Menning

Þetta er frekar melódískt verk og lætur vonandi þægilega í eyrum

"Ég blanda djassi og blús við hefðbundna kórtóna,“ segir tónskáldið um hið nýja verk.
"Ég blanda djassi og blús við hefðbundna kórtóna,“ segir tónskáldið um hið nýja verk. Mynd/Edda Lilja Guðmundsdóttir
Hafdís Bjarnadóttir rafgítarleikari er staðartónskáld Sumartónleika Skálholtskirkju þetta árið. Nýtt verk eftir hana verður frumflutt á laugardag af sönghópnum Hljómeyki og tveimur gítarleikurum. Hún er nýlega vöknuð á hinum helga stað þegar við sláum á þráðinn til hennar.

„Ég hef búið hér í Skálholti þessa viku og það er alveg yndislegt. Maður kemst í svo góð tengsl við sjálfan sig og tónlistina að vera svona uppi í sveit. Þá er ekkert verið að taka til í geymslunni eða láta glepjast af annarri vitleysu. Ég nota líka sénsinn og hvíli Facebook á meðan," segir Hafdís Bjarnadóttir, gítarleikari og staðartónskáld Skálholts, glaðlegri röddu. Ný tónlist eftir hana verður frumflutt í Skálholtskirkju á laugardaginn við ljóð eftir Einar Má Guðmundsson. Sönghópurinn Hljómeyki undir stjórn Mörtu G. Halldórsdóttur flytur og Hafdís sjálf og Ragnar Emilsson spila með á rafgítara.

„Ég valdi nokkur ljóð eftir Einar Má sem innihalda vangaveltur um lífið og hvernig heimurinn er í kringum mig. Ég sem músík þessi ljóð og blanda djassi og blús við hefðbundna kórtóna. Af því að ég er með bakgrunn í rokki og djassi þá blanda ég alltaf elementum úr því saman við það sem ég geri. Gítararnir koma svo með notalega stemningu. Þetta verk er frekar melódískt og lætur vonandi þægilega í eyrum," segir Hafdís sem lærði á rafgítar í FÍH og stundaði síðan nám í tónsmíðum í Listaháskólanum og Konunglega danska háskólanum í Kaupmannahöfn.

En hvernig verður fólk staðartónskáld Sumartónleikanna í Skálholti? Sækir það um? „Nei, ég var bara valin. Það var hringt í mig fyrir ári og ég spurð hvort ég væri til í að vera staðartónskáld þetta sumarið og mér leist mjög vel á það. Síðustu mánuði hef ég svo einbeitt mér að þessari músík sem á að flytja núna um helgina."

Hafdís Bjarnadóttir.
Spurð hvort hún hafi fengið Hljómeyki til liðs við sig svarar Hafdís. „Ég held að Hljómeyki sé alltaf hér í Skálholti á hverju sumri í tengslum við sumartónleikana, það var að minnsta kosti strax ljóst að ég mundi föndra eitthvað fyrir þann ágæta kór. Hann hefur gist hér þessa viku og einn aðallúxusinn við þetta verkefni er sá að vera með allt söngfólkið á staðnum og hafa nægan tíma til að æfa. Hljómeyki er líka að æfa fyrir tónleika sem eru í kvöld, með endurreisnartónlist."

Að lokum. Klukkan hvað byrja tónleikarnir um helgina? „Á laugardaginn klukkan fimm og sunnudaginn klukkan þrjú en á laugardeginum er ég líka með fyrirlestur klukkan tvö, bæði um þetta nýja verk og pælingarnar á bak við það og það sem ég hef verið að gera almennt."

[email protected]






Fleiri fréttir

Sjá meira


×