Lífið

Opna nýja verslun á Laugavegi

Verzlunarfjelagið Svava Halldórsdóttir og Kolbrún Amanda Hasan opna Verslunarfjelagið þar sem hönnuðum býðst að selja vörur sínar í miðbænum í desember.Fréttablaðið/gva
Verzlunarfjelagið Svava Halldórsdóttir og Kolbrún Amanda Hasan opna Verslunarfjelagið þar sem hönnuðum býðst að selja vörur sínar í miðbænum í desember.Fréttablaðið/gva
„Það jafnast ekkert á við jólastemminguna í miðbænum í desember svo við erum að opna á besta tíma,“ segir Svava Halldórsdóttir fatahönnuður um búðina Verzlunarfjelagið sem opnar á næstu dögum á Laugaveginum.

Svava stendur á bak við búðina ásamt vinkonu sinni, Kolbrúnu Amöndu Hasan, en báðar eru þær menntaðir fatahönnuðir frá Ítalíu og Listaháskóla Íslands og hanna barnafatnað saman. „Hugmyndin að búðinni kom vegna þess að okkur gekk illa að koma barnafatamerkinu okkar í sölu í búðum og fannst vanta fleiri hönnunarbúðir á markaðinn. Þetta er frekar þröngur heimur hérna á Íslandi og stundum erfitt að komast að,“ segir Svava en hugmyndin er að hönnuðir komi fyrir bás í verslunarplássinu og selji sínar vörur beint til viðskiptavina yfir þennan háannatíma.

„Þetta er ekkert ósvipað pop-up mörkuðum þar sem hægt er að kaupa vöruna beint frá hönnuðinum nema verslunin verður opin á hverjum degi í lengri tíma.“

Verzlunarfjelagið verður opið í sex vikur og var Svava nýbúin að taka við lyklunum á 250 fm verslunarhúsnæði á Laugavegi 95 þegar Fréttablaðið náði af henni tali. „Við stefnum á að búa til notalega stemmingu hérna með kaffisölu og alls konar menningarlegum uppákomum eins og tónlistaratriðum og upplestrum frá rithöfundum,“ segir Svava.

Þær taka ennþá við umsóknum frá hönnuðum sem vilja selja sínar vörur í miðbænum í desember og hægt er að senda þeim póst á [email protected]. - áp






Fleiri fréttir

Sjá meira


×