Viðskipti innlent

Lífeyrissjóðir afar spenntir en Steingrímur vill ekki selja

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Rúmlega eitt hundrað milljarðar króna gætu fengist fyrir þriðjungshlut í Landsvirkjun og lífeyrissjóðirnir eru spenntir fyrir því að fjárfesta í fyrirtækinu. Fjármálaráðherra segir það hins vegar ekki á dagskrá ríkisstjórnarinnar.

Landsvirkjun hefur verið verðlögð á þrjú hundruð milljarða króna. Það þýðir að um eitt hundrað milljarðar króna gætu fengist fyrir um þriðjungshlut í fyrirtækinu. Það þarf ekkert að fjölyrða um hversu mikil búbót það yrði fyrir ríkissjóð og lífeyrissjóðirnir eru spenntir að kaupa.

Stöð 2 hefur heimildir fyrir því að minnsta kosti tveir stórir lífeyrissjóðir séu spenntir fyrir Landsvirkjun og myndu alvarlega íhuga slíkan kost væri hann yfirleitt í boði.

Efnahags- og viðskiptaráðherra vill skoða möguleikann á þessu. „Ef að þriðjungshlutur í fyrirtækinu yrði seldur á þann veg að hlutafé þess yrði aukið þá yrði eiginfjárstaða fyrirtækisins svo góð að lánshæfismat fyrirtækisins yrði sterkara en lánshæfismat ríkisins og fyrirtækið þyrfti ekki á ríkisábyrgð að halda. Ég held að við eigum að hugsa þetta og ég held að það sé umhugsunarefni hvort við ættum að selja þriðjungshlut í fyrirtækinu til lífeyrissjóðanna, til dæmis," sagði efnahags- og viðskiptaráðherra í nýjasta þættinum af Klinkinu.

Fjármálaráðuneytið heldur á hlutabréfi ríkisins í Landsvirkjun. Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra segir þetta ekki á dagskrá.

„Nei, það var ákveðið og afgreitt hér í þessari ríkisstjórn í tengslum við mikla umfjöllun um orkumál fyrir ári síðan eða meira að við myndum ekki hrófla við opinberu eignarhaldi á stóru orkufyrirtækjunum, þannig að það er ekki á dagskrá þessarar ríkisstjórnar," segir Steingrímur.

„Þannig að það kemur ekki til greina af þinni hálfu að selja? „Nei, það hefur engin einkavæðing eða sala á eignarhlutum í stóru orkufyrirtækjunum verið svo mikið sem rædd og þvert á móti hið gagnstæða." [email protected]






Fleiri fréttir

Sjá meira


×