Menning

Dansarar funda í Höfn

Steinunn Ketilsdóttir Tekur þátt í norrænum dansfundi í Kaupmannahöfn nú um helgina.
Steinunn Ketilsdóttir Tekur þátt í norrænum dansfundi í Kaupmannahöfn nú um helgina.

Um tuttugu íslenskir danshöfundar eru samankomnir í Kaupmannahöfn nú um helgina til að minnast Reykjavík Dance Festival.

Hátíðin, sem halda átti í sjötta sinn þessa helgi, er í uppnámi eftir að menntamálaráðuneytið hætti stuðningi við hana í vor. Danshöfundarnir hafa þegið boð um að vera þátttakendur í Keðju, norrænum dansfundi í Kaupmannahöfn, þar sem danslistin verður rædd í pólitísku samhengi auk þess sem tvö íslensk dansverk líta dagsins ljós.

Fréttablaðið ræddi við danshöfundana, Steinunni Ketilsdóttur og Sveinbjörgu Þórhallsdóttur, um Reykjavík Dance Festival og mikilvægi hátíðarinnar fyrir þróun dans á Íslandi. „Reykjavík Dance Festival varð til árið 2002 að frumkvæði sjálfstætt starfandi danshöfunda sem ákváðu að sameina krafta sína og skapa vettvang fyrir ný íslensk dansverk," segir Sveinbjörg og bætir við að hátíðin sé eini skipulagði vettvangur sjálfstætt starfandi danslistamanna á Íslandi. Frá stofnun hennar hafi hún alið af sér hátt á fjórða tug nýrra íslenskra dansverka. Steinunn tekur undir orð Sveinbjargar og segir að aukið framboð sýninga þýði aukin atvinnutækifæri fyrir dansara á Íslandi. „Margir íslenskir dansarar og danshöfundar starfa erlendis vegna skorts á aðstöðu og aðbúnaði hérlendis. Þannig erum við að missa hluta af okkar menningarauði úr landi."

Í vor hætti menntamálaráðuneytið stuðningi við hátíðina og erfiðlega hefur gengið að sækja fjármagn til einkaframtaksins. „Þetta er óskiljanleg ákvörðun af hálfu ráðuneytisins," segir Steinunn. „Reykjavík Dance Festival hefur sannað mikilvægi sitt fyrir framþróun íslenskrar dansmenningar. Einstaklingar og hópar hafa sprottið fram í auknum mæli og skapað sér sess hérlendis og erlendis fyrir tilstuðlan hátíðarinnar."

Sveinbjörg bætir við að dansinn sé hágæða útflutningsvara sem sannist á því að erlendis megi finna fleiri sýningarkvöld á íslenskum listdansi heldur en hérlendis. „Dansinn er alþjóðleg listgrein í stöðugri uppsveiflu og okkur ber skylda til að rækta og efla tengslin við samstarfsaðila okkar erlendis." Hún segir að hlutverk Reykjavík Dance Festival hafi meðal annars verið að bjóða hingað skipuleggjendum erlendra danshátíða sem koma íslenskum dansverkum á framfæri erlendis.

„Það er mjög sorglegt að hugsa til þess að öll sú óeigingjarna vinna sem fór í að byggja upp hátíðina hafi verið unnin til einskis," segir Steinunn, „Þetta er öfugþróun og merki um skammsýni ráðamanna. Sem atvinnugrein stuðlar danslistin að verðmætasköpun. Möguleikarnir til að laða að erlent fjármagn eru miklir en til þess að það markmið náist þarf fyrst að skapa nauðsynleg vaxtarskilyrði fyrir danslistina hérlendis og það byggist á samfelldri aðkomu opinberra aðila." Sveinbjörg tekur undir orð Steinunnar og bætir við að nauðsynlegt sé að treysta rekstrargrundvöll Reykjavík Dance Festival. Að lokum skora þær á Þorgerði Katrínu menntamálaráðherra að snúa ákvörðun ráðuneytisins við og tryggja þannig komandi kynslóðum aðgengi að fjölbreyttri dansmenningu. kmj/[email protected]






Fleiri fréttir

Sjá meira


×