Innlent

Hélt að konan væri frá Suður-Ameríku

„Nú skilur maður loksins hvað orðið móðuharðindi þýðir," segir Haukur Snorrason, ferðabóndi í Hrífu­nesi í Skaftártungu. Haukur og kona hans, Hadda Björk Gísladóttir, sem hafa síðan í fyrra rekið ferðaþjónustu á bænum í hjáverkum, voru komin að Hrífunesi á miðvikudag og ætluðu að verja einum degi í viðhald á húsinu og snúa svo heim. Ferðin varð hins vegar lengri en til stóð.

„Við vorum að grilla þegar við sáum koma svart ský í áttina að bænum," segir Hadda.

„Svo bara dimmdi. Það var komið kolniðamyrkur klukkan hálf átta." Ekki hafi séð til sólar og aska hafi þakið allt. „Það var komið myrkur hjá okkur tveimur tímum fyrr en í Hveragerði," bætir Haukur við og skellir upp úr.

„Ég hélt að konan væri frá Suður-Ameríku þegar hún kom inn með grillpinnana," segir hann. „En svo var þetta bara sama konan."

Hjónin voru innlyksa austan Markarfljóts ásamt nokkrum iðnaðarmönnum þegar blaðamann og ljósmyndara bar að garði og höfðu verið frá því að vegurinn við Markarfljótsbrúna var rofinn um miðjan dag á miðvikudag. Þá stefndi þó í að þau kæmust heim daginn eftir.

Haukur segir að túnin við bæinn hafi verið orðin grá af ösku í gærmorgun en vindurinn hafi síðan feykt stórum hluta af henni í burtu aftur. Hjónin sjá ekki fram á nokkurt tjón, að því gefnu að öskufallið á þessum slóðum verði ekki mikið meira. [email protected]






Fleiri fréttir

Sjá meira


×