Innlent

Hryssur stórslasaðar eftir meintan níðing

Eftirlit með hrossum Dýralæknir á Dýraspítalanum í Víðidal hvetur hestaeigendur til að fylgjast vel með hrossum sínum, þar sem grunur leikur á að hryssur hafi verið illa skaðaðar af mannavöldum.
Eftirlit með hrossum Dýralæknir á Dýraspítalanum í Víðidal hvetur hestaeigendur til að fylgjast vel með hrossum sínum, þar sem grunur leikur á að hryssur hafi verið illa skaðaðar af mannavöldum.
Hryssa fannst sárkvalin og blæðandi, með illa útleikin kynfæri, í girðingu í Kjós um síðustu helgi. Hún hefur verið til aðhlynningar á Dýraspítalanum í Víðidal undanfarna daga. Önnur hryssa í sömu girðingu hafði áður verið færð undir læknishendur af sömu ástæðu. Eigendur hryssanna hafa kært athæfið til lögreglu.

Samkvæmt lýsingu eigenda hryssanna fóru þeir fyrst í byrjun júlí í girðinguna til að skoða folöld þar. Kom þá í ljós að ein hryssanna var með skurð undir taglinu. Önnur var einnig með sár, sem reyndist vera minni háttar. Hryssan með meiri áverkana var færð til dýralæknis. Sárið á henni reyndist bæði langt og djúpt og varð að sauma það saman.

Síðastliðinn sunnudag fóru eigendurnir svo aftur í girðinguna til að draga undan hrossunum. Þá sást að tagl þriðju hryssunnar var alblóðugt og afturfætur einnig. Þegar farið var að rannsaka málið nánar reyndist blóðið koma úr kynfærum hryssunnar og var hún samstundis færð til dýralæknis á Dýraspítalanum í Víðidal, þar sem hún hefur dvalið þar til í gær, að henni var sleppt.

Hryssan sem minnstu áverkarnir voru á er ljónstygg í haga, en hinar tvær gæfari, einkum sú sem mest var sköðuð. Hún er barnahross, mjög spök og treystir öllum, þannig að auðvelt er að ganga að henni hvar sem er.

Lísa Bjarnadóttir, dýralæknir á Dýraspítalanum, sem hefur, auk annarra, annast hryssurnar sagði í samtali við Fréttablaðið að báðar hefðu þær verið með áverka í skeið.

„Fyrri hryssan sem kom var rifin út þannig að áverkinn sást betur. Það þurfti heilmikinn saumaskap til að koma henni í lag. Svo var ljótt sár í síðari hryssunni, Hún var mjög bólgin og mikil blæðing. Hún var kófsveitt og hríðskjálfandi þegar komið var með hana og henni hefði hreinlega getað blætt út,“ lýsir dýralæknirinn ástandi hrossanna tveggja og bætir við að á báðum hryssunum hafi áverkinn verið innanvert öðrum megin.

„Mér finnst ólíklegt annað en að þetta geti verið af mannavöldum, miðað við áverkana, en það er svo sem ekki hægt að staðhæfa það meðan ekkert hefur sannast,“ segir Lísa og hvetur hestaeigendur til að fylgjast vel með hrossum sínum.

Héraðsdýralækni Gullbringu- og Kjósarumdæmis, Gunnari Erni Guðmundssyni, var tilkynnt um málið. Hann kynnti sér aðstæður og hvatti eigendur hryssanna til að kæra málið til lögreglu, sem þeir og gerðu.

[email protected]




Fleiri fréttir

Sjá meira


×