Matur

Leyndarmál ítalskra húsmæðra: Ítölsk eggjakaka

Roald Eyvindsson skrifar
Rétturinn kallast La frittata di maccheroni, sem mætti lauslega þýða sem eggjaköku hagsýninnar.
Rétturinn kallast La frittata di maccheroni, sem mætti lauslega þýða sem eggjaköku hagsýninnar. Fréttablaðið/Pjetur

„Þetta er best geymda leyndarmál ítalskra húsmæðra, og -feðra, og nokkuð sem allir hagsýnir kokkar ættu að þekkja," segir Jóhanna Guðrún Gunnarsdóttir ítölskukennari um uppskrift að ítalskri eggjaköku gerðri úr afgöngum.

Rétturinn er ættaður frá Napólí og kallast á frummálinu La frittata di maccheroni, sem mætti lauslega þýða sem eggjaköku hagsýninnar. Jóhanna skipuleggur námsferðir fyrir Íslendinga til Le Marche héraðsins á Ítalíu í samstarfi við tungumálaskólann Edulingua á sumrin. Uppskriftina lærði hún af heimamönnum og finnst gott að geta gripið í hana enda unnandi ítalskrar matargerðar og hagsýn að eðlisfari.

„Ég nota afganga af ýmsu pasta í hagsýniskökuna mína, hvort sem það er penne, vermicelli eða spagettí, enda hendir maður ekki ljúffengum afgangi af góðum pastarétti frá kvöldinu áður, sérstaklega ekki ef aðeins þarf að bæta nokkrum eggjum út í daginn eftir. Ég umbreyti líka stundum penne all'arrabbiata í svona köku, þar sem nóg er af beikoni í þeim pastarétti, sem gerir hana mýkri og matarmeiri en ella og eins er sérlega ljúffengt að nota afgangs risotto," segir Jóhanna, sem kýs að hafa kökuna sem meðlæti eða með smá brauði.

„Það er að segja ef bóndinn er ekki búinn að klára," getur hún brosandi og segir námsfúsa svo geta sent póst á [email protected].

Jóhanna segir eggjakökuna nokkuð sem allir hagsýnir kokkar ættu að þekkja.

Sælkeraréttur frá Napólí - eggjakaka fyrir tvo

Afgangur af pasta (frá kvöldinu áður)

4 egg

salt og pipar eftir smekk

örlítið af mjólk

Parmigiano di Reggiano ostur

nokkrar sneiðar af mozzarella



Takið afgang af pasta frá kvöldinu áður og setjið í skál. Sláið út í það fjórum eggjum (fer eftir pastamagni), stráið smá salti og pipar yfir og vætið með ögn af mjólk, gætið þó þess að hræringurinn sé ekki blautur.

Rífið niður slatta af Parmigiano di Reggiano osti. Hitið olíu á pönnu og skellið hræringnum á pönnuna þegar hún er orðin vel heit. Skellið loki á pönnuna þegar hræran er orðin föst í sér og gyllt í botninn og hvolfið henni af öryggi í lokið. 

Leggið kökuna öfuga á pönnuna svo hún steikist báðum megin. Bræðið nokkrar sneiðar af mozzarella ofan á. Leyfið köku að kólna og lyfta sér svo auðvelt sé að skera hana í sneiðar. 

Stráið yfir hana basil, rucola eða steinselju rétt áður en hún er borin fram.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×