Harmageddon

Sannleikurinn: Engeyjarættin stórgræðir á að smita börn af einhverfu

Andri Þór Sturluson skrifar
Kristrún er vinsæll bloggari og hefur sýnt fram á að fjármálaráðherra gerði son hennar einhverfan.
Kristrún er vinsæll bloggari og hefur sýnt fram á að fjármálaráðherra gerði son hennar einhverfan.
Atvinnulaus móðir og bloggari, Kristrún Sævarsdóttir, afhjúpaði á dögunum umfangsmikið samsæri Bjarna Benediktssonar og Engeyjarættarinnar um að valda einhverfu hjá ungum börnum í hagnaðarskyni.

Segir hún augljóst, og sýnir blaðamanni photoshoppaða mynd sem hún föndraði sjálf máli sínu til stuðnings, að ættin hafi með spillingu og gróðasjónamið að leiðarljósi, gert sjö ára gamlan son sinn einhverfan. En frændi Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra rekur sambýli fyrir einhverfa sem augljóslega hagnast á því að fleiri börn smitist af einhverfu.

„Sama dag og okkur var tjáð að sonur okkar væri orðinn einhverfur var ég að horfa á sjónvarpsfréttir þegar fjármálaráðherra birtist á skjánum að tala um fjárveitingar til heilbrigðiskerfisins og þá bara rann þetta upp fyrir mér. Hann er af Engeyjarætt. Sonur minn er einhverfur. Þetta er skrifað eins og getur ekki verið tilviljun. Þetta er augljóst og það sér það hver maður sem er ekki blindur fyrir spillingunni. Hann olli einhverfu í syni mínum.“

Kristrún segist hafa orðið endanlega sannfærð þegar ónefndur Facebook vinur hennar tjáði henni í trúnaði með kommenti við Facebook status hennar nokkru síðar að frændi fjármálaráðherra, einnig af ætt Engeyinga, á og rekur sambýli fyrir einhverfa í hverfinu sem hún býr.

„Þá varð ég bara öskureið. Og hugsaði með mér, „Bölvaður melurinn. Bjarni Ben skal ekki komast upp með þetta. Nú afhjúpa ég samsærið.“ Sem hún gerði og ratað hefur í DV en blaðið mun birta fjórar fréttir um málið á vef sínum á morgun sem segja efnislega nákvæmlega það sama og eru virkir í athugasemdum hvattir til að mæta í kommentakerfið og segja sína skoðun.



Sannleikurinn rekur öfluga og óvæga fréttastofu þar sem engum er hlíft og sannleikurinn skiptir ekki höfuðmáli. Sannleikurinn er háður öllum stjórnmálaflokkum og hagsmunaaðilum um fréttaefni sitt. Fréttastofa Sannleikans hefur Facebook-síðu  sem Engeyjarættin var svo góð að fjármagna.



×