Lífið

Rokk og plokkfiskur

flottir feðgar Haukur S. Magnússon og Magnús Hauksson munu taka á móti gestum í dag. Haukur mun leika tónlist með hljómsveit sinni og Magnús reiðir fram dásamlega fiskrétti ásamt konu sinni, Ragnheiði Halldórsdóttur.fréttablaðið/valli
flottir feðgar Haukur S. Magnússon og Magnús Hauksson munu taka á móti gestum í dag. Haukur mun leika tónlist með hljómsveit sinni og Magnús reiðir fram dásamlega fiskrétti ásamt konu sinni, Ragnheiði Halldórsdóttur.fréttablaðið/valli
Haukur S. Magnússon hefur fengið foreldra sína í heimsókn frá Ísafirði yfir Menningarnótt. Saman bjóða þau til veislu úti á Granda í kvöld.

Hljómsveitirnar Reykjavík! og Sudden Weather Change bjóða gestum og gangandi í heimsókn í æfingahúsnæði sitt í dag í tilefni Menningarnætur. Hljómsveitirnar munu stíga á svið og leika nokkur lög fyrir gesti auk þess sem hjónin Magnús Hauksson og Ragnheiður Halldórsdóttir frá Tjöruhúsinu munu reiða fram dýrindis rétti fyrir fólk.

Reykjavík! og Sudden Weather Change verða ekki einu hljómsveitirnar sem koma fram heldur munu Ofvitarnir, Just Another Snake Cult og Mugison einnig koma fram auk þess sem myndlistarmaðurinn Ísak Óli Sævarsson mun selja verk sín á staðnum. Menningin mun því blómstra í æfingahúsnæðinu þennan dag.

Haukur S. Magnússon, meðlimur hljómsveitarinnar Reykjavík!, segir Grandasvæðið vera orðið mjög líflegt og skemmtilegt og vonast eftir því að sjá sem flesta í dag.

„Okkur fannst kjörið að bjóða fólki í heimsókn í tilefni dagsins, halda listasýningu, tónleika og bjóða upp á mat. Mamma mín og pabbi reka Tjöruhúsið þannig það voru hæg heimantökin að fá þau í lið með sér. Þetta gaf þeim líka ástæðu til að koma suður og taka þátt í gamninu. Öllum er boðið og ég vonast eftir því að sjá sem flesta,“ segir Haukur.

Meðal þeirra rétta sem Magnús og Ragnheiður munu reiða fram eru plokkfiskur og fiskisúpa. Þegar Haukur er inntur eftir því hvaða réttur sé í uppáhaldi hjá honum verður honum svarafátt. „Það fer svolítið eftir því í hvaða skapi ég er. Mér finnst plokkfiskurinn alltaf fáránlega góður, en fiskisúpan þeirra er líka alveg sér á báti.“

Skemmtunin fer fram í æfingahúsnæði sveitanna við Hólmaslóð 2. Skemmtunin byrjar klukkan 15 og stendur til 23. Maturinn verður reiddur fram um klukkan 19 og þá hefjast einnig tónleikarnir.

[email protected]






Fleiri fréttir

Sjá meira


×