Innlent

Gufustrókar hækka í 12.000 fet í logninu

Mynd/Jónella Sigurjónsdóttir.
Mynd/Jónella Sigurjónsdóttir.

Gufustrókar úr eldstöðvunum á Fimmvörðuhálsi hækkuðu verulega þegar líða tók á daginn í gær og vind lægði.

Áhöfn TF-SIFJAR, eftirlitsflugvélar Landhelgisgæslunnar, telur gufustrókana hafa náð um tólf þúsund feta hæð, en hún flaug yfir svæðið um kvöldmatarleytið. Þá var hægur vindur og strókarnir fuku lítt.

Vísindamenn telja kvikuna, sem er svipuð kvikunni er kom upp í Surtseyjargosinu, vera milli 1.150 og 1.200 stiga heita. Í viðtali við Stöð tvö í gær sagði Haraldur Sigurðsson eldfjallafræðingur að hraunið gæti náð til Þórsmerkur á næstu dögum.

Nú sjást fjórir til fimm gos­strókar á svæðinu, en voru allt að tólf fyrstu dagana.

Mælingar gefa til kynna að þrýstingur í eldstöðinni sé óbreyttur og ekkert hefur dregið úr rennsli. Því er enn talin hætta á að gosið fari undir jökul og skapi þannig flóð.

Því er umferð um Eyjafjallajökul og Þórsmörk bönnuð. Ökutæki mega heldur ekki fara upp Fimmvörðuháls vegna aurbleytu. Sú leið er hins vegar opin göngugörpum, sem fara upp á eigin ábyrgð. [email protected]






Fleiri fréttir

Sjá meira


×