Innlent

Lög og reglur í vegi einföldustu verkefna

Ólafur Örn Haraldsson
Ólafur Örn Haraldsson

Þunglamaleg lög og flókið regluverk koma í veg fyrir að hægt sé að bregðast við niðurníðslu á fjölförnum ferðamannastöðum með skjótum og skilvirkum hætti. Tvö ár tekur að fá tilskilin leyfi til minnstu verka, ef engar tafir verða.

Ólafur Örn Haraldsson, þjóðgarðsvörður á Þingvöllum, bendir á þetta.

Hann segir að þó að enginn vilji hroðvirknisleg vinnubrögð við uppbyggingu við helstu náttúruperlur þjóðarinnar sé full ástæða til að bregðast við alvarlegum vanda sem upp sé kominn.

„Það þarf ekki fullmótaða framtíðarstefnu til að taka til í kringum sig. Verkefnin blasa við öllum sem vilja sjá. Það þarf að hefjast handa og sleppa fundarhöldunum.“

Umhverfis- og iðnaðarráðuneytið efndu til málþings um náttúruvernd og ferðaþjónustu nýlega í kjölfar svartrar skýrslu Umhverfis­stofnunar um ástand friðlýstra svæða á Íslandi. Í skýrslunni er dregið fram að mörg friðlýst svæði, og þar á meðal þekktustu náttúruperlur þjóðarinnar, muni tapa verndargildi sínu ef ekki verði brugðist við.

„Það verður að hefjast handa en lög og reglur standa í vegi fyrir einföldustu verkefnum,“ segir Ólafur.

Frá Þingvöllum Yfir 300 þúsund gestir sækja Þingvelli á ári. Þjóðgarðurinn, sem er á heimsminjaskrá, hefur sama og engar tekjur af komu þeirra.fréttablaðið/pjetur

„Hér er um að ræða skipulags- og byggingarlög og náttúruverndarlög og flókið regluverk með sínum umsagnar- og kæruferlum. Það verður annaðhvort að endurskoða lögin og regluverkið eða gera undanþágur til að klára þau verk sem eru mest aðkallandi.“

Ólafur segir ekki um flókin eða dýr verkefni að ræða í mörgum tilfellum. Því sé oft öfugt farið. „Bregðast þarf við ástandi sem allir eru sammála um að sé óþolandi en það er ekki hægt með litlum fyrirvara eins og mál standa.

Það tekur um tvö ár að koma í gegn framkvæmd frá því að skipulagsferli hefst og er þá ekki gert ráð fyrir töfum sem fylgja til dæmis kæruferli,“ segir Ólafur.

Hann vill að ríkið setji á fót fimm ára áætlun með það að markmiði að leysa bráðasta vandann í þjóðgörðum og við aðra mikilvæga ferðamannastaði.

Þá verði gjaldtaka vart umflúin þar sem lítil von sé að ríkið setji fjármuni í málaflokkinn eins og sakir standa.

Katrín Júlíusdóttir iðnaðarráðherra mun leggja fram frumvarp til laga í vetur um stofnun Framkvæmdasjóðs ferðaþjónustunnar. Hins vegar er umdeilt hvort og hvernig standa skuli að gjaldtöku til að afla sjóðnum fjár.

[email protected]




Fleiri fréttir

Sjá meira


×