Lífið

Styrkir systur sína í forræðisdeilu

Stefán Svan Aðalheiðarson heldur uppboðsmarkað í tengslum við Hönnunarmars. Mynd/Anton
Stefán Svan Aðalheiðarson heldur uppboðsmarkað í tengslum við Hönnunarmars. Mynd/Anton
„Ég er vanur að halda alls konar markaði og í samvinnu við vini og annað gott fólk varð þessi hugmynd að veruleika,“ segir Stefán Svan Aðalheiðarson um fatauppboð og -markað sem hann skipuleggur í tengslum við Hönnunarmars og Reykjavík Fashion Festival. Viðburðurinn fer fram í Kexi hosteli þann 16. mars næstkomandi og mun allur ágóði renna óskiptur til Hjördísar Svan, en hún hefur staðið í harðri forræðisdeilu við danskan barnsföður sinn í þrjú ár. Aðeins verða hönnunarflíkur boðnar upp á viðburðinum en einnig verður hægt að kaupa hönnun frá Ellu, Aftur, Munda, Hildi Yeoman og fleirum á fatamarkaðnum. Jón Gnarr borgarstjóri stýrir uppboðinu auk þess sem Edda Guðmundsdóttir stílisti og Roxanne Lowit, ljósmyndari og heiðursgestur RFF, verða með óvænta uppákomu á staðnum. „Það hafa allir tekið mjög vel í hugmyndina og fólk hefur verið ofboðslega jákvætt, enginn hefur neitað mér enn þá. Það verða margar mjög skemmtilegar flíkur í boði þennan dag og hver einasta króna mun renna til systur minnar. Gangi þetta vel væri gaman að gera þetta að árlegum viðburði og þannig styrkja fleiri góð málefni,“ segir hann að lokum. Hafi fólk áhuga á að gefa flík í söfnunina getur það haft samband við Stefán í gegnum netfangið [email protected].





Fleiri fréttir

Sjá meira


×