Innlent

Landsnet sækir um leyfi fyrir 2,2 milljarða raflínum

[email protected] skrifar
Helguvík Reiknað er með að framkvæmdir hefjist í sumar, fáist leyfi fyrir þeim, og standi yfir næstu tvö ár. Fyrsta áfanga álvers í Helguvík fylgja framkvæmdir á línum upp á 9,3 milljarða króna.
Helguvík Reiknað er með að framkvæmdir hefjist í sumar, fáist leyfi fyrir þeim, og standi yfir næstu tvö ár. Fyrsta áfanga álvers í Helguvík fylgja framkvæmdir á línum upp á 9,3 milljarða króna.

Landsnet sendir umsókn um framkvæmdaleyfi fyrir Suðurnesjalínu 2 til Orkustofnunar í vikunni. Samþykkt sveitarfélagsins Voga greiddi leiðina fyrir framkvæmdina sem hljóðar upp á 2,2 milljarða króna.



Fyrirtækið fundaði með sveitarfélögum á svæðinu á mánudaginn og kynnti framkvæmdirnar. Guðmundur Ingi Ásmundsson, aðstoðarforstjóri Landsnets, segir að þar hafi verið á ferð hefðbundið samstarf við sveitarfélögin um útfærslu framkvæmdanna. Verið er að fara yfir alla þætti málsins og umsókn verður send til Orkustofnunar fyrir helgi.



„Það sem við erum að gera núna snýr að Suðurnesjalínu II, úr Hafnarfirði að Fitjum í Reykjanesbæ. Það er til að bæta öryggið á Reykjanesi. Það eru ansi stórar virkjanir á svæðinu. Við erum að vinna að því að framkvæmdir geti hafist í sumar. Bygging þeirrar línu verður í gangi næstu tvö árin.“



Spennan á núverandi línu er 132 kílóvolt, en nýja línan verður 220 kílóvolta. Hún á að tryggja afhendingaröryggi og flutningsgetu á svæðinu. Verði farið í framkvæmdir við álver í Helguvík verður önnur 220 kílóvolta lína lögð og sú gamla, sem ber 132 kílóvolt, lögð af.



„Ef það verður af samkomulagi um Helguvíkurverkefnið þurfum við að setja fleiri framkvæmdir í gang,“ segir Guðmundur Ingi.



„Þá þurfum við að fara í fyrsta áfanga Suðvesturlínu. Í meginatriðum þurfum við að tengja álverið í Helguvík við flutningskerfið, að leggja þessa strengi til Helguvíkur. Síðan þurfum við væntanlega að tengja virkjanirnar sem tilheyra fyrsta áfanganum, svo sem stækkun Reykjanesvirkjunar, en það þarf að tvöfalda tenginguna við hana. Síðan veit ég ekki hvaða virkjun verður til viðbótar. Við þurfum að fylgjast með hvaða valkostur verður í fyrsta áfanganum og gera ráðstafanir.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×