Tími Jóhönnu Ólafur Stephensen skrifar 29. september 2012 06:00 Með boðuðu brotthvarfi Jóhönnu Sigurðardóttur úr stjórnmálum næsta vor lýkur merkilegum pólitískum ferli. Jóhanna hefur setið á þingi í 34 ár og á meira en fjörutíu ár að baki í stjórnmálum og starfi stéttarfélaga. Stjórnmálaferill Jóhönnu hefur einkennzt af baráttu fyrir jafnrétti og hagsmunum lítilmagnans. Hún hefur beitt sér fyrir ýmsum umbótum í velferðar- og félagsmálum þótt hún hafi reyndar ekki alltaf sézt fyrir í þeim efnum og stundum neitað að horfast í augu við staðreyndir um stöðu ríkisfjármálanna þegar baráttumál hennar hafa verið annars vegar. Jóhanna sóttist eftir formennsku í Alþýðuflokknum en beið þar lægri hlut. Fleyg urðu ummæli hennar eftir að hún tapaði formannskjöri fyrir Jóni Baldvin Hannibalssyni árið 1994: „Minn tími mun koma!". Tími Jóhönnu kom 15 árum síðar, þegar atvik höguðu því svo til eftir efnahagshrunið og fall ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokksins og Samfylkingarinnar að hún var sú sem leitað var til að stýra nýrri ríkisstjórn. Fáar ríkisstjórnir hafa staðið frammi fyrir eins erfiðu verkefni. Það markaði tímamót þegar Jóhanna settist í stól forsætisráðherra. Hún er fyrsta íslenzka konan til að gegna því embætti og sömuleiðis fyrsti forsætisráðherra heims sem fer ekki í felur með samkynhneigð sína. Hvort tveggja voru mikilvægir, táknrænir sigrar í baráttu fyrir jafnrétti. Þótt Jóhanna hafi á þeirri stundu sem hún varð forsætisráðherra verið sú sem sameinaði Samfylkinguna og naut trausts flokksmanna, hefur staða hennar innan flokksins versnað á kjörtímabilinu. Það helgast ekki sízt af því hvað hún hefur hallað sér eindregið til vinstri til að varðveita samstarfið við Vinstri græna. Fyrir vikið hefur Samfylkingin vanrækt miðjuna og stór hluti flokksins hefði ekki orðið sáttur við að hún hefði setið áfram sem formaður. Að þessu leyti má segja að Jóhanna hafi þekkt sinn vitjunartíma í pólitíkinni, sem er meira en segja má um marga aðra stjórnmálamenn. Ríkisstjórnin hefur um margt náð mikilsverðum árangri við endurreisn efnahagslífsins. Hún hefur til að mynda farið nær því að ná jöfnuði í ríkisfjármálunum en margir hefðu búizt við af fyrstu hreinræktuðu vinstri stjórninni, þótt skattahækkanir hafi átt of stóran hlut í þeim jöfnuði. Um leið hefur tekizt að standa vörð um grunnþætti í velferðarkerfinu. Mál hafa sömuleiðis þróazt í rétta átt hvað varðar endurreisn fjármálakerfisins og úrlausn skuldavanda fyrirtækja og heimila. Hins vegar hefur ríkisstjórninni mistekizt að efla fjárfestingu eins og hún áformaði og að búa atvinnulífinu samkeppnishæf rekstrarskilyrði. Fyrsta hreina vinstristjórnin virðist hafa litið svo á að hún hefði aðeins þessi fjögur ár, sem senn eru á enda, til að hrinda í framkvæmd alls konar gömlum draumum vinstrimanna. Fyrir vikið hafa ýmis mál verið keyrð áfram í miklum ágreiningi við stjórnarandstöðuna og stóra hópa í samfélaginu, í stað þess að leita þeirrar sáttar sem æskilegast hefði verið í kjölfar hrunsins. Þetta á til dæmis við um málefni sjávarútvegsins, virkjana- og verndunarmál og vinnuna við breytingar á stjórnarskránni. Í öllum þessum málum hefði mátt finna sáttaflöt, en á því hefur ríkisstjórnin ekki áhuga. Kannski þarf það ekki að koma á óvart. Jóhanna Sigurðardóttir hefur alla tíð lagt meiri áherzlu á baráttuna en sáttina. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Ólafur Stephensen Mest lesið Varist eftirlíkingar Franklín Ernir Kristjánsson Skoðun Halldór 16.11.2024 Halldór Nærsýni afinn og baunabyssan Ragnar Þór Pétursson Skoðun Íslenskan okkar allra Bryndís Haraldsdóttir Skoðun Ríkið sviptir 30.400 manns grundvallarréttindum sínum Yngvi Sighvatsson Skoðun Aðgangur bannaður Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir Skoðun Opið bréf til næsta heilbrigðisráðherra Teitur Guðmundsson Skoðun Kennari í verkfalli Hólmfríður Þorgeirsdóttir Skoðun Einkavæðing súrefnisins Björn Þorláksson Skoðun Feður eiga undir högg að sækja í forsjármálum Jörgen Ingimar Hansson Skoðun
Með boðuðu brotthvarfi Jóhönnu Sigurðardóttur úr stjórnmálum næsta vor lýkur merkilegum pólitískum ferli. Jóhanna hefur setið á þingi í 34 ár og á meira en fjörutíu ár að baki í stjórnmálum og starfi stéttarfélaga. Stjórnmálaferill Jóhönnu hefur einkennzt af baráttu fyrir jafnrétti og hagsmunum lítilmagnans. Hún hefur beitt sér fyrir ýmsum umbótum í velferðar- og félagsmálum þótt hún hafi reyndar ekki alltaf sézt fyrir í þeim efnum og stundum neitað að horfast í augu við staðreyndir um stöðu ríkisfjármálanna þegar baráttumál hennar hafa verið annars vegar. Jóhanna sóttist eftir formennsku í Alþýðuflokknum en beið þar lægri hlut. Fleyg urðu ummæli hennar eftir að hún tapaði formannskjöri fyrir Jóni Baldvin Hannibalssyni árið 1994: „Minn tími mun koma!". Tími Jóhönnu kom 15 árum síðar, þegar atvik höguðu því svo til eftir efnahagshrunið og fall ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokksins og Samfylkingarinnar að hún var sú sem leitað var til að stýra nýrri ríkisstjórn. Fáar ríkisstjórnir hafa staðið frammi fyrir eins erfiðu verkefni. Það markaði tímamót þegar Jóhanna settist í stól forsætisráðherra. Hún er fyrsta íslenzka konan til að gegna því embætti og sömuleiðis fyrsti forsætisráðherra heims sem fer ekki í felur með samkynhneigð sína. Hvort tveggja voru mikilvægir, táknrænir sigrar í baráttu fyrir jafnrétti. Þótt Jóhanna hafi á þeirri stundu sem hún varð forsætisráðherra verið sú sem sameinaði Samfylkinguna og naut trausts flokksmanna, hefur staða hennar innan flokksins versnað á kjörtímabilinu. Það helgast ekki sízt af því hvað hún hefur hallað sér eindregið til vinstri til að varðveita samstarfið við Vinstri græna. Fyrir vikið hefur Samfylkingin vanrækt miðjuna og stór hluti flokksins hefði ekki orðið sáttur við að hún hefði setið áfram sem formaður. Að þessu leyti má segja að Jóhanna hafi þekkt sinn vitjunartíma í pólitíkinni, sem er meira en segja má um marga aðra stjórnmálamenn. Ríkisstjórnin hefur um margt náð mikilsverðum árangri við endurreisn efnahagslífsins. Hún hefur til að mynda farið nær því að ná jöfnuði í ríkisfjármálunum en margir hefðu búizt við af fyrstu hreinræktuðu vinstri stjórninni, þótt skattahækkanir hafi átt of stóran hlut í þeim jöfnuði. Um leið hefur tekizt að standa vörð um grunnþætti í velferðarkerfinu. Mál hafa sömuleiðis þróazt í rétta átt hvað varðar endurreisn fjármálakerfisins og úrlausn skuldavanda fyrirtækja og heimila. Hins vegar hefur ríkisstjórninni mistekizt að efla fjárfestingu eins og hún áformaði og að búa atvinnulífinu samkeppnishæf rekstrarskilyrði. Fyrsta hreina vinstristjórnin virðist hafa litið svo á að hún hefði aðeins þessi fjögur ár, sem senn eru á enda, til að hrinda í framkvæmd alls konar gömlum draumum vinstrimanna. Fyrir vikið hafa ýmis mál verið keyrð áfram í miklum ágreiningi við stjórnarandstöðuna og stóra hópa í samfélaginu, í stað þess að leita þeirrar sáttar sem æskilegast hefði verið í kjölfar hrunsins. Þetta á til dæmis við um málefni sjávarútvegsins, virkjana- og verndunarmál og vinnuna við breytingar á stjórnarskránni. Í öllum þessum málum hefði mátt finna sáttaflöt, en á því hefur ríkisstjórnin ekki áhuga. Kannski þarf það ekki að koma á óvart. Jóhanna Sigurðardóttir hefur alla tíð lagt meiri áherzlu á baráttuna en sáttina.