Innlent

Úrslit Íslensku tónlistarverðlaunanna

Ólöf Arnalds varð fyrir valinu sem tónhöfundur ársins á Íslensku tónlistarverðlaununum. Fréttablaðið/Vilhelm
Ólöf Arnalds varð fyrir valinu sem tónhöfundur ársins á Íslensku tónlistarverðlaununum. Fréttablaðið/Vilhelm
Íslensku tónlistarverðlaunin dreifðust á margar hendur þegar þau voru afhent í sautjánda sinn í Þjóðleikhúsinu í gærkvöldi.

Jón Þór Birgisson, Jónsi, átti bestu plötu ársins í rokk- og poppflokki, Go, sem kom út við góðar undirtektir í fyrra. Stutt er síðan sama plata var valin besta norræna plata ársins við hátíðlega athöfn í Noregi.

„Hamingjan er hér“ með Jónasi Sigurðssyni var kjörið lag ársins. Þau naut mikilla vinsælda á síðasta ári en það kom út á annarri plötu Jónasar, Allt er eitthvað.

Bjartmar Guðlaugsson, sem hefur átt góða endurkomu að undanförnu, var valinn textahöfundur ársins fyrir textana á plötunni Skrýtin veröld sem kom út fyrir jólin. Hann var tilnefndur til þrennra verðlauna og voru það fyrstu tilnefningar hans á löngum ferli. Ólöf Arnalds varð fyrir valinu sem tónhöfundur ársins og bar hún þar sigurorð af köppum á borð við Jónsa, Bjartmar og Skúla Sverrisson.

Ágúst Ólafsson og Gerrit Schuil voru valdir tónlistarflytjendur ársins fyrir tónleika sína á Listahátíð og óperusöngvarinn Kristinn Sigmundsson hlaut Íslensku tónlistarverðlaunin fyrir rödd ársins.

Trompetleikarinn Ari Bragi Kárason var valinn bjartasta vonin. Hann þykir einn efnilegasti trompetleikari sem komið hefur fram um árabil.

Þá fékk hönnuðurinn Sigurður Eggertsson verðlaun fyrir umslag ársins við plötuna Pólýfónía með Apparat Organ Quartet, auk þess sem Jóel Pálsson átti hljómplötu ársins í djassflokki, Horn.

Heiðursverðlaunahafi ársins, Þórir Baldursson útsetjari, tónskáld, píanóleikari og Hammond-fjölfræðingur tók við viðurkenningu sinni og nokkrir samferðamenn hans og vinir hylltu hann með tónlistarflutningi.

[email protected]




Fleiri fréttir

Sjá meira


×