Viðskipti innlent

Coca Cola á Spáni eignast Vífilfell

Þorbjörn Þórðarson. skrifar

Coca Cola á Spáni hefur gengið frá kaupum á Vífilfelli, framleiðanda Coca Cola á Íslandi. Kaupverðið gengur að mestu leyti upp í skuldir félaga Þorsteins M. Jónssonar við Arion banka en þær eru samtals tíu milljarðar króna. Bankinn fær kröfur sínar á hendur Þorsteini og félögum í hans eigu greiddar að fullu.

Vífilfell hf. og tvö félög í eigu Þorsteins M. Jónssonar, stjórnarformanns félagsins, Sólstafir og Stuðlaháls ehf. skulda Arion banka um tíu milljarða króna. Í lánayfirliti Kaupþings banka frá 25. september 2008 eru skuldirnar gefnar upp í evrum og sagðar 72,9 milljónir evra, sem er jafnvirði rúmlega ellefu milljarða króna. Hins vegar var skuldunum breytt í íslenskar krónur í febrúar 2008, samkvæmt heimildum fréttastofu, og stendur upphæðin núna í um tíu milljörðum króna.

Hluti af allsherjaruppgjöri Þorsteins

Að undanförnu hefur fyrirtækið verið í söluferli en Þorsteinn M. Jónsson hefur leitað að heppilegum kaupanda. Samkvæmt heimildum Stöðvar 2 hefur nú verið gengið frá sölu á fyrirtækinu og hverfur Þorsteinn úr hluthafahópi þess, en salan á Vífilfelli er hluti af allsherjaruppgjöri á skuldum Þorsteins og félögum í hans í eigu. Upphaflega var stefnt að því að tilkynna starfsmönnum Vífilfells um söluna á mánudag, en síðan var tekin ákvörðun um að fresta því og verður það gert um miðja næstu viku.

Kaupandinn er Coca Cola á Spáni, þ.e það félag sem hefur átöppunarleyfi fyrir vörur Coca Cola þar í landi. Samkvæmt heimildum Stöðvar 2 býst Arion banki við því að fá að fullu greitt upp í kröfur sínar á hendur Þorsteini og félögum hans, en leiða má að því líkum að bankinn fái þá a.m.k tíu milljarða króna út úr viðskiptunum. Kaupverðið á Vífilfelli hefur hins vegar ekki fengist staðfest.

Hlutur í Refresco undanskilinn kaupunum

Vífilfell á 5 prósenta eignarhlut í evrópska drykkjarframleiðandanum Refresco sem metinn er á 21 milljón evra, jafnvirði rúmlega þriggja milljarða króna. Samkvæmt heimildum Stöðvar 2 er eignarhluturinn í Refresco undanskilinn sölunni á Vífilfelli. Arion banki er hins vegar með veð í hlutnum, eins og í öðrum eignum Vífilfells.

Rekstur Vífilfells er góður og var EBITDA-hagnaður félagsins, þ.e hagnaður fyrir skatta, afskriftir og fjármagnsliði, rúmlega einn milljarður króna, á síðsta ári, samkvæmt upplýsingum Stöðvar 2.

Arion banki segir í svari við fyrirspurn að unnið hafi verið að lausn á málum sem varði Þorstein og félög hans um nokkuð skeið vegna skulda þeirra við bankann og að niðurstöður eigi að liggja fyrir á næstu dögum, en fulltrúar bankans vildu ekki tjá sig efnislega að öðru leyti. Þorsteinn M. Jónsson vildi ekki tjá sig um efni fréttarinnar og varð ekki við ósk um viðtal. [email protected]








Fleiri fréttir

Sjá meira


×