Menning

Konur Steinunnar sækja alltaf í gröfina

Bók þeirra Guðna Elíssonar og Öldu Bjarkar Valdimarsdóttur, Hef ég verið hér áður, var nær áratug í vinnslu. Hún samanstendur af sjö greinum sem allar fjalla um höfundarverk Steinunnar Sigurðardóttur rithöfundar út frá ýmsum hliðum. Fréttablaðið/Anton
Bók þeirra Guðna Elíssonar og Öldu Bjarkar Valdimarsdóttur, Hef ég verið hér áður, var nær áratug í vinnslu. Hún samanstendur af sjö greinum sem allar fjalla um höfundarverk Steinunnar Sigurðardóttur rithöfundar út frá ýmsum hliðum. Fréttablaðið/Anton
Tvær bækur eftir Guðna Elísson prófessor komu nýverið út á vegum Háskólaútgáfunnar. Aðra þeirra, greinasafnið Hef ég verið hér áður, vann Guðni með eiginkonu sinni, Öldu Björk Valdimarsdóttur. Hún fjallar um höfundarverk Steinunnar Sigurðardóttur rithöfundar. Hin bókin er samansafn greina sem taka á samtímanum út frá ólíklegustu hliðum.

Út er komin á vegum Háskólaútgáfunnar bókin „Hef ég verið hér áður", safn sjö greina sem allar fjalla um verk Steinunnar Sigurðardóttur rithöfundar. Það eru hjónin Guðni Elísson, prófessor við íslensku- og menningardeild HÍ, og Alda Björk Valdimarsdóttir, doktorsnemi í almennri bókmenntafræði, sem eiga heiðurinn að bókinni. Hún hefur verið nær áratug í vinnslu.

Þau Guðni og Alda draga fram og velta fyrir sér þeim þemum, minnum og leiðarstefjum sem eru gegnumgangandi í verkum Steinunnar. „Hún glímir mikið við samband manns og náttúru, henni eru mjög hugleikin vensl ástar og dauða og tíminn gengur alltaf eins og rauður þráður í gegnum verk hennar," útskýrir Guðni. Þannig séu hugleiðingar um tíma, forgengileika og það hvernig tíminn breytir mönnum, stöðum og samböndum áberandi. „Persónur í verkum hennar eru líka á sífelldri hreyfingu, ferðast með bílum, skipum og lestum. Það er þetta friðleysi sem keyrir þær áfram. Þá sækja konurnar í verkum Steinunnar alltaf í gröfina í einhverjum skilningi. Dauðinn er alltaf á næsta leiti."

Guðni segir vissa ögrun að fást við samtímann í greinum sem þessum. „Við erum alltaf að endurskoða alla túlkun og endurskapa hugmyndir okkar um bókmenntirnar. En þetta verður sér í lagi dínamískt þegar verið er að fást við höfund sem er ekki búinn að ljúka sínu höfundarverki."

Hann telur einmitt mikilvægt að fjalla um höfunda í samtímanum, sem sé bæði ögrandi fyrir greinandann og viðfangsefnið. „Það skiptir líka máli að draga fram þá punkta sem við sem samtímalesendur göngum að sem vísum. Framtíðarkynslóðir eiga eftir að lesa framhjá fjölmörgum hlutum sem við í samtímanum vitum af, um leið og við tökum bók í hönd. Þetta eru þeir hlutir sem týnast fyrst, af því það hirðir enginn um þá."

Eftir Guðna kom einnig nýverið út greinasafnið Rekferðir, fyrsta bókin í nýju ritröðinni Vörður í menningarfræði sem Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur stendur að. Ritröðin hefur einkum það markmið að birta greinasöfn sem fjalla um menningarleg málefni og ýmis fræði er varða samtímann. Greinarnar eru skrifaðar á árunum 2001 til 2009, en tvö ártöl, 11. september 2001 og 6. október 2008, móta verkið. „Þetta var tímabil gríðarlegrar heimsvæðingar markaðsaflanna en líka tímabil mikils ótta við hryðjuverk og undirróðursstarfsemi. Á Íslandi var þetta líka uppgangstími. Svo slæst þetta saman á einhvern sérkennilegan hátt hér á landi."

Greinarnar, sem fjalla um allt frá Íraksstríðinu til mávastells, birtust í Lesbók Morgunblaðsins. Guðni segist hafa fengið talsvert mikið af athugasemdum frá lesendum á þeim tíma. „Ég hef verið skammaður fyrir að vera vinstri sinnaður af hægri mönnum og hægri sinnaður af vinstri mönnum. Þunginn í greinunum er vissulega gagnrýni á Sjálfstæðisflokkinn, en það var fyrst og fremst vegna samfélagsástandsins sem þá var. Sjálfstæðismenn voru við völd og þeirra var ráðandi skilningur á samfélaginu. Ég var skeptískur yfir þessum skilningi og hafði áhyggjur af þróuninni hér á Íslandi," segir Guðni.

[email protected]






Fleiri fréttir

Sjá meira


×