Lífið

Vesturport hellir sér útí gamanleik og farsa

Með hnút í maganum Vesturport hyggst næst reyna sig við gamanleik en nýjasta sýning hópsins fjallar um húsmóðurshlutverkið á Íslandi. Gísli Örn segist vera með hnút í maganum yfir þessu en þetta sé bæði ögrandi og nýtt fyrir þau.Fréttablaðið/Valli
Með hnút í maganum Vesturport hyggst næst reyna sig við gamanleik en nýjasta sýning hópsins fjallar um húsmóðurshlutverkið á Íslandi. Gísli Örn segist vera með hnút í maganum yfir þessu en þetta sé bæði ögrandi og nýtt fyrir þau.Fréttablaðið/Valli

„Það var kominn tími til að reyna sig við gamanleik, eftir að hafa verið í svona „léttmeti" eins og Hamskiptunum og Fást," segir Gísli Örn Garðarsson, leikari og leikstjóri. Vesturport í samstarfi við Borgarleikhúsið hyggst setja upp sýningu sem verður í eilítið öðruvísi dúr en aðrar sýningar hópsins. Um er að ræða farsakenndan gamanleik um húsmóðurshlutverkið á Íslandi. Verkið er glænýtt, skrifað af þeim Víkingi Kristjánssyni, Birni Hlyni Haraldssyni, Nínu Dögg, Jóhanni Níels og Gísla Erni.

Þetta verður í fyrsta skipti sem hópurinn tekst á við frumsamið verk eftir sjálfan sig. „Undantekningin er náttúrlega söngleikurinn Ást en við lékum ekki í honum. Núna er annað uppá teninginum." Gísli segir að þetta sé í takt við stefnu leikhópsins, þau vilji ögra sjálfum sér og virkja leikhúsformið í botn.

„Núna ætlum við að setja húsmóðurshlutverkið í farsakenndan stíl og ýta sjálfum okkur út á ystu nöf," segir Gísli en sýningar Vesturports hafa hingað til ekki verið beint fyrir lofthrædda. Og ef marka má lýsingar Gísla verður engin breytingar þar á, fólk mun jafnvel falla á milli hæða.

„Ég veit ekki hvað þetta er, við erum skíthrædd við þetta, þetta er einhver sjálfseyðingarhvöt, að vera ung og hugsa að þá sé um að gera að þenja sig í botn. Ég er eiginlega alveg með hnút í maganum yfir þessu."

Gísli segir að hugmyndin að verkinu hafi kviknað í kringum fréttir af mansali og vændi á Íslandi.

„Þetta var á þeim tíma þar sem við veltum því fyrir okkur hvað við ættum að gera næst. Og í kjölfarið vildum við fjalla um húsmóður sem er ekki öll þar sem hún er séð og hvað það þýðir að vera húsmóðir. Þetta er kannski það starf sem við heyrum hvað minnst um," útskýrir Gísli og bætir því við að verkið bjóði uppá mikla karaktersköpun en áætluð frumsýning er í apríl 2011.

En þangað til að þessi sýning fer á fjalir Borgarleikhússins er hópurinn í óða önn að undirbúa afmælissýningu Fást í Young Vic-leikhúsinu sem fagnar fjörtíu ára afmæli í ár. Gísli segir þau vera að undirbúa sig andlega undir gullna reglu þegar kemur að svona ferðalögum; að allt sem geti farið úrskeiðis fari yfirleitt úrskeiðis.

„Það á eftir að kosta mikla vinnu til að þetta verði í lagi og það er að mörgu að huga."

[email protected]






Fleiri fréttir

Sjá meira


×