Innlent

Mál laumufarþega sagt mjög alvarlegt

Komust inn á flughlað Mennirnir sem hugðust smygla sér með með vél Icelandair til Kaupmannahafnar klifruðu yfir girðingu og komust þannig upp í vélina.fréttablaðið/valli
Komust inn á flughlað Mennirnir sem hugðust smygla sér með með vél Icelandair til Kaupmannahafnar klifruðu yfir girðingu og komust þannig upp í vélina.fréttablaðið/valli
Isavia mun yfirfara öryggiseftirlit sitt með starfsemi á Keflavíkurflugvelli eftir að tveir menn komust inn á flughlað og upp í vél Icelandair aðfaranótt sunnudags. Í tilkynningu frá Isavia segir að atvikið sé litið mjög alvarlegum augum.

Mennirnir tveir, sem eru ungir hælisleitendur og búsettir á gistiheimili í Reykjanesbæ, komust inn á svæðið með því að fara yfir girðingu og komust þaðan inn á flughlað og upp í flugvél Icelandair, sem var á leið til Kaupmannahafnar.

Í fyrrnefndri tilkynningu Isavia segir að „ekkert athugavert" hafi komið í ljós við skoðun á verklagi öryggisstarfsmanna Isavia á þeim tíma er atvikið átti sér stað. Mennirnir tveir hafi „greinilega verið vel skipulagðir".

„Öryggisdeild Isavia, sem fer með öryggis- og flugverndarmál á Keflavíkurflugvelli, starfar eftir mjög ströngu verklagi sem samþykkt er af Flugmálastjórn Íslands," segir þar.

Öryggiskerfið er sagt hafa virkað þar sem að áhöfn Icelandair hafi fylgt verklagsreglum og fundið mennina inni á salerni vélarinnar áður en hún fór í loftið.

Forsvarsmenn Icelandair vildu ekki tjá sig um málið þegar Fréttablaðið leitaði viðbragða í gær.

Ekki náðist í forstjóra Isavia, en Þórólfur Árnason stjórnarformaður sagði aðspurður um hvort öryggismál Isavia væru í góðum málum að lögregla væri að rannsaka málið.

„Við verðum að bíða og heyra hvað lögreglan hefur að segja," sagði Þórólfur. Lögreglan á Suðurnesjum rannsakar málið.

[email protected]




Fleiri fréttir

Sjá meira


×