Innlent

Reykjanesbrautin flutt fjær álverinu

Reykjanesbrautin Áformað er að lokið verði við tvöldun og færslu Reykjanesbrautarinnar 2015. fréttablaðið/vilhelm
Reykjanesbrautin Áformað er að lokið verði við tvöldun og færslu Reykjanesbrautarinnar 2015. fréttablaðið/vilhelm

Meðal framkvæmda sem ráðist verður í, þegar og ef semst um fjármögnun milli ríkisins og lífeyrissjóðanna, er að ljúka tvöföldun Reykjanesbrautarinnar. Í því felst jafnframt að flytja vegstæði hennar fjær álverinu í Straumsvík.

Að sögn Hreins Haraldssonar vegamálastjóra er í skipulagi Hafnarfjarðarbæjar gert ráð fyrir flutningi brautarinnar. Byggist það á fyrirheitum bæjarins til álversins um lóð handan núverandi Reykjanesbrautar þegar stækkun þess var áformuð.

Eins og fram kom í Fréttablaðinu í gær hafa viðræður ríkisins og lífeyrissjóðanna um fjármögnun gengið vel og binda forvígismenn aðila vonir við að samningar kunni að vera á næsta leiti.

Kristján Möller, sem stýrir viðræðunum af hálfu ríkisins, segir ákaflega brýnt að koma framkvæmdum sem fyrst af stað. Fjöldi starfa og öryggi sé undir.

„Það er algjört frost á markaðnum og því mikilvægt að geta byrjað sem fyrst. En þetta er ekki bara atvinnumál heldur líka mesta átak í umferðaröryggismálum sem ráðist hefur verið í og því afar þjóðhagslega hagkvæmt.“

Framkvæmdirnar á suðvesturhorninu verða á vegum sérstaks hlutafélags í eigu ríkisins sem einnig annast rekstur og viðhald veganna. Frumvarp um heimild til að stofna slíkt félag varð að lögum í sumar. Innheimt verða veggjöld til að standa straum af kostnaði við framkvæmdir.

Annað félag verður stofnað um Vaðlaheiðargöngin. Verður það í eigu Vegagerðarinnar og sveitarfélaga nyrðra. Samkvæmt Kristjáni Möller hafa sveitarfélög heitið hlutafjárframlögum upp á um 200 milljónir króna.

Í undirbúningsvinnu vegna framkvæmdarinnar hefur verið notast við gögn Greiðrar leiðar, félags í eigu sveitarfélaga og KEA sem stofnað var fyrir nokkrum árum til að vinna að framgangi Vaðlaheiðarganga. Rukkað verður fyrir umferð um göngin.

[email protected]




Fleiri fréttir

Sjá meira


×