Innlent

Dregur úr flutningum þó fleiri fari en komi

Enn flytja fleiri frá landinu en til þess, þrátt fyrir að heldur hafi dregið úr brottflutningi. Tölur frá Hagstofu Íslands sýna að árið 2011 fluttu 6.982 frá landinu, en 5.578 til landsins. Árið 2010 fluttu 7.759 frá Íslandi en 5.625 til landsins.

Þetta þýðir að brottfluttir umfram aðflutta voru 1.404 í fyrra. Íslenskir ríkisborgarar eru í meirihluta þeirra sem fluttu frá landinu, eða 4.135 miðað við 2.847 erlenda ríkisborgara. Þeir eru einnig í meirihluta þeirra sem flytja til landsins og brottfluttir íslenskir ríkisborgarar umfram aðflutta eru 1.311. Alls fluttu 2.754 erlendir ríkisborgarar til landsins árið 2011.

Flestir íslenskir ríkisborgarar fluttu til Noregs, Danmerkur eða Svíþjóðar; 3.022 af þeim 4.135 sem fluttu. Þar af fóru 1.508 til Noregs, sem er vinsælasti áfangastaður brottfluttra. Flestir sem hingað flytja koma einnig frá þessum þremur löndum, eða 2.113 af 2.824.

Erlendir ríkisborgarar flytja flestir til Póllands, eða 1.000 af 2.847 alls. Þaðan fluttu líka flestir erlendir ríkisborgar til landsins, eða 768.

Langflestir þeirra sem flytja af landi brott eru undir þrítugu, tæplega 1.300 á aldrinum 25 til 29 og um 1.200 á aldrinum 20 til 24 ára.

Samkvæmt upplýsingum frá Hagstofunni hófust miklir búferlaflutningar til og frá landinu árið 2004 sem standa enn. Á árunum 2004 til 2008 fluttist 15.921 til landsins umfram brottflutta. Síðustu þrjú ár hefur það snúist við og hafa 8.373 flutt af landi brott umfram aðflutta.

Árið 2008 fluttu tæplega 7.500 erlndir ríkisborgarar til landsins. Úr því hefur dregið við hrun, en þó fluttu 3.392 hingað árið 2009, 2.988 árið 2010 og 2.754 í fyrra.

[email protected]




Fleiri fréttir

Sjá meira


×