og arineld. Þegar þangað er komið er ekki laust við að lesandinn spyrji sig hvort þessi mynd af hinu eilífa og klassíska karldýri hljóti ekki að eiga að tákna eitthvað annað en sjálfa sig. Skáldævisögur hafa oft og tíðum það hlutverk, beint og óbeint, að sýna okkur höfundinn að baki verkunum, varpa ljósi á höfundarverkið og skýra það út frá sjónarhóli höfundarins sjálfs. Það gerir Dísusaga ekki nema að takmörkuðu leyti, enda höfundurinn tvöfaldur í roðinu. Þess vegna er kannski best að láta þær Dísu og Gríms ekki plata sig of auðveldlega. Gera ekki of miklar væntingar um hefðbundna uppvaxtarsögu en njóta þess sem þær bjóða upp á: frásagnar sem er uppfull af tvístringi og sársauka, en líka gleði, húmor og djúpum pælingum um skáldskap og ævi höfundarins.Niðurstaða: Ævisaga mikils höfundar sem svarar mörgum spurningum en vekur enn fleiri. Gagnrýni Mest lesið Hundruðum svekktra tónleikagesta vísað frá Hvalasafninu Lífið „Er ekki að fara fram á það lifa lífinu í bómull“ Lífið Tengdadóttir forsætisráðherra í innsta koppi Loftssystkina Lífið Skellti sér á djammið Lífið Tengdó hringdi og vildi vita hvort Sunnu Dís hefði í alvöru liðið svona Lífið Fáir sáu íslenskar bíómyndir sem fengu 350 milljónir króna í styrk Lífið Hafa bæði kvatt sín fyrrverandi og eru alsæl saman Lífið Heitasti plötusnúður í heimi í Melabúðinni Lífið „Getur líka fengið Óskarsverðlaun fyrir besta leik í aukahlutverki“ Lífið Segir fjölskylduna flutta Lífið Fleiri fréttir Ástkona njósnarans skildi eftir sig sjóðheit bréf Efni sem veldur uppköstum, yfirliðum og eilífri æsku The Bikeriders: Hvenær komum við í flugeldaverksmiðjuna!? Kælt niður í byrjun og svo búmm! DIMMA var flott en einhæf Sjá meira
Bækur: Dísusaga - Konan með gulu töskuna Vigdís Grímsdóttir JPV-útgáfa Í upphafi Dísusögu eftir Vigdísi Grímsdóttur er birtur samningur milli tveggja persóna sögunnar: Vigdísar sjálfrar og Dísu Gríms, þeirrar sem hefur orðið lengst af í sögunni. Þessar tvær persónur deila líkama og hafa gert það frá því Vigdís var 10 ára gömul og var nauðgað á hrottalegan hátt. Þá kom hin svarta Gríms inn í líf stúlkunnar ungu og upp frá því eru þær tvær. Sambandið milli þeirra tveggja er erfitt, en líka nauðsynlegt til að þær lifi af og umberi sársaukann. Dísusaga er fyrsta bókin sem Dísa skrifar en Gríms virðist bera ábyrgð á höfundarverki Vigdísar Grímsdóttur fram að þessu. Samningurinn er nokkuð skýr og verkaskiptingin á milli þeirra líka þótt þær fylgi ekki alltaf ákvæðum hans. Annar samningur er á hinn bóginn miklu óljósari í þessari sögu eins og í mörgum nútímalegum sjálfs- og skáldævisögum. Þetta er samningurinn milli lesanda og sögumanns sem tryggir að „skáldævisagan“ sé í einhverjum skilningi sönn. Í Dísusögu er fátt öruggt og lesandinn situr uppi með spurningar eins og: Hvað er satt og hvað skáldað? Hvenær á lesandinn að taka atburði sögunnar og persónur trúanlega og hvenær ekki? Og skiptir það einhverju máli? Annað sem skilur Dísusögu frá algengu formi ævisagna er hversu lítið er þar um lýsingar á atburðum og þroska aðalpersónanna. Við fáum að vísu ýmislegt að vita um uppvöxt og fjölskyldu en þeim mun meira um tengsl persónanna tveggja, og aðstæður þeirra um það leyti sem bókin er að verða til í sextíu daga einangrun norður á Ströndum. Lesandinn verður líka margs vísari um bækur Vigdísar og flókin tengsl þeirra við lífshlaup hennar sjálfrar, klofningurinn sem lýst er í sögunni minnir auðvitað sterklega á skáldverk hennar, ekki síst Stúlkuna í skóginum sem gengur eins og rauður þráður í gegnum Dísusögu, en einnig aðrar bækur hennar, Kaldaljós og Ísbjörg eru til dæmis áberandi í samtölum þeirra Dísu og Gríms. Þriðja aðalpersóna sögunnar, elskhuginn Kisi, er líka viðtakandi hennar, sá sem bréf Dísu er skrifað til. Það getur verið freistandi á köflum að leggjast í einhvers konar spæjaraleik og reyna að komast að því hver hann er þessi dularfulli lífsnautna- og bókmenntamaður sem býr í Laugarnesinu og virðist hafa skrifað ýmislegt um íslenskar bókmenntir. En hvort sá spæjaraleikur myndi nokkurn tíma leiða að raunverulegum manni af holdi og blóði er vafamál. Kisi er eins og ýkt mynd af elskhuga, eins og hver annar högni er hann eigingjarn og sjálfselskur, en líka fágaður, býður upp á veislur í mat og drykk sem ná hámarki við bjarnarfeld og arineld. Þegar þangað er komið er ekki laust við að lesandinn spyrji sig hvort þessi mynd af hinu eilífa og klassíska karldýri hljóti ekki að eiga að tákna eitthvað annað en sjálfa sig. Skáldævisögur hafa oft og tíðum það hlutverk, beint og óbeint, að sýna okkur höfundinn að baki verkunum, varpa ljósi á höfundarverkið og skýra það út frá sjónarhóli höfundarins sjálfs. Það gerir Dísusaga ekki nema að takmörkuðu leyti, enda höfundurinn tvöfaldur í roðinu. Þess vegna er kannski best að láta þær Dísu og Gríms ekki plata sig of auðveldlega. Gera ekki of miklar væntingar um hefðbundna uppvaxtarsögu en njóta þess sem þær bjóða upp á: frásagnar sem er uppfull af tvístringi og sársauka, en líka gleði, húmor og djúpum pælingum um skáldskap og ævi höfundarins.Niðurstaða: Ævisaga mikils höfundar sem svarar mörgum spurningum en vekur enn fleiri.
Gagnrýni Mest lesið Hundruðum svekktra tónleikagesta vísað frá Hvalasafninu Lífið „Er ekki að fara fram á það lifa lífinu í bómull“ Lífið Tengdadóttir forsætisráðherra í innsta koppi Loftssystkina Lífið Skellti sér á djammið Lífið Tengdó hringdi og vildi vita hvort Sunnu Dís hefði í alvöru liðið svona Lífið Fáir sáu íslenskar bíómyndir sem fengu 350 milljónir króna í styrk Lífið Hafa bæði kvatt sín fyrrverandi og eru alsæl saman Lífið Heitasti plötusnúður í heimi í Melabúðinni Lífið „Getur líka fengið Óskarsverðlaun fyrir besta leik í aukahlutverki“ Lífið Segir fjölskylduna flutta Lífið Fleiri fréttir Ástkona njósnarans skildi eftir sig sjóðheit bréf Efni sem veldur uppköstum, yfirliðum og eilífri æsku The Bikeriders: Hvenær komum við í flugeldaverksmiðjuna!? Kælt niður í byrjun og svo búmm! DIMMA var flott en einhæf Sjá meira