Innlent

Skortur á kjúklingi í verslunum enn á ný

jón bjarnason
„Það fylgir ekkert vottorð með erlendum kjúklingi,” segir landbúnaðarráðherra.
jón bjarnason „Það fylgir ekkert vottorð með erlendum kjúklingi,” segir landbúnaðarráðherra.

Salmonellusmit hjá kjúklingaframleiðendum á þessu ári hefur leitt til viðvarandi skorts á kjúklingi í verslunum, að mati framkvæmdastjóra Bónuss og Krónunnar. Upp kom smit í kjúklingum frá Matfugli og Reykjagarði í síðustu viku á ný og voru vörur innkallaðar úr verslunum í kjölfarið.

Kristinn Skúlason, framkvæmdastjóri Krónunnar, segir ástandið mjög slæmt.

„Þetta er búið að vera vandamál í marga mánuði, en núna er þetta sérstaklega slæmt,“ segir Kristinn. „Við fáum ekki nema brotabrot af því sem við pöntum.“ Kristinn segir ótrúlegt að ekki sé hægt að auka innflutningskvóta á erlendum kjúklingi til þess að anna eftirspurn á markaðnum.

Jón Bjarnason, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, segir enga ástæðu til þess að auka innflutningskvóta á erlendum kjúklingi. Ráðuneytinu hafi hvorki borist formlegar fyrirspurnir um rýmkun á kvóta né athugasemdir varðandi skort á markaði.

kjúklingaframleiðsla Eftir endurtekið salmonellusmit hjá kjúklingaframleiðendum segja framkvæmdastjórar verslana að skortur sé á markaðnum.fréttablaðið/hari

Jón segir málið fyrst og fremst snúa að því að uppræta salmonellusmit í innlendri framleiðslu til þess að halda henni heilbrigðri.

„Það er mjög strangt heilbrigðiseftirlit hér á landi og fólk þarf ekki að óttast að í búðum séu smitaðir kjúklingar,“ segir Jón. „Við höfum státað af því að vera með heilbrigðustu kjúklingaframleiðsluna miðað við nágrannalöndin. Það fer ekkert á markað sem er smitað.“

Jón segir að innfluttum kjúklingi fylgi ekki heilbrigðisvottorð varðandi salmonellu.

„Erlendur kjúklingur er ekkert endilega laus við salmonellu,“ segir hann.

„Það fylgir ekkert vottorð með innfluttum kjúklingi hvort hann er salmonellufrír eða ekki.“

Þorvaldur H. Þórðarson, framkvæmdastjóri innflutningsmála hjá Matvælastofnun, fullyrðir þó að innfluttum kjúklingi fylgi vottun um að hann sé salmonellufrír. Hann vísar þó á ráðuneytið hvað varðar rýmkun á innflutningstollum sökum mögulegs skorts á innlendum kjúklingi.

Um 250 tonn af kjúklingi voru urðuð í sumar vegna salmonellusýkingar sem upp kom í eldishúsum Reykjagarðs og Matfugls.

[email protected]




Fleiri fréttir

Sjá meira


×