Innlent

Meiri ánægja með skýrslur í Barnahúsi

í barnahúsi Upplifun barna og foreldra var betri í Barnahúsi en hjá dómstólum, samkvæmt rannsókn sem gerð var á þriggja ára tímabili. fréttablaðið/gva
í barnahúsi Upplifun barna og foreldra var betri í Barnahúsi en hjá dómstólum, samkvæmt rannsókn sem gerð var á þriggja ára tímabili. fréttablaðið/gva
Bæði börn og foreldrar eru ánægðari með skýrslutökur sem fara fram í Barnahúsi en í húsnæði dómstóla.

Barnahús mæltist betur fyrir í öllum flokkum sem spurt var um í rannsókn Barnaverndarstofu, sem Bragi Guðbrandsson, forstjóri hennar, kynnti á ráðstefnu um meðferð kynferðisbrota fyrir helgi. Bæði börn og foreldrar þeirra voru spurð, en úrtakið var 225 manns á þriggja ára tímabili.

Almennt voru 83 prósent aðspurðra ánægð með skýrslutöku í Barnahúsi, en 70 prósent fyrir dómstólum. Þá voru fleiri jákvæðir gagnvart þeim sem tóku skýrslur í Barnahúsi og fólk var ánægðara með upplýsingar sem það fékk fyrir og eftir skýrslutöku. Þá þótti 60 prósentum ekki eins erfitt að bera vitni og þau héldu í Barnahúsi, en 48 prósent fyrir dómstólum. 40 prósentum leið betur eftir að hafa borið vitni í Barnahúsi á móti 33 prósentum annars staðar.

Bragi gagnrýndi á ráðstefnunni þá tilhögun hjá Héraðsdómi Reykjavíkur að nýta ekki Barnahús undir skýrslutökur af börnum. Hann sagði það frávik frá grundvallaratriðum sem er að finna í Evrópuráðssamningnum um varnir gegn kynferðislegri misneytingu og kynferðislegri misnotkun barna. Dómstjóri í héraðsdómi svaraði honum og sagði að hvert tilvik væri metið sérstaklega og þjónusta Barnahúss hefði verið notuð. Í dómhúsinu sé þó sérstök aðstaða fyrir skýrslutökur af börnum.

Bragi sagði að rannsóknin sýndi að umhverfið í Barnahúsi mælist betur fyrir hjá bæði foreldrum og börnum. 86 prósentum þótti staðsetning þess góð, 69 prósentum þótti aðstaðan aðlaðandi og 75 prósent voru ánægð með biðstofuna.

„Það er í rauninni skylda okkar að taka skýrslur af börnum við bestu hugsanlegu aðstæður. Það skiptir máli, ekki síst fyrir rannsókn málsins, því þeim mun betur sem barninu líður við skýrslutökuna þeim mun meiri líkur eru á því að við fáum fulla og ítarlega tjáningu."

[email protected]




Fleiri fréttir

Sjá meira


×