Menning

Hrikalegasta illmenni íslenskrar kvikmyndasögu

Damon Younger stendur sig stórkostlega sem illmennið Brúnó í kvikmyndinni Svartur á leik sem var frumsýnd í vikunni.
fréttablaðið/anton
Damon Younger stendur sig stórkostlega sem illmennið Brúnó í kvikmyndinni Svartur á leik sem var frumsýnd í vikunni. fréttablaðið/anton
„Þetta er bara vinna. Þetta er ekkert flókið," segir leikarinn Damon Younger.

Frammistaða Damons í glæpamyndinni Svartur á leik hefur vakið mikla athygli. Brúnó, persóna hans, þykir vera eitt hrikalegasta illmenni sem sést hefur í íslenskri kvikmynd og hann þykir standa sig stórkostlega í hlutverkinu.

Spurður hvernig hann undirbjó sig fyrir hlutverkið segir Damon málið einfalt. „Maður þarf bara að fara út að æfa sig. Þegar maður er að undirbúa hlutverk er maður ekki vinsælasti maðurinn í bænum. Ég á þrjá góða vini sem styðja mig í þessu og sitja með mér fram á nótt þegar ég er að æfa mig. Svo biðja þeir mig um að hætta þegar þetta er komið of langt," segir hann. „Ég er klassískt menntaður leikari þannig að þetta er allt mjög skipulagt sem ég er að gera. Þetta er eins og fótbolti, þú getur rétt ímyndað þér, menn æfa og æfa og æfa og æfa. Svo er leikurinn bara 90 mínútur."

Damon fékk hjálp úr ýmsum áttum þegar hann undirbjó hlutverkið, meðal annars frá lögreglunni og mönnum úr undirheimum Reykjavíkur. „Sérsveitarmenn komu og töluðu við mig og aðstoðuðu mig mikið. Svo þekki ég mann sem þekkir mann og hitti nokkra atvinnukrimma og fékk að fylgjast með þeim," segir hann.

Leikarinn Jóhannes Haukur tók sjálfan sig í gegn fyrir hlutverk sitt í myndinni, missti hátt í 20 kíló og styrkti sig mikið. Damon virðist einnig vera vel á sig kominn í myndinni, en hann beitti öðrum aðferðum. „Ég keypti ketilbjöllu eftir að ég sá mynd af Gunnari Nelson. Hann lemur alla, skilurðu? Skiptir engu máli hvernig þeir líta út og hvað þeir eru stórir."

Damon er íslenskur og heitir í raun Ásgeir. Hann lærði leiklist í London og vill ekki ræða nafnabreytinguna. Spurður út í viðbrögðin við frammistöðu sinni í myndinni segist hann hreinlega fara hjá sér. „Þetta er búið að vera alveg fáránlegt. Ég er mjög þakklátur fyrir það. Alltaf gaman að fá viðurkenningu á því sem maður er að gera," segir hann.

Ertu eitthvað farinn að pæla í hvað þú gerir næst?

„Ætli ég fari ekki á Stokkseyri. Að hlusta á brimið. Humarsúpa og eitthvað. Voða þægilegt að vera á Stokkseyri."

[email protected]






Fleiri fréttir

Sjá meira


×