Lífið

The Suburbs best í Bretlandi

Plata ársins í Bretlandi er The Suburbs með Arcade Fire samkvæmt samantekt HMV. The National hafnaði í öðru sæti og LCD Sound­system í því þriðja.

The Suburbs með kanadísku hljómsveitinni Arcade Fire er plata ársins samkvæmt árlegri samantekt bresku verslunarkeðjunnar HMV.

Þetta er í annað sinn sem Arcade á plötu ársins í könnuninni. Síðast náði fyrsta plata sveitarinnar, Funeral, toppnum árið 2005. „Í fyrsta sinn sem ég hlustaði á The Suburbs vissi ég að það yrðu ekki margar betri plötur gefnar út á þessu ári," sagði framkvæmdastjóri HMV. Könnunin er byggð á árslistum breskra tónlistartímarita, dagblaða, vefsíðna og fleiri fjölmiðla í Bretlandi.

Liðsmenn Arcade Fire voru að vonum ánægðir með árangurinn og fullir þakklætis:

„Það er frábært að komast á toppinn hjá HMV í annað sinn á þessum áratug. Þetta er mikill heiður. Takk fyrir," sögðu þeir í yfirlýsingu sinni.

Í öðru sæti lenti bandaríska sveitin The National með sína fimmtu hljóðversplötu, High Violet, og í því þriðja varð platan This Is Happening með danssveitinni LCD Soundsystem. Í fjórða sæti lenti bandaríska dúóið Beach House og í því fimmta R&B-söngkonan Janelle Monae.

Þetta er tíunda árið í röð sem HMV útnefnir plötu ársins. Á síðasta ári sigraði hljómsveitin Animal Collective með plötuna Merriweather Post Pavilion.

[email protected]






Fleiri fréttir

Sjá meira


×