Viðskipti innlent

Erna Gísladóttir að eignast B&L og Ingvar Helgason

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Eigendur BLIH ehf., móðurfélags Ingvars Helgasonar og B&L, hafa ákveðið að taka tilboði Ernu Gísladóttur, fyrrverandi forstjóra B&L, í allt hlutafé í fyrirtækinu. Framkvæmdastjóri Miðengis, dótturfélags Íslandsbanka, segist vongóður um að gengið verði frá sölunni á næstu dögum.

Eignarhaldsfélagið BLIH ehf. fer með allt hlutafé í Ingvari Helgasyni ehf. og B&L (Bifreiðar og landbúnaðarvélar ehf.)

Eftir bankahrunið eignðust bankarnir þessi fyrirtæki vegna skuldavanda eigenda þeirra en hluthafar í BLIH ehf. eru Miðengi, dótturfélag Íslandsbanka, sem fer með tæplega 63 prósenta hlut, Landsbankinn sem á 18,6 prósent og Lýsing sem á 18,5 prósent.

Fyrirtækið hefur verið í söluferli hjá fyrirtækjaráðgjöf Íslandsbanka og skiluðu tíu aðilar inn óskuldbindandi tilboðum.

Eigendur BLIH ehf. ákváðu síðan að taka tilboði Ernu Gísladóttur, fyrrverandi forstjóra B&L en hún er dóttir Gísla Guðmundssonar, fyrrverandi eiganda og stjórnarformanns B&L til margra ára. „Það var ákveðið að hleypa einum aðila áfram. Við töldum þetta tilboð þjóna best hagsmunum okkar. Þetta var besta tilboðið, en ferlið er ekki búið," segir Ólafur Þór Jóhannesson, framkvæmdastjóri Miðengis.

Birgjar þurfa hins vegar að samþykkja söluna, en þar er um að ræða fyrirtæki eins og Subaru, Hyundai, Nissan/Renault og BMW og Landrover í tilviki B&L. „Það er að mörgu leyti flókið að selja fyrirtækið því það þurfa margir ólíkir aðilar að samþykkja," segir Ólafur Þór.

Erna Gísladóttir ætti að þekkja ágætlega til hjá BMW og Land Rover, sem framleiða m.a Range Rover biðfreiðarnar, þar sem hún gegndi starfi forstjóra B&L til ársins 2008 en hafði þar á undan starfað hjá fyrirtækinu frá árinu 1987. Hún er í raun þriðja kynslóð stjórnanda hjá B&L því afi hennar stofnaði fyrirtækið árið 1954. Við sölu á fyrirtækjum af þessu tagi skiptir afstaða birgja miklu máli því þeir ráða hvort þeir fari í samstarf við nýja eigendur.

B&L og Ingvar Helgason eru ekki fyrstu bílaumboðin sem Erna reynir að kaupa eftir bankahrunið því hún var á meðal þeirra sem skiluðu inn tilboðum í Heklu, án árangurs, þegar fyrirtækið var selt fyrr á þessu ári.

Nú stendur yfir áreiðanleikakönnun á B&L og Ingvari Helgasyni af hálfu kaupenda. Framkvæmdastjóri Miðengis sagðist vonast til þess að hægt væri að ganga frá sölunni á næstu dögum. „Ég vona að þetta gerist á allra næstu dögum," sagði Ólafur Þór en bætti við að það gæti gerst að því gefnu að birgjar gæfu samþykki sitt og að ekkert óvænt kæmi upp á.

Guðmundur Gíslason, afi Ernu, stofnaði B&L, Bifreiðar og landbúnaðarvélar, ásamt fleirum fyrir 57 árum, en fjölskyldan seldi dótturfélagi Sunds allt hlutafé í fyrirtækinu árið 2007. [email protected]






Fleiri fréttir

Sjá meira


×