Innlent

Hanna Birna vinnur á meðal kvenna

Talsvert fleiri segjast nú vilja að Hanna Birna Kristjánsdóttir, borgarstjóri og oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, verði borgarstjóri en fyrir viku, samkvæmt nýrri könnun Fréttablaðsins og Stöðvar 2.

Alls vilja 39,8 prósent þeirra sem afstöðu tóku í könnuninni, sem gerð var síðastliðinn fimmtudag, að Hanna Birna haldi áfram sem borgarstjóri eftir kosningarnar. Það er 7,4 prósentustiga aukning frá sambærilegri könnun sem gerð var viku fyrr.

Stuðningur við Hönnu Birnu hefur hingað til mælst svipaður hjá báðum kynjum. Síðustu vikuna hefur stuðningur meðal kvenna aukist. Nú sögðust 43,7 prósent kvenna vilja Hönnu Birnu en 33,2 prósent í könnuninni viku fyrr. Munurinn er 10,5 prósentustig.

Hanna Birna hefur verið í forgrunni í kosningabaráttu Sjálfstæðisflokksins í borginni. Hún sendi meðal annars bréf í eigin nafni á stóran hóp kvenna í borginni, þar sem hvorki nafn né merki Sjálfstæðisflokksins kom fyrir. Konur voru þar hvattar til að merkja við D til að styðja Hönnu Birnu.

Stuðningur við Jón Gnarr, oddvita Besta flokksins, sem næsta borgarstjóra dalar í takti við örlítið minnkandi fylgi flokks hans í könnunum. Um 33,5 prósent sögðust vilja Jón sem borgarstjóra nú, en 36,1 prósent fyrir viku.

Færri sögðust vilja Dag B. Eggertsson, oddvita Samfylkingarinnar, á stóli borgarstjóra nú en fyrir viku. Alls vildu 20,6 prósent Dag nú en 24,1 prósent fyrir viku. Í sambærilegri könnun sem gerð var 29. apríl sagðist 31 prósent vilja Dag sem borgarstjóra.

Hingað til hefur stuðningur við Dag mælst mun meiri meðal kvenna en karla. Nú bregður svo við að stuðningur kvenna við hann hefur dalað umtalsvert milli kannana, mögulega vegna aukins stuðnings kvenna við Hönnu Birnu.

Stuðningur við aðra í stól borgar-stjóra mældist mun minni. Alls nefndu 3,4 prósent Sóleyju Tómasdóttur, oddvita Vinstri grænna, og 1,1 prósent Einar Skúlason, oddvita Framsóknarmanna. Sama hlutfall nefndi Ólaf F. Magnússon, oddvita [email protected]








Fleiri fréttir

Sjá meira


×