Lífið

Stefnir til Hollywood að kynna sér þotuliðsþjálfara

Logi Geirsson.
Logi Geirsson.

„Þetta er ógeðslega skemmtilegt nám og rosalega krefjandi. Það er farið rosalega djúpt í allt: næringarfræði, lífeðlisfræði og þjálfunarfræði," segir handboltakappinn Logi Geirsson.

Logi og Ingibjörg kærastan hans útskrifast sem einkaþjálfarar í dag frá Keili. Hann hyggst flytja ræðu við athöfnina og lofar að hún verði svakaleg. „Það er mjög ólíklegt að ræðan verði hefðbundin því ég hef aldrei heyrt útskriftarræðu áður, en ég ætla að ræða eitt og annað," segir hann.

Logi flutti nýlega til landsins á ný eftir að hafa búið í Þýskalandi síðustu ár. Hann býr með kærustunni og saman eiga þau von á frumburðinum á næstu dögum.

Logi segir einkaþjálfaraprófið vera grunninn, en hann hyggst fara í nám í íþróttaþjálfun næsta haust. „Ég ætla að taka þetta alla leið," segir hann kokhraustur.

„Svo ætla ég að fara með konunni til Los Angeles og kynna mér þotuliðið í þjálfunarbransanum. Við ætlum að skoða hvað er að gerast í Hollywood - það er alltaf talað um að allt sé að gerast þar. Mig langar að sökkva mér í þetta. Kynna mér einkaþjálfara stjarnanna og sjá eitthvað nýtt."

Logi er ekki fyrsti handboltakappinn sem fellur fyrir einkaþjálfaranáminum. Á meðal þeirra sem hafa einnig stundað námið eru Guðjón Valur, Björgvin Páll, Einar Hólmgeirsson, Vignir Svavarsson, Ragnar Óskarsson og Þórir Ólafs. En er Logi strax byrjaður að taka fólk í einkaþjálfun?

„Ég tek fyrst bróður minn og konuna hans í gegn ásamt nokkrum vel völdum vinum. Ég ætla að afla mér reynslu og koma mér í gírinn áður en ég byrja á afrekskrökkunum."

[email protected] [email protected]






Fleiri fréttir

Sjá meira


×