Innlent

Tryggja farsímasamband um allan heim

Við Skarfahöfn Skemmtiferðaskipið Celebrity Eclipse lagðist að bryggju í Reykjavík í gær en skipið er engin smásmíði. Það er rúmir 300 metrar að lengd, tæpir 50 metrar að breidd og er samanlagður fjöldi áhafnar og farþega 4.400 manns.Fréttablaðið/VALLI
Við Skarfahöfn Skemmtiferðaskipið Celebrity Eclipse lagðist að bryggju í Reykjavík í gær en skipið er engin smásmíði. Það er rúmir 300 metrar að lengd, tæpir 50 metrar að breidd og er samanlagður fjöldi áhafnar og farþega 4.400 manns.Fréttablaðið/VALLI
Íslenska fyrirtækið On Waves, sem er að stærstum hluta í eigu Símans, tryggir áhöfn og farþegum á hátt í 600 stórskipum um allan heim farsímasamband. Í þeim hópi er fjöldi skemmtiferðaskipa en eitt þeirra, Celebrity Eclipse, lagðist að bryggju í Reykjavík í gær.

„Við erum ungt fyrirtæki og á nýjum markaði sem þýðir að við höfum þurft að leggjast í talsverðar fjárfestingar. Við höfum hins vegar þegar náð talsverðum árangri og teljum að það séu mjög jákvæðir og spennandi tímar fram undan á þessum markaði," segir Kristinn Ingi Lárusson, framkvæmdastjóri On Waves.

On Waves var stofnað árið 2007 af Símanum í samstarfi við tvo aðra aðila en áður hafði Síminn boðið svipaða þjónustu í samstarfi við franskt fyrirtæki. Fyrirtækið gerir skipum á hafi úti kleift að halda úti farsímaneti fyrir farþega og áhöfn á skipunum og þjónustar fyrirtækið þegar hátt í 600 skip. Flest eru þau mjög stór enda þjónusta On Waves nokkuð kostnaðarsöm og því óhentug fyrir fámennari skip.

„Í nær öllum stórum skipum er gervihnattasamband í gegnum svokallað VSAT-kerfi sem tryggir símasamband og internettengingu. Það sem við gerum er að umbreyta búnaðinum þannig að hægt sé að nota farsíma í gegnum þetta kerfi," segir Kristinn Ingi og heldur áfram: „Við erum með þeim fyrstu í heiminum til að bjóða þessa þjónustu og erum nú sennilega þriðja stærsta fyrirtækið í þessum geira."

Fimmtungur þeirra skipa sem On Waves á í samstarfi við telst vera ferjur eða farþegaskip. Þar af er nokkur fjöldi skemmtiferðaskipa á borð við Celebrity Eclipse þar sem samanlagður fjöldi gesta og áhafnar er 4.400 manns. Þá er fyrirtækið einnig með samninga við fjölda skipa sem þjónusta ýmiss konar iðnað.

Kristinn Ingi segir að lokum mikil tækifæri til staðar á þessum markaði enda geti fyrirtækið boðið þjónustu sína um allan heim.

„Auðvitað eru þau 600 skip sem við erum þegar að þjónusta talsverður fjöldi en það má hafa í huga að okkar markaður er heimurinn allur þótt fyrirtækið sé íslenskt. Það er því gríðarlegur fjöldi skipa sem við ættum að geta þjónustað," segir Kristinn.

[email protected]




Fleiri fréttir

Sjá meira


×