Innlent

Um fjörutíu þúsund Íslendingar búa úti

Mynd úr safni.
Mynd úr safni.
Alls búa 38.083 Íslendingar erlendis. Flestir búa á Norðurlöndunum, rúmur fjórðungur þeirra í Danmörku, eða 10.115 manns. Þeir Íslendingar sem búa í Noregi eru 6.970 talsins, 6.656 í Svíþjóð og 206 í Finnlandi. Þetta eru upplýsingar fengnar úr Þjóðskrá Íslands.

Árið 2009 sexfölduðust búferlaflutningar Íslendinga til Noregs, en um 1.500 manns fluttu þangað á því ári.

Alls býr 7.551 Íslendingur í Bandaríkjunum og Bretlandi, eða um 20 prósent af heildarfjölda þeirra sem eru erlendis. Heildarfjöldi Íslendinga í Skandinavíu, Bretlandi og Bandaríkjunum er um 75 prósent af heildarfjölda Íslendinga erlendis.

Íslendingar búa úti um heim allan. Til að mynda búa 136 Íslendingar á Nýja-Sjálandi, sjö í Egyptalandi, fimm í Barein, tveir í Írak og einn í Afganistan. Enginn Íslendingur er með skráð lögheimili í Líbíu né Norður-Kóreu.

„Tvennt virðist ráða flutningi íslenskra ríkisborgara burt af landinu. Annars vegar fara á hverju ári margir erlendis til náms. Hins vegar virðist hagsveiflan hafa þar áhrif á. Nánast enginn munur er á búferlaflutningum kynjanna, nema hvað varðar aldursdreifingu,“ segir í ritgerð Ómars S. Harðarsonar: Athugun á búferlaflutningum til og frá Íslandi 1961-2009, sem er birt á vef Hagstofu Íslands.

Það hefur hins vegar aukist á síðustu árum að Íslendingar setjist að í öðrum löndum eftir að námi er lokið, í stað þess að koma til Íslands á vinnumarkaðinn.

[email protected]




Fleiri fréttir

Sjá meira


×