Lífið

Skrautlegur aðall í gala-kvöldverði

Fjöldi gesta lét það eftir sér að dansa við ljúfan undirleik á gala-kvöldverðinum í þessum stórbrotna danssal Hilton-hótelsins.
Fjöldi gesta lét það eftir sér að dansa við ljúfan undirleik á gala-kvöldverðinum í þessum stórbrotna danssal Hilton-hótelsins.
Norræni aðallinn klæddist sínu fínasta pússi þegar hann var viðstaddur glæsilegan gala-kvöldverð á vegum American-Scandinavian Foundation en samtökin verða hundrað ára í ár. Íslensku forsetahjónin voru að sjálfsögðu á meðal gesta.

Allir þjóðhöfðingjar Norðurlandanna voru samankomnir á Hilton-hótelinu þegar samtökin American-Scandinavian Foundation héldu veglegan galakvöldverð um helgina. Aðalsborið fólk og forsetar Finnlands og Íslands voru heiðursgestir samkomunnar en fólkið var hyllt með dynjandi lófaklappi þegar það gekk í salinn. Norska leikkonan Liv Ullmann var veislustjóri og leikarinn Brian Stokes Mitchell skemmti fólki með söng. Síðan var stiginn dans og þar vöktu Friðrik krónprins og Mary Donaldson mesta athyglina fyrir mikinn þokka á dansgólfinu.

Ekki voru þó allir hrifnir af kvöldverðinum og blaðamaður Wall Street Journal, Mike Vilensky, segir viðburðinn hafa haft ásjónu gömlu yfirstéttarinnar.

„Fræga fólkið og almúginn eru oft aðskilin í gala-kvöldverðum en það gerist ekki oft að fólk fái skriflegar leiðbeiningar um hvernig það eigi að haga sér í nærveru slíks fólks,“ skrifar Vilensky og vitnar í leiðbeiningar sem allir gestir fengu en þar kom meðal annars fram að ekki mætti snerta hið aðalsborna fólk nema bara með einu handabandi. „Þetta er svolítið fornt,“ hefur Wilensky eftir lögfræðingnum C.P. Braestrup sem bætti því svo við að konungsfólkið yrði að viðhalda ákveðinni dulúð.

Blaðamaður vefsíðunnar Examiner fylgdist gaumgæfilega með hverju skrefi konungsfólksins og sá hvernig Sonja Noregsdrottning festi kjólinn sinn í rúllustiga en var bjargað af sjálfum Karli Gústav Svíakonungi. Adam var hins vegar ekki lengi í paradís hjá hinum skrautlega konungi því honum tókst að hella kampavíni á kjól konu sinnar.

[email protected]






Fleiri fréttir

Sjá meira


×