Flækjusaga Illuga - Engin stóráföll og mjög lítið blóð Illugi Jökulsson skrifar 7. september 2013 08:00 Illugi Jökulsson Yfirþjónninn í matsal hótelsins leit út nákvæmlega eins og Bashar al-Assad Sýrlandsforseti. Og það skal tekið skýrt fram að með þeim orðum á ég ekki við að hann hafi verið líkur Bashar á einhvern hátt eða minnt á hann, nei, hann leit einfaldlega nákvæmlega eins út og Sýrlandsforsetinn þar sem hann sviptist um matsalinn og gætti þess að hver nýr hópur af ferðamönnum fengi ævinlega nóg pláss við kvöldverðarborðið, að þjónar hans væru snöggir á vettvang með rauðvínsflöskurnar og það þurfti tafarlaust að ná í meiri húmmus. Ef ég kynni nú bara að lýsa útliti fólks mundi ég hér draga upp skýra mynd af því hvernig yfirþjónninn og forseti Sýrlands höfðu báðir við fyrstu sýn á sér yfirbragð rólynds og fremur sviplítils hunds, og þó var alltaf eitthvað flökt í augunum, taugaóstyrkur eða jafnvel tortryggni, eins og þeir væru alltaf að gjóa augunum út undan sér, en væru þó fyrst og fremst meinlausir og jafnvel vinalegir að sjá, en neðri partur andlitsins einhvern veginn eins og veiklundaðri en sá efri, eða kannski örlítið grimmúðlegri, eins og kjaftur á mink á hausnum á hundi, og sú tilraun til yfirskeggs sem af einhverri skyldurækni við þjóðlegar hefðir skrimti á efri vörinni var í stuttu máli sagt ekki að gera sig.Bashar Assad og kona hans, AsmaNordicPhotos/AFPÁnægður með tvífarann Á þessu hóteli í þessari borg og í þessu landi, þar var andlitið á yfirþjóninum alveg sérstaklega merkilegt og áberandi, því þetta var reyndar í Damaskus, höfuðborg Sýrlands, heimabæ Bashars. Hverjar eru líkurnar á því að eiga sér tvífara, og hverjar eru þá líkurnar á því að tvífarinn sé akkúrat búsettur í sömu borg og maður sjálfur? Trúlega harla litlar en þarna blasti nú tvífari forsetans samt við, að gefa undirmönnum sínum skipanir, og stjana við gesti. Af því þetta var á útmánuðum 2010, tæpu ári áður en uppreisnin í Sýrlandi braust út, og Bashar al-Assad hafði enn furðu gott orð á sér, að minnsta kosti á Vesturlöndum og við ferðamennirnir vissum ekki betur en hann væri líka vinsæll heima fyrir, þá vakti þessi tvífari hans bara kátínu okkar en engan ugg. Og yfirþjónninn vissi líka sjálfur hvernig í öllu lá og reigði sig pínulítið í hvert sinn sem nýir gestir komu í matsalinn og ráku undantekningarlaust upp stór augu: Nei, sjáiði, þessi er alveg eins og Assad forseti. Því það fór ekki milli mála að hann var hæstánægður með athyglina. Ég var þarna í hópi sem móðir mín stýrði. Hún hafði ferðast árum saman um öll Miðausturlönd til að kynna Íslendingum þær framandi slóðir, og ferðir til Sýrlands höfðu verið einna vinsælastar. Og mér hafði landið komið þægilega á óvart, verð ég að segja. Það hafði verið lokað Vesturlöndum að mestu í áratugi, maður heyrði fátt af því sem þar gerðist, nema hávaðann í einræðisherranum gamla Assad, og sá fáar eða engar myndir af mannlífinu, nema helst vandlega skipulagðar kröfugöngur gegn Bandaríkjunum, og eins og alltaf við slíkar aðstæður fer maður að ímynda sér að hið lokaða land hljóti að vera grátt á litinn og íbúarnir daufir í dálkinn. En síðan gamli Assad dó árið 2000 og Bashar sonur hans tók við, þá hafði landið opnast heilmikið. Maður fór að sjá myndir og fólkið virtist upplitsdjarft, maður heyrði músík og hún var hress og fjölbreytileg. Og nú var ég þarna kominn og Damaskus var björt og litrík borg og fólkið glaðlegt og vinalegt. Og það voru myndir af Bashar og hans fögru ungu frú upp um alla veggi. Einmitt þess vegna gat ekki farið hjá því að hver einasti túristi sem rakst inn á matsal hótelsins teldi sig þekkja þar forsetann að snúa í kringum sig þjónunum við kvöldverðarhlaðborðið. Sagan um Bashar er einstaklega … ja, ég ætlaði að segja sorgleg, en það hljómar þá kannski eins og hann eigi við þá sorg að stríða, en ekki þeir sem hafa orðið fyrir barðinu á honum. Segjum í staðinn að hún sé einstaklega nöturleg. Því hún dregur úr manni kjark. Hún segir manni að það sé alveg sama hversu vel við gerum okkur grein fyrir því að valdið spilli, þá haldi það samt áfram að spilla. Því Bashar hefur ábyggilega heyrt þennan frasa líka, margoft. Einu sinni hét hún Emma Hann fæddist 1965, faðir hans gamli Assad rændi völdum í Sýrlandi 1970 og var þar síðan grimmur einræðisherra í lokuðu landi fram í andlátið. Sumir töldu honum til tekna að hafa bælt niður í landi sínu það trúarofstæki sem víða var farið að örla á í heimshlutanum, og stöðu kvenna mun hann hafa bætt hvað sem öðru líður, en þá er það jákvæða upptalið. Hann kom á fót persónudýrkun kringum sjálfan sig og löngu áður en hann dó var ljóst að hann ætlaði að koma á ættarveldi eins og aftur í forneskju. Arftakinn átti að verða elsti sonurinn Bassel en sá var glanni undir stýri og dó í bílslysi 1992. Þá ákvað gamli Assad að gera Bashar að forseta eftir sinn dag, en hann hafði fram að því ekki sýnt neinn áhuga á pólitík eða framapoti. Hann hafði lokið læknanámi og fór svo að læra augnlækningar í London af því þær „væru svo mikil nákvæmnisverk en hins vegar eiginlega aldrei nein stóráföll og mjög lítið blóð“. Þannig komst hann sjálfur að orði í blaðaviðtali síðar meir. Þrátt fyrir að hann virtist í fyrstu kunna illa við sviðsljósið sem beindist að honum þegar hann varð krónprins gamla Assads, þá hlýddi hann föður sínum og fór að læra til forseta. Þó gafst honum tími til að stíga í vænginn við unga stúlku ættaða frá Sýrlandi sem hann hafði kynnst í London, hún var þá kölluð Emma Akhras, faðir hennar fínn hjartalæknir í Harley Street, fjölskyldan bjó við vellystingar í úthverfinu Acton. Emma lærði tölvunarfræði í háskóla og tók gráðu í frönsku, svo hóf hún störf í vogunardeild Deutsche Bank. En þau Bashar gengu í hjónaband laust eftir að hann varð forseti um aldamótin og nýir tímar virtust runnir upp í Sýrlandi. Merki voru um nútímavæðingu og að slakað yrði á beittustu klóm einræðisins. Og Bashar hafði brátt lært hlutverk forseta ljómandi vel, það var bara viðkunnanlegt hvað hann hafði sýnst tregur til, hann var svo allt öðruvísi en gamli fauskurinn faðir hans, Sýrland var allt í einu orðið í húsum hæft á alþjóðavettvangi. Og Asma kona hans (hún Emma okkar!) heillaði fólk hvarvetna upp úr skónum – ung og sæt og með nýjustu tísku á hreinu en líka vel menntuð og áhugasöm um framfaramál, sífellt á þönum að reyna að bæta hag barna og hinna minna megandi í Sýrlandi.Fórnarlömb efnavopnaárásarinnar í síðasta mánuði.NordicPhotos/AFP„Rósin í eyðimörkinni“ Kannski var þessi mynd einhvern tíma sönn, eða hefði að minnsta kosti getað orðið sönn. En valdið spillir, jú, það sannaðist nú eina ferðina enn. Ég sá ekki betur þessar tvær vikur í Sýrlandi 2010 en þetta væri meira og minna frjálst land og fólkið væri kátt, en lýðræðisumbæturnar voru líklega allan tímann meiri í orði en á borði. Einmitt þá, eins og síðar kom í ljós, var Bashar búinn að ráða til sín fokdýrt amerískt PR-fyrirtæki til að bæta ímynd sína með huggulegu viðtali við konuna hans í tímaritinu Vogue – „Rósin í eyðimörkinni“ hét viðtalið hvorki meira né minna, og tímaritið skammast sín núna svo mjög fyrir þetta viðtal að það er hvergi að finna á heimasíðu þess. Það var bara partur af blekkingu Bashars. Og þegar tiltölulega hógværar kröfur um afnám neyðarlaga voru settar fram í Sýrlandi, þá brást augnlæknirinn við með þeirri fádæma hörku sem við höfum nú orðið vitni að. Og hin fagra Asma hefur reynst vera algjörlega kaldrifjuð tildurdrós, hún er í felum í neðanjarðarbyrgi í Damaskus en reynir að kaupa sér fleiri demanta og fín föt og kristalsljósakrónur gegnum milliliði á Vesturlöndum. Hirðir ekkert um það þótt eiginmaður hennar láti nú drepa með eiturgasi þau börn sem hún þóttist ætla að bjarga. En ég hugsa stundum um það hvort yfirþjónninn á hótelinu sé enn jafn duglegur að trana á sér bashörsku andlitinu framan í fólk. Ef það er þá eitthvað hótel lengur. Flækjusaga Menning Tengdar fréttir Geta fjöldamorðingjar verið hetjur? Illugi Jökulsson ætlaði að skrifa hetjusögu um gamlan fornaldarkóng en uppgötvaði svo að kannski var hann helstil svipaður Adolf Hitler. 1. september 2013 08:00 Mest lesið Bjarki og Rósa orðin hjón Lífið Fer ekki út úr húsi eftir greininguna Lífið Skotheldar hugmyndir að góðri hlustun Lífið Sigríður Margrét orðin amma Lífið Hjónabönd 50+: „Ekki gott ef gremjubankinn stækkar og stækkar“ Áskorun Hversdagslegir hlutir urðu óyfirstíganlegir Lífið Tengdó hringdi og vildi vita hvort Sunnu Dís hefði í alvöru liðið svona Lífið „Ég þori alveg að fullyrða að ég er skítsæmileg móðir“ Lífið Fáir sáu íslenskar bíómyndir sem fengu 350 milljónir króna í styrk Lífið Bannað að hlæja: Stressið allsráðandi í upphafi kvöldsins Lífið Fleiri fréttir Einar og Sigga á Grund gerð að heiðurslistamönnum Skaðlegt geðheilsunni að reyna að geðjast öðrum Leikfélag Hafnarfjarðar lagt niður Víkingur Heiðar tilnefndur til Grammy-verðlauna Frambjóðendur, sjónvarpsstjörnur og gamlir félagar fögnuðu með Geir Setja upp árekstur og hefja saman rekstur „Þetta eru mjög vondir samningar við Storytel“ Varpa ljósi á mikilvægi og gæði íslenskrar hönnunar „Við þurfum öll að halda í barnið innra með okkur“ Menningarritstjóri ráðinn framkvæmdastjóri Fullt út úr dyrum þegar Eiríkur Bergmann kynnti ferðafélagann Tínu Hvað gerist þegar Laddi hittir Eirík Fjalar, Skrám og Elsu Lund? „Alltaf að fylgja hjartanu í stað þess að velja einföldu leiðina“ Usli og glæsileiki á Kjarvalsstöðum Valgeir sár og Bubbi og Bó hneykslaðir Stappfullt á eina stærstu menningarhátíð ársins Sjóðheitt menningarrými á Baldursgötu Asifa Majid hlýtur Vigdísarverðlaunin 2024 Bjarni Ben fagnaði 140 ára afmæli Listasafns Íslands Han Kang hlýtur bókmenntaverðlaun Nóbels Bein útsending: Hver hlýtur bókmenntaverðlaun Nóbels? „Þetta er móðgun gegn Íslandi“ Henti listaverkinu í ruslið Kúltúrkettir landsins létu sig ekki vanta í Portið „Hrátt háþróað krass, langt leitt krot“ Bjóða landsmönnum nauðbeygð til messu Allt í banönum á Brút Bríet lét sig ekki vanta á sýningaropnun Ynju Blævar Út um allar koppagrundir Alþingis: „Froðan flæðir endalaust, það er bara froða froða“ Sjá meira
Yfirþjónninn í matsal hótelsins leit út nákvæmlega eins og Bashar al-Assad Sýrlandsforseti. Og það skal tekið skýrt fram að með þeim orðum á ég ekki við að hann hafi verið líkur Bashar á einhvern hátt eða minnt á hann, nei, hann leit einfaldlega nákvæmlega eins út og Sýrlandsforsetinn þar sem hann sviptist um matsalinn og gætti þess að hver nýr hópur af ferðamönnum fengi ævinlega nóg pláss við kvöldverðarborðið, að þjónar hans væru snöggir á vettvang með rauðvínsflöskurnar og það þurfti tafarlaust að ná í meiri húmmus. Ef ég kynni nú bara að lýsa útliti fólks mundi ég hér draga upp skýra mynd af því hvernig yfirþjónninn og forseti Sýrlands höfðu báðir við fyrstu sýn á sér yfirbragð rólynds og fremur sviplítils hunds, og þó var alltaf eitthvað flökt í augunum, taugaóstyrkur eða jafnvel tortryggni, eins og þeir væru alltaf að gjóa augunum út undan sér, en væru þó fyrst og fremst meinlausir og jafnvel vinalegir að sjá, en neðri partur andlitsins einhvern veginn eins og veiklundaðri en sá efri, eða kannski örlítið grimmúðlegri, eins og kjaftur á mink á hausnum á hundi, og sú tilraun til yfirskeggs sem af einhverri skyldurækni við þjóðlegar hefðir skrimti á efri vörinni var í stuttu máli sagt ekki að gera sig.Bashar Assad og kona hans, AsmaNordicPhotos/AFPÁnægður með tvífarann Á þessu hóteli í þessari borg og í þessu landi, þar var andlitið á yfirþjóninum alveg sérstaklega merkilegt og áberandi, því þetta var reyndar í Damaskus, höfuðborg Sýrlands, heimabæ Bashars. Hverjar eru líkurnar á því að eiga sér tvífara, og hverjar eru þá líkurnar á því að tvífarinn sé akkúrat búsettur í sömu borg og maður sjálfur? Trúlega harla litlar en þarna blasti nú tvífari forsetans samt við, að gefa undirmönnum sínum skipanir, og stjana við gesti. Af því þetta var á útmánuðum 2010, tæpu ári áður en uppreisnin í Sýrlandi braust út, og Bashar al-Assad hafði enn furðu gott orð á sér, að minnsta kosti á Vesturlöndum og við ferðamennirnir vissum ekki betur en hann væri líka vinsæll heima fyrir, þá vakti þessi tvífari hans bara kátínu okkar en engan ugg. Og yfirþjónninn vissi líka sjálfur hvernig í öllu lá og reigði sig pínulítið í hvert sinn sem nýir gestir komu í matsalinn og ráku undantekningarlaust upp stór augu: Nei, sjáiði, þessi er alveg eins og Assad forseti. Því það fór ekki milli mála að hann var hæstánægður með athyglina. Ég var þarna í hópi sem móðir mín stýrði. Hún hafði ferðast árum saman um öll Miðausturlönd til að kynna Íslendingum þær framandi slóðir, og ferðir til Sýrlands höfðu verið einna vinsælastar. Og mér hafði landið komið þægilega á óvart, verð ég að segja. Það hafði verið lokað Vesturlöndum að mestu í áratugi, maður heyrði fátt af því sem þar gerðist, nema hávaðann í einræðisherranum gamla Assad, og sá fáar eða engar myndir af mannlífinu, nema helst vandlega skipulagðar kröfugöngur gegn Bandaríkjunum, og eins og alltaf við slíkar aðstæður fer maður að ímynda sér að hið lokaða land hljóti að vera grátt á litinn og íbúarnir daufir í dálkinn. En síðan gamli Assad dó árið 2000 og Bashar sonur hans tók við, þá hafði landið opnast heilmikið. Maður fór að sjá myndir og fólkið virtist upplitsdjarft, maður heyrði músík og hún var hress og fjölbreytileg. Og nú var ég þarna kominn og Damaskus var björt og litrík borg og fólkið glaðlegt og vinalegt. Og það voru myndir af Bashar og hans fögru ungu frú upp um alla veggi. Einmitt þess vegna gat ekki farið hjá því að hver einasti túristi sem rakst inn á matsal hótelsins teldi sig þekkja þar forsetann að snúa í kringum sig þjónunum við kvöldverðarhlaðborðið. Sagan um Bashar er einstaklega … ja, ég ætlaði að segja sorgleg, en það hljómar þá kannski eins og hann eigi við þá sorg að stríða, en ekki þeir sem hafa orðið fyrir barðinu á honum. Segjum í staðinn að hún sé einstaklega nöturleg. Því hún dregur úr manni kjark. Hún segir manni að það sé alveg sama hversu vel við gerum okkur grein fyrir því að valdið spilli, þá haldi það samt áfram að spilla. Því Bashar hefur ábyggilega heyrt þennan frasa líka, margoft. Einu sinni hét hún Emma Hann fæddist 1965, faðir hans gamli Assad rændi völdum í Sýrlandi 1970 og var þar síðan grimmur einræðisherra í lokuðu landi fram í andlátið. Sumir töldu honum til tekna að hafa bælt niður í landi sínu það trúarofstæki sem víða var farið að örla á í heimshlutanum, og stöðu kvenna mun hann hafa bætt hvað sem öðru líður, en þá er það jákvæða upptalið. Hann kom á fót persónudýrkun kringum sjálfan sig og löngu áður en hann dó var ljóst að hann ætlaði að koma á ættarveldi eins og aftur í forneskju. Arftakinn átti að verða elsti sonurinn Bassel en sá var glanni undir stýri og dó í bílslysi 1992. Þá ákvað gamli Assad að gera Bashar að forseta eftir sinn dag, en hann hafði fram að því ekki sýnt neinn áhuga á pólitík eða framapoti. Hann hafði lokið læknanámi og fór svo að læra augnlækningar í London af því þær „væru svo mikil nákvæmnisverk en hins vegar eiginlega aldrei nein stóráföll og mjög lítið blóð“. Þannig komst hann sjálfur að orði í blaðaviðtali síðar meir. Þrátt fyrir að hann virtist í fyrstu kunna illa við sviðsljósið sem beindist að honum þegar hann varð krónprins gamla Assads, þá hlýddi hann föður sínum og fór að læra til forseta. Þó gafst honum tími til að stíga í vænginn við unga stúlku ættaða frá Sýrlandi sem hann hafði kynnst í London, hún var þá kölluð Emma Akhras, faðir hennar fínn hjartalæknir í Harley Street, fjölskyldan bjó við vellystingar í úthverfinu Acton. Emma lærði tölvunarfræði í háskóla og tók gráðu í frönsku, svo hóf hún störf í vogunardeild Deutsche Bank. En þau Bashar gengu í hjónaband laust eftir að hann varð forseti um aldamótin og nýir tímar virtust runnir upp í Sýrlandi. Merki voru um nútímavæðingu og að slakað yrði á beittustu klóm einræðisins. Og Bashar hafði brátt lært hlutverk forseta ljómandi vel, það var bara viðkunnanlegt hvað hann hafði sýnst tregur til, hann var svo allt öðruvísi en gamli fauskurinn faðir hans, Sýrland var allt í einu orðið í húsum hæft á alþjóðavettvangi. Og Asma kona hans (hún Emma okkar!) heillaði fólk hvarvetna upp úr skónum – ung og sæt og með nýjustu tísku á hreinu en líka vel menntuð og áhugasöm um framfaramál, sífellt á þönum að reyna að bæta hag barna og hinna minna megandi í Sýrlandi.Fórnarlömb efnavopnaárásarinnar í síðasta mánuði.NordicPhotos/AFP„Rósin í eyðimörkinni“ Kannski var þessi mynd einhvern tíma sönn, eða hefði að minnsta kosti getað orðið sönn. En valdið spillir, jú, það sannaðist nú eina ferðina enn. Ég sá ekki betur þessar tvær vikur í Sýrlandi 2010 en þetta væri meira og minna frjálst land og fólkið væri kátt, en lýðræðisumbæturnar voru líklega allan tímann meiri í orði en á borði. Einmitt þá, eins og síðar kom í ljós, var Bashar búinn að ráða til sín fokdýrt amerískt PR-fyrirtæki til að bæta ímynd sína með huggulegu viðtali við konuna hans í tímaritinu Vogue – „Rósin í eyðimörkinni“ hét viðtalið hvorki meira né minna, og tímaritið skammast sín núna svo mjög fyrir þetta viðtal að það er hvergi að finna á heimasíðu þess. Það var bara partur af blekkingu Bashars. Og þegar tiltölulega hógværar kröfur um afnám neyðarlaga voru settar fram í Sýrlandi, þá brást augnlæknirinn við með þeirri fádæma hörku sem við höfum nú orðið vitni að. Og hin fagra Asma hefur reynst vera algjörlega kaldrifjuð tildurdrós, hún er í felum í neðanjarðarbyrgi í Damaskus en reynir að kaupa sér fleiri demanta og fín föt og kristalsljósakrónur gegnum milliliði á Vesturlöndum. Hirðir ekkert um það þótt eiginmaður hennar láti nú drepa með eiturgasi þau börn sem hún þóttist ætla að bjarga. En ég hugsa stundum um það hvort yfirþjónninn á hótelinu sé enn jafn duglegur að trana á sér bashörsku andlitinu framan í fólk. Ef það er þá eitthvað hótel lengur.
Flækjusaga Menning Tengdar fréttir Geta fjöldamorðingjar verið hetjur? Illugi Jökulsson ætlaði að skrifa hetjusögu um gamlan fornaldarkóng en uppgötvaði svo að kannski var hann helstil svipaður Adolf Hitler. 1. september 2013 08:00 Mest lesið Bjarki og Rósa orðin hjón Lífið Fer ekki út úr húsi eftir greininguna Lífið Skotheldar hugmyndir að góðri hlustun Lífið Sigríður Margrét orðin amma Lífið Hjónabönd 50+: „Ekki gott ef gremjubankinn stækkar og stækkar“ Áskorun Hversdagslegir hlutir urðu óyfirstíganlegir Lífið Tengdó hringdi og vildi vita hvort Sunnu Dís hefði í alvöru liðið svona Lífið „Ég þori alveg að fullyrða að ég er skítsæmileg móðir“ Lífið Fáir sáu íslenskar bíómyndir sem fengu 350 milljónir króna í styrk Lífið Bannað að hlæja: Stressið allsráðandi í upphafi kvöldsins Lífið Fleiri fréttir Einar og Sigga á Grund gerð að heiðurslistamönnum Skaðlegt geðheilsunni að reyna að geðjast öðrum Leikfélag Hafnarfjarðar lagt niður Víkingur Heiðar tilnefndur til Grammy-verðlauna Frambjóðendur, sjónvarpsstjörnur og gamlir félagar fögnuðu með Geir Setja upp árekstur og hefja saman rekstur „Þetta eru mjög vondir samningar við Storytel“ Varpa ljósi á mikilvægi og gæði íslenskrar hönnunar „Við þurfum öll að halda í barnið innra með okkur“ Menningarritstjóri ráðinn framkvæmdastjóri Fullt út úr dyrum þegar Eiríkur Bergmann kynnti ferðafélagann Tínu Hvað gerist þegar Laddi hittir Eirík Fjalar, Skrám og Elsu Lund? „Alltaf að fylgja hjartanu í stað þess að velja einföldu leiðina“ Usli og glæsileiki á Kjarvalsstöðum Valgeir sár og Bubbi og Bó hneykslaðir Stappfullt á eina stærstu menningarhátíð ársins Sjóðheitt menningarrými á Baldursgötu Asifa Majid hlýtur Vigdísarverðlaunin 2024 Bjarni Ben fagnaði 140 ára afmæli Listasafns Íslands Han Kang hlýtur bókmenntaverðlaun Nóbels Bein útsending: Hver hlýtur bókmenntaverðlaun Nóbels? „Þetta er móðgun gegn Íslandi“ Henti listaverkinu í ruslið Kúltúrkettir landsins létu sig ekki vanta í Portið „Hrátt háþróað krass, langt leitt krot“ Bjóða landsmönnum nauðbeygð til messu Allt í banönum á Brút Bríet lét sig ekki vanta á sýningaropnun Ynju Blævar Út um allar koppagrundir Alþingis: „Froðan flæðir endalaust, það er bara froða froða“ Sjá meira
Geta fjöldamorðingjar verið hetjur? Illugi Jökulsson ætlaði að skrifa hetjusögu um gamlan fornaldarkóng en uppgötvaði svo að kannski var hann helstil svipaður Adolf Hitler. 1. september 2013 08:00